Galsi frá Sauðárkróki
,,Galsi er fæddur árið 1990 og var upphaflega í eigu Sveins Guðmundssonar á Sauðárkróki. Baldvin Ari Guðmundsson og Andreas Trappe keyptu hestinn á fjórða ári og sáu strax hvað í honum bjó. Síðar keyptu Hrossaræktarsamb. Suðurl., Hrossaræktarsamtök Eyf. og Þing. hlut í hestinum. Galsi var vægast sagt vel ættaður undan gæðingnum Ófeigi frá Flugumýri og Hervarsdótturinni Gnótt frá Sauðárkróki. Galsi var sýndur 4 vetra árið 1994. Þar hlaut hann 8,25 í aðaleinkunn, 7,88 í sköpulag og 8,63 fyrir hæfileika sem er glæsilegt af svo ungum hesti. Galsi hlaut fimm 9,0 í þessum dómi eða fyrir brokk, skeið, stökk, vilja og fegurð í reið.
Sinn hæsta dóm hlaut Galsi árið 1996, sex vetra gamall. Hann hlaut 8,44 í aðaleinkunn, 7,87 fyrir sköpulag og hvorki meira né minna 9,01 fyrir hæfileika.
Galsi sló svo í gegn á landsmóti á Melgerðismelum í Eyjafirði árið 1998. Þar sýndi hann hvað hann gat í flokki alhliða hesta og sigraði með glæsibrag. Af einhverjum ástæðum kom bakslag í vinsældir Galsa á kaffistofum hestamanna þar sem sumir sögðu hann lélegan á tölti og hefði ekki endilega átt sigurinn á LM skilið. Mikil neikvæðni var í sumum mönnum um tíma, þá sérstaklega þegar stóðhesturinn Glampi frá Efri-Rauðalæk var sýndur. Glampi stigaðist mjög hátt fyrir brokk og skeið, enda afburðahestur á þeim gangi. Töltið var með því versta sem gerist hjá graðhesti, hlaut t.d. 6,5 sex vetra fyrir tölt en hvorki meira né minna en 10,0 fyrir skeið. Þótti mönnum þar sannað að tölthæfileikar Galsa væru í slakara lagi.
Baldvin Ari barðist ötullega fyrir heiðri Galsa og sýndi hvern gæðinginn á fætur öðrum frá Efri-Rauðlæk, heimabæ foreldra sinna. T.d. eins og Ísól, Sól og Hraunar frá Efri-Rauðalæk sem eru með há fyrstu verðlaun. Þá birti yfir framtíð Galsa og fólk fór að vera jákvætt til hans. Í dag eru til 29 fyrstu verðlauyna afkvæmi undan Galsa og árið 2004 hlaut hann heiðursverðlaun fyrir afkvæmi, varð í fjórða sæti.
Dómsorð:
Afkvæmi Galsa eru ríflega meðalhross að stærð. Höfuðið er langt en skarpt og eyru finleg. Hálsinn er grannur og klipinn í kverk en bógar frekar beinir. Bakið er vöðvað og lendin jöfn en nokkuð grunn. Þau eru léttbyggð en fremur afturrýr. Fætur eru grannir og sinastæði lítil en hófar sæmilegir. Þau eru óprúð á fax og tagl. Tölt og brokk er hreint og rúmt en lyftingarlítið. Stökkið er teygjugott og skeiðið frá bært. Þau eru viljug með fallega hnakkabeygju en oft skortir á fótlyftu.
Galsi gefur fjölhæf og rúm ganghross með létta byggingu en veigalitla fætur. Hann hlýtur heiðursverðlaun fyrir afkvæmi og fjórða sætið.
Andreas Trappe, annar eigandi Galsa hefur alltaf viljað taka hann með sér til Þýskalands og kaupa hann allan. Á síðasta ári vildi Trappe klára það dæmi en Baldvini tókst að skapa hlutafélag um hestinn. Einn hlutur seldist á 100.000 krónur og er Galsi því metinn á 6-7 milljónir í dag. Framtíð Galsa er vafalaust björt á Íslandi og á landsmóti 2006 sigraði Galsasonurinn Stáli frá Kjarri elsta flokk stóðhesta með aðaleinkunina 8,76 og sló þar með heimsmet! Þetta sannar að ef maður gefst aldrei upp - sigrar maður alltaf og það gerðu Baldvin Ari og Galsi."
Þessi grein er frá 847.is