Ég var harmi slegin þegar ég heyrði fréttayfirlitið í kvöld, 8. desember. Ein fréttin var um að hross hafi drepist af miltisbrandi, fyrsta tilfelli á Íslandi síðan 1965.

En hvað er miltisbrandur?
Miltisbrandur er sjúkdómur sem sýkill að nafni Bacillus anthracis veldur. Það eru einkum grasbítandi dýr sem taka þennan sjúkdóm en menn geta þó af og til sýkst af honum. Sjúkdómar sem finnast í dýrum en geta jafnframt lagst á menn eru nefndir súnur (zoonosis).

Sýkillinn getur myndað dvalargró eða spora. Sporarnir geta lifað áratugum saman í jarðvegi, einkum rökum og súrum. Af þessum ástæðum getur miltisbrandur verið alvarlegt vandamál í búfjárrækt. Stærð sporanna, sem eru 2-6 míkron (míkrómetrar, milljónustu partar úr metra) í þvermáli, gerir þá kjörna til að setjast á slímhúð í öndunarvegum manna og dýra. Sporarnir loða hins vegar við jarðveginn en það dregur úr líkum á því að menn smitist með beinum hætti frá jarðvegi. Þegar sporar komast í hýsil þar sem skilyrði eru hagstæð breytast þeir í það form sem sýkillinn hefur þegar hann er að vaxa. Sýkillinn ber með sér eiturefni eða toxín sem er afar skaðlegt og veldur drepi.

Einkenni miltisbrands ráðast að nokkru af því hvernig dýr og menn smitast. Þegar sýkilsins er neytt með mengaðri fæðu kemst hann í blóðrásina og sogæðakerfið um meltingarveginn. Milti dýra bólgnar upp og skemmist af völdum dreps. Af þessu er nafnið miltisbrandur dregið. Þá getur sýkillinn komist gegnum húð sem er rofin. Þetta er algengasta smitleið til manna. Þeir sem meðhöndla sýkt dýr eða afurðir dýra sem hafa drepist af völdum sjúkdómsins, svo sem húðkeipi, ull eða kjöt, eru í mestri hættu. Veldur sýkillinn þá kýli sem rofnar síðar og er þá með svörtum sárbotni vegna dreps (af því er væntanlega nafnið anthrax dregið en það merkir kol). Að lokum geta sporar sýkilsins borist í öndunarveg og þaðan í eitilvef og valdið þar sýkingu, drepi og blóðsýkingu. Þeir sem eru í mestri hættu að smitast á þann veg eru starfsmenn í ullariðnaði og sláturhúsum.

-Tekið af vísindavef Háskóla Íslands.

Ég vara alla hestaeigendur við þessum sjúkdómi, hvort sem þið eruð á Austurlandi eða á Höfuðborgarsvæðinu. Sjúkdómurinn er stórhættulegur og smitar bæði fólk og dýr, grasbítar (hestar, kýr, kindur) eru í sérstakri hættu enda leynast gróin í jarðvegi og geta dvalið þar í mörg ár. Smit í mönnum er ekki eins hættulegt, dregur sjaldnar til dauða og fúkkalyf vinna vel á sjúkdómnum.

Meðgöngutími frá lungnasmiti þar til einkenni gera vart við sig er 1-6 dagar. Meðgöngutíminn getur verið langur í sumum tilvikum eða allt að 43 dagar. Fyrstu einkenni lungnasmits eru lík inflúensu með hita, vöðvaverk, höfuðverk, þurrum hósta og smávægilegum óþægindum fyrir brjósti sem vara í örfáa daga. Næstu 1-3 daga eftir upphafseinkenni líður sjúklingi betur en versnar svo skyndilega í kjölfarið með háum hita, andnauð og losti. Oft má sjá bjúg á brjóstkassanum og geta sjúklingar fengið blæðandi heilahimnubólgu. Allir deyja sem fá ekki viðeigandi meðferð og talið er að allt að 95% sýktra deyi ef meira en 48 tímar líða frá því að einkenni hófust þar til meðferð hefst.

Þetta er sorgardagur í íslenskum landbúnaði og hrossarækt! Miltisbrandur er þó mjög staðbundinn og dreifir sér lítið. Þess vegna geta komið upp eitt og eitt tilfelli þó erfitt sé að koma í kring faraldri, nema með stórtækari vopnum.

Kv. torpedo, sem er harmi slegin.

Lesefni:
- http://www.visindavefur.is/svar.asp?id=958
- http://www.ruv.is/main/view.jsp?branch=2574128&e342RecordID=94194&e342DataStoreID=2213589
- http://www.visir.is/?PageID=38&NewsID=23518
- http://www.mbl.is/mm/frettir/frett.html?
nid=1115611

Heimildir:
- http://www.visindavefur.is/svar.asp?id=958