Mig langar að segja ykkur aðeins frá smá ævintýri sem ég lenti í fyrir um 6 árum. Við mamma tókum þá ákvörðun að vera svolítið villtar og kaupa okkur tvo fola, annar var algjörlega ótaminn og hinn var frumtamin meri. Við fengum þau úr einhverju stóði frá bæ sem ég man ekki alveg hvað heitir, en þau voru bæði skjótt sem var smá veikleiki hjá okkur báðum þar sem okkur hafði alltaf langað í skjótt hross.
Eftir mikla íhugun gáfum við þeim nöfnin Kjarkur og Þyrnirós, sem við hefðum kannski getað beðið aðeins með alla vega í tilviki Kjarks þar sem það kom í ljós að hann var mjög svo kjarklaus greyjið :) Hann var mjög styggur þegar við fengum hann, en við stimpluðum það bara sem svona óróleika þar sem þetta var allt saman mjög nýtt fyrir honum, enda ekkert taminn.
Svo kom að því að þau voru bæði sett í tamningu, en Þyrnirós virtist vera svo svakalega geðgóð og ljúf að það þurfti voða lítið að temja hana meira. Það kom þó upp á að það kom svo ljótt brot í hófinn hennar meðan hún var í tamningu að það þurfti setja málmplötu utan á og hreinlega skrúfa hann saman því þetta var komið alveg upp í kviku, þannig að hún fékk að vera í haga nálægt honum Kjarki sínum en þau voru orðin mjög samrýmd þarna.
Tamningin hélt áfram á Kjarki en gekk ekki eins og best var á kosið, það virtist vera erfitt að koma þessari styggð úr honum en að lokum var hann samt “útskrifaður” og við fórum með þau bæði í sama haga og hinir hestarnir okkar voru. Þyrnirós var þá öll að koma til, ennþá með skrúfurnar í hófnum en þetta leit mun betur út.
Svo var það einn daginn að við fórum upp í sveit og þurftum að færa alla hestana milli haga, þar sem þetta voru ekki nema 10 hestar og við vorum þá 5 ákváðum við að það væri auðveldara bara að beisla þá og teyma í næsta hólf. Við bjuggum til aðhald í einu horninu á girðingunni og héldum rafmagnsspotta í kring þegar við höfðum smalað hestunum þangað. Það var ekkert mál að beisla fyrstu 8 hestana og ég og systir mín vorum sett í það að halda í sitthvora fjóra fyrir utan hólfið. Það ætlaði hins vegar ekki að vera jafn auðvelt að beisla Kjark og Þyrnirós þar sem Kjarkur var ekki á þeim buxunum að leyfa okkur að koma nálægt sér, og auðvitað elti merin hann hvert skref. Eftir dágóða stund af atlögum og pásum til að leyfa þeim að róa sig tekur Kjarkur sig til og hleypur af stað, beint á rafmagnsspottann sem var bundinn í girðinguna og heldur áfram þangað til hann slitnar og rýkur þá af stað upp hæðina og merin á eftir. Spottinn þeytist svo eitthvað upp í loftið og ég lít til hliðar, sé systur mína detta í grasið og 4 hesta koma á milljón í áttina til mín, þeir koma beint á þessa 4 sem ég hélt í og ég fæ 8 stykki yfir bókstaflega yfir mig þar sem þeir fyrstu hlupu beint á mig og ég datt í grasið líka. Fyrir eitthvað kraftaverk (eða fótafimi kláranna) slepp ég án þess að einn einasti stígi á mig (þó svo að mamma segðist hafa horft á einn fót svona millímetra fyrir ofan höfuðið á mér á einum tímapunkti) og þetta endar allt vel, við náum hestunum aftur og ákveðum að láta Kjark og Þyrnirós eiga sig.. En þetta varð hins vegar til þess að við seldum Kjark bónda sem hefur mikinn áhuga á að takast á við svona verkefni eins og hann er, og ca. ári seinna fengum við tilboð í Þyrnirós og seldum hana út. Og þannig endaði ævintýrið.. ;)
Á myndinni sem fylgir er Þyrnirós og Kjarkur á minni myndinni (verðið að afsaka gæðin).