Sumum eftirminnilegum hrossum tengjast knaparnir svo sterkt að í minningunni verða hestur og knapi eitt. Það á sér stað eitthvað undarlegt samspil sem gerir það að verkum að manni finnst sem maður hestur renni saman í eitt. Þetta gerist ekki oft en það er því eftirminnilegra þegar það gerist. Þetta er eitt af því fjölmarga sem gerir hestamennskuna svo heillandi sem hún er og fær mann til að sveiflast allan tilfinningaskalan í áhorfendabrekkunni, ár eftir ár og áratug eftir áratug. Alltaf er eitthvað að koma manni á óvart og alltaf eru að bætast í hugann eftirminnilegar myndir.
Ein slík mynd er sýningin á Pilti frá Sperðli á landsmóti á Vindheimamelum árið 1990. Piltur, þessi flugrúmi yfirferðarhestur, setinn af ræktanda sínum, þeyttist um melana eins og hann hefði ekki hið minnsta fyrir nokkurri hreyfingu. Knapi og hestur þekktu greinilega hvorn annan og báðir vissu hvar mörkin lágu. Þá minntist ég sýningar á móður hans átta árum áður á sama stað og er mörgum ekki síður eftirminnileg, þar sem hún stóð efst og fékk meðal annars tíu fyrir vilja, sem vakti upp miklar umræður á sínum tíma.
Það bókstaflega sauð á hryssunni og hún hamdist varla fyrir hlaupagleði og vilja en sumir sögðu að viljinn hefði ekki verið síðri í knapanum en hryssunni og ef hún verðskuldaði tíu þá ætti knapinn a.m.k. fimmtán. Þessi viljaeinkunn varð til þess að ræktunarmenn fóru að skiptast á skoðunum um hvað væri hinn eftirsóknarverði vilji í íslenska reiðhestinum og urðu menn ekki á eitt sáttir varðandi það mál frekar en annað í þeim málaflokki.
Hvað sem viljanum í Perlu frá Kaðalstöðum leið þá hefur hann skilað sér prýðilega til sonarins því allar sýningar á Pilti frá Sperðli hafa verið frábær skemmtun og stundum hreinlega dæmi um stórkostlega ganghæfni íslenska hestsins. Það var oftast farið hratt yfir og sjaldan man ég eftir að hafa séð Pilt á hægu settlegu tölti en oftar á yfirferðargangi og þar naut hann sín sannarlega. Afköst hans og kraftur voru þess eðlis að menn hrifust og á landsmóti 1990 stóð Piltur efstur í flokki 5 vetra stóðhesta. Föðurætt Pilts er líka sterk og traust, svo menn litu björtum augum til hans sem kynbótagrips. Um hann var stofnað hlutafélag, Piltur sf, sem fór nokkuð kröftuglega af stað.
En árin eftir landsmótið 1990 urðu Pilti og mörgum öðrum stóðhestum erfið, því þá reið yfir hin mikla Orrabylgja og fjöldi góðra stóðhesta mátti lúta því að standa í skugga hans. En það verður ekki við það að sakast að öllu leyti þegar vægi Pilts í ræktunarstarfinu er metið. Sem kynbótagripur hefur Piltur ekki staðið undir þeim miklu væntingum sem við hann voru bundnar. Hann fékk sannarlega tækifæri til að láta að sér kveða því undir hann hafa verið leiddar margar af bestu hryssum landsins en því miður hefur útkoman ekki verið slík að hann muni skilja eftir sig djúp spor. Enginn verulega brúklegur stóðhestur er til undan honum og verður það stærsta ástæðan til þess að áhrif hans munu aldrei verða veruleg.
Margir hafa horn í síðu Pilts vegna þess að þeir telja hann gefa upp til hópa slaka byggingu. Það er ekki allskostar sanngjörn gagnrýni því mörg falleg Piltsafkvæmi hef ég séð og sum þeirra gullfalleg. Það sem er hins vegar verra að þau afkvæmi sem best eru varðandi hæfileika eru mörg hver ákaflega döpur þegar kemur að byggingu og síðan öfugt. Fá þeirra sameina þokkalega þetta hvorutveggja. Skortur á prúðleika er talsvert einkennandi þáttur í útliti þeirra og fáir fella sig við það. Þetta er sennilega arfur frá móðurinni, sem er undan frá Ófeigi frá Hvanneyri, sem síðan erfði það frá Skeifu, móður sinni. Svona elta gallarnir ræktunarmenn uppi og láta þá ekki friði.
Piltur sjálfur hefur oft glatt augað og skemmt manni í áhorfendbrekkunni og það var ekkert launingarmál að mér var farið eins og mörgum öðrum að leyfa mér talsverða bjartsýni fyrir hans hönd en nú er kaldur veruleikinn og tölurnar sem segja manni að þær vonir munu sennilega ekki rætast. En ef það á að þráast við þá er hægt að telja upp ýmislegt jákvætt við Piltinn. Hann gefur t.d. oft gott tölt og margt undan honum er viljugt og tekur talsvert undir sig. Ég hef kynnst geðgóðum og auðtömdum trippum undan honum og þó nokkur keppnishross hafa komið fram og sum náð langt. Á landsmóti í Reykjavík hlaut Piltur fyrstu verðlaun fyrir afkvæmi og var sá hópur sem fylgdi honum ekki eftirminnilegur og jók ekki hróður hans. Það er dæmi um hvernig ekki á að standa afkvæmasýningu, ef meiningin er að auka við og bæta orðspor kynbótahests. Það er því mitt mat að Piltur muni ekki valda straumhvörfum í hrossaræktinni, eins og til stóð, en hans verður lengi minnst af brekkudómurum, fyrir margar ógleymanlegar stundir. Piltur er ógleymanlegur sem gæðingur en auðgleymanlegur sem kynbótahestur.
Takið af 847.is,,:)