Hross, malbik og fleira
Ég er búin að vera viðloðandi hesta frá um átta ára aldri. Ég kom fyrst á bak hesti þegar við pabbi vorum að flakka austur í Öræfum og vinur pabba, Ingimar á Jaðri, bauð mér að setjast á bak ættbókarfærða stóðhestinum sínum, Blesa 1000 frá Jaðri. Þetta var sá allramesti heiður sem mér fannst mér geta hlotnast þá. Ég fór svo á reiðnámskeið ÍTR uppi í Víðidal og fór í sveit þar sem ég fékk að fara á bak o.s.frv. Fyrir rest var ég komin með reiðbuxur sem mamma gaf mér að gjöf. Svo var ég á leið á reiðhallarsýningu þegar ég var að verða 11 ára og fór að sjálfsögðu í reiðbuxunum mínum. Þá var mamma að brjóta um bók fyrir mann og hann var í heimsókn, þegar hann tók eftir reiðbuxunum mínum spurði hann mig hvort ég hefði gaman af hestum og ég játaði því, þá spurði hann hvort ég ætti hest og kvað við nei í mér. Þá sagði hann, að hann ætti meri sem ég mætti eiga ef ég vildi og foreldrar mínir leyfðu mér. Nokkrum dögum síðar var það allt frágengið og ég orðin löglegur eigandi merarinnar. Hún var nú óttaleg dós, en allt sem ég gæti látið mig dreyma um. Við göltruðumst um Elliðaárdalinn og um allt upp úr Neðri-Fáki, en eitt var það sem ég gerði og geri enn. Því þessi maður setti eitt skilyrði fyrir því að ég mætti eiga Vöku, það var það að ég mundi aldrei fara hraðar en fetið, á henni eða nokkru öðru hrossi sem ég kynni að eignast, væri undirlagið malbik. Þetta loforð hef ég einungis einu sinni brotið og það var þegar ég fór í Kirkjureið Fáks og var of sein og réði ekkert við merina því hún vildi ná hinum hrossunum. Enn þann dag í dag hef ég slæma samvisku yfir þessu og þó eru liðin um níu ár síðan þetta gerðist. Hvernig er það með aðra hestamenn hér, maður sér nú oft keppnisknapana “prufa taktinn” á malbiki, en hvernig fer hinn almenni hestamaður með þetta?