Hins vegar voru það ekki örlög hans því í byrjun næstu “krúnu”, Preakness veðhlaupinu, sló hann saman og braut á sér afturlöpp með þeim afleiðingum að hann gat ekki haldið áfram. Í ljós kom að hann hafði mölbrotið þrjú bein í hægri fæti. Í stað þess að aflífa hann á staðnum var farið með hann í aðgerð sem var byrjunin á átta mánaða og mjög umdeildu ferli.
Aðgerðin sem fór fram 20. maí tók um fimm tíma og í löppina var sett títaníumplata ásamt 27 skrúfum. Á þeim tíma töldu dýralæknar vera helmingslíkur á að hann lifði þá aðgerð af. Meðal aðferða sem notaðar voru til að minnka álag á lappirnar var að hafa hann í nokkurs konar hengirúmi.
Sjö dögum síðar byrjuðu fyrstu aðgerðir til að reyna að koma í veg fyrir það sem að lokum leiddi hann til dauða, sjúkdóm sem á ensku kallast laminitis. Laminitis er víst nokkuð algengt hjá hrossum sem þurfa að beina þyngd sinni mikið á annan fótin. Fóturinn veikist við það og getur á endanum gefið sig. Þetta er mjög sársaukafullur sjúkdómur.
13. júlí er opinberlega lýst yfir að Barbaro sé með laminitis og að heil 80% af vinstri afturhófi hans hafi verið fjarlægt! Aftur er lýst yfir að lífsmöguleikar Barbaro séu litlir á þessu stigi.
En hesturinn hlustar enn og aftur ekki á það og um þrem mánuðum síðar, eða 9. ágúst, er byrjað að fara út með hestinn í stutta stund í einu og nokkrum dögum síðar var reynt að taka hann af verkjalyfjum. Brotni fóturinn lítur mjög illa út en er mestmegnis heill og nothæfur. Enn er helsta vandamálið laminitis. Allt virðist ganga vel og er meðal annars lýst yfir þann 13. desember að mögulegt sé að hesturinn komist heim ekki svo löngu síðar. Það breytist hins vegar algjörlega mánuði síðar eða 10. janúar í ár þegar fréttir berast af mjög alvarlegu bakslagi. Enn meira var fjarlægt af vinstri afturhófnum og svo settar skrúfur í legginn á hestinum 27. janúar síðastliðinn. Töldu margir að þetta væri mjög vonlaus tilraun og í raun væri þetta vitni um að nú væru mögulegar lausnir dýralæknanna á sjúkdómnum komnar í þrot.
Um hádegi að íslenskum tíma þann 29. janúar var svo lýst yfir að Barbaro hafi verið aflífaður. Var þetta endirinn á 8 mánaðar þrautargöngu fyrir hestinn. Að sögn aðal eiganda hans segir hann að ákvörðunin hafi verið tekin eftir að ljóst var að nær illmögulegt væri fyrir hestinn að eiga sársaukalaust líf nokkurn tíman aftur.
Heimildir:
http://www.vet.upenn.edu/newsandevents/news/Barbaro.htm
http://www.bloodhorse.com/
—
Með öðru auganu hef ég fylgst með þessu langa ferli grey Barbaro síðan hann fyrst vann Derby kappreiðarnar og ég verð að viðurkenna að ég veit ekki um mikið sorglegri leið til að sjá hest yfirgefa þennan heim. Þó að ég efist ekki um að eigendurnir hafi viljað honum vel þá tel ég að það sé í raun grimmúðlegt að setja svo slasað dýr í þessa aðstöðu. Ég sé ekkert mannúðlegt við þetta og tel að mun heillvænlegra sé að aflífa dýr sem slasast svona mikið á staðnum í stað þess að reyna að lækna þau þegar líkurnar eru svona rosalega litlar. Hins vegar er vissulega alltaf erfitt að taka ákvörðun um að enda líf dýra sinna, sérstaklega ef þau hafa afrekað það sem Barbaro gerði.
Barbaro var mikill gæðagripur og mun án efa verða minnst sem slíks.
=)