Reglur kynbótasýninga á íslandi Reglur varðandi kynbótasýningar


Starfsfólk og verksvið þess:
Kynbótadómarar á Íslandi skulu hafa lokið framhaldsmenntun í búfjárfræðum og þurfa að hafa staðist sérstakt hæfnispróf Bændasamtaka Íslands. Hvað varðar kröfur til dómara á alþjóðavettvangi þá setur FEIF sérstakar reglur þar um. Á hverri kynbótasýningu starfa að jafnaði 2 dómarar og hafa samráð um einkunnir. Skipaður er formaður í hverri dómnefnd en hlutverk formanns er að sjá til að dómstörf gangi vel fyrir sig og að niðurstaða fáist. Á stærri sýningum getur þurft að skipa sýningarstjóra, mælingamann, tölvara og þul allt eftir stærðargráðu mótsins.

Almennt verklag:
Kynbótadómar fara þannig fram að fyrst koma hross til sköpulagsdóms en síðan til dóms á reiðhesthæfileikum. Þegar öll hross á sýningu hafa komið til dóms er haldin sérstök yfirlitssýning þar sem öll hæfileikadæmd hross eiga þátttökurétt. Á sýningum sem standa í viku eða lengur er heimilt er að skipta yfirlitssýningum upp á fleiri daga. Við hæfileikadóm eru notaðar að hámarki 5 ferðir í hvora átt eftir brautinni til að sýna reiðhestkosti gripsins. Á yfirlitssýningu eru 2-4 hross í braut í einu allt eftir aðstæðum og fjölda hrossa. Þar er dómurum heimilt að hækka fyrri dóm á einstökum reiðhestkostum komi hrossið betur fyrir.

Vellir og önnur aðstaða:
Fyrir sköpulagsdóm:
Þar sem aðstæður eru fyrir hendi skulu mælingar og dómar á sköpulagsþáttum fara fram innandyra (reiðhöll). Við byggingardóm skal vera fyrir hendi 20-30 m löng og 2-3 m breið afmörkuð og slétt braut.

Fyrir hæfileikadóm:
Hæfileikar skulu sýndir á beinni braut ca 250 -300 m langri og 4-6 m breiðri sem er vel afmörkuð en þó opin í báða enda. Yfirlag brautarinnar sé sambærilegt yfirlagi góðra keppnisvalla, þess skal gætt að yfirlagið sé slétt og vel valtað. Eins skal þess gætt eins og kostur er að brautin sé í sambærilegu ástandi út alla sýninguna. Þá skal þess gætt sem frekast er unnt að utanaðkomandi umferð trufli ekki. Brautin skal vera afmörkuð a.m.k. 2 dögum áður en dómstörf hefjast og aðstæður yfirfarnar af mótshaldara og fulltrúa dómnefndar. Dómarar skulu hafa góða vinnuaðstöðu og hindrunarlausa yfirsýn fyrir miðri braut í ca. 25-40 m fjarlægð.

Um hestinn:
Hross sem koma til kynbótadóms skulu vera vel undirbúin, hraust og ósár, vel fóðruð og hirt. Hross sem sýnd eru í reið skulu hafa náð 4 vetra aldri miðað við almanaksárið. Öll hross sem koma til kynbótadóms skulu vera grunnskráð í Feng og einstaklingsmerkt (örmerki/frostmerki). Starfsmenn sýningarinnar sjá um að samlesa einstaklingsmerkið við grunnskráningu. Allir stóðhestar sem koma til kynbótadóms skulu vera blóðflokkaðir eða DNA-greindir til staðfestingar á ætterni. Við dóma á stóðhestum 5 og 6 vetra skal framvísa vottorði um að hesturinn hafi verið myndaður með tilliti til spatts.

Járningar:
Hross sem sýnd eru í reið skulu vera járnuð. Járningin skal vera vönduð sem kostur er, eðlilegt samræmi sé milli tálgunar fram og afturhófa og hófhalli samsvari halla kjúkunnar. Hófar mega ekki vera lengri en 9,0 cm. Undantekningu frá þessari reglu má þó gera þegar hæð á herðar mælist 137 cm eða meira, mælt með stangarmái, en þá má hóflengdin vera allt að 9,5 cm. Ekki má muna meiru en 2 cm á lengd framhófa og afturhófa. Hámarksþykkt skeifna er 8 mm og hámarksbreidd 22 mm. Skeifurnar skulu vera samstæðar og úr samskonar efni. Efni skeifnanna hafi ekki meiri eðlisþyngd en hefðbundið skeifnajárn. Skeifurnar séu af hæfilegri stærð miðað við hófa og ekki má muna meiru í þykkt en 2 mm á fram- og afturfótaskeifum. Leyfilegt er að nota skafla, tvo í hverja skeifu, en þeir séu þá að hámarki (lengd*breidd*hæð) 15mm*15mm*12mm. Afbrigðileg járning, s.s. uppsteyptir hófar, er óheimil. Pottun skeifna er óheimil.

Reiðtygi og annar búnaður:
Hnakkar: Heimilt er að að nota alla hnakka og hnakkígildi sem ekki valda hrossinu óþægindum eða særindum og hæfa íslenskum hrossum. Beislabúnaður: Hann skal fara vel, vera rétt stilltur og ekki valda hestinum eymslum eða særindum. Beislismél: Lengd þeirra skal vera jöfn eða allt að 1 cm lengri en munnbreidd hestsins. Þykkt að lágmarki 10 mm. Mélin geta verið heil (án liðamóta) eða með einum eða tveimur liðum. Yfirborð mélana má ekki vera hrjúft eða gróft s.s. snúin mél, grófkorna eða ásoðin. Beislismél sem uppfylla framangreind skilyrði má nota við allar tegundir hringaméla, íslenskar stangir, hálfstangir og tvítaumsstangir (Pelhamstangir). Íslenskar stangir: Heildarlengd að hámarki 19 cm fyrir utan lausan hring. Tvítaumsstangir (Pelhamstangir): Hámarkslengd 16 cm fyrir utan lausan hring. Fyrir neðan mél allt að 12 cm og fyrir ofan mél að minnsta kosti 4 cm. Hálfstangir (án keðju): Heildarlengd allt að 14 cm. Reiðmúlar: Með hringamélum er heimilt að nota enskan múl (með eða án skáreimar), þýskan múl, mexíkóskan múl og spangamúl. Með íslenskum stöngum, hálfstöngum og tvítaumsstöngum er heimilt að nota enskan múl (með eða án skáreimar) eða mexíkóskan múl. Óheimilt er að nota beislabúnað sem ekki er í samræmi við framangreindar reglur. Dómnefnd getur veitt undanþágu á reglum þessum til notkunar á mélalausum beislabúnaði ef ástæða þykir til. Keyri: Leyfilegt er að nota písk, hámarkslengd 120 cm. Fótahlífar: Þær séu að hámarki 120 gr. (samanlagður þungi á hvern fót þ.e. legghlífar og hófhlífar) og í dökkum lit, svartar eða dökkbrúnar. Ef hlífar eru notaðar í hæfileikadómi þá skal sami búnaður notaður út alla sýninguna. Ef hlíf dettur af þá skal henni komið fyrir aftur áður en lengra er haldið.

Um knapa og umráðamenn:
Sami knapi sýni hrossin í einni og sömu sýningunni. Knapar skulu vera allsgáðir og sýni prúðmannlega reiðmennsku og þeir ásamt umráðamönnum hrossins sýni einnig kurteisi og háttvísi í framkomu. Að öðrum kosti getur dómnefnd áminnt viðkomandi eða vísað frá sýningu.
Verði knapi í kynbótasýningu uppvís af því að hestur hans greinist með ólögleg lyf, sbr. lyfjareglugerð (nr. 635/1996), hlýtur hann dóm samkvæmt íslenskum lögum og alþjóðareglum þar um. Hafi knapi gerst brotlegur samkvæmt lyfjareglugerð Landssambands hestamannafélaga (LH) eða FEIF gildir sá dómur sem hann hlýtur einnig í kynbótasýningum. Notkun reiðhjálma er skylda og skulu þeir vera fast spenntir.

Heimild: Hrossaræktarráðunautu