Mig langar að deila með ykkur sögunni af honum Sókrates.
Ég eignaðist hann sem folald þegar ég var aðeins 5 ára. Hann var alltaf rosalega flottur, rauðvindóttur, stjörnóttur með leist á vinstri afturfæti. Faxið var rosalega þykkt og mikið og skipt alveg í miðju. Taglið var einnig rosalega þykkt.
Hann var undan Leist 960 frá Álftagerði og Flugu frá Stórholti (sem frænka mín átti).
Hann var frekar erfiður í tamningu, fór tvisvar en ekki til sama mannsins. Mamma tók svo við honum og ég var 12 ára þegar ég fór að geta riðið honum sjálf. Ég fór á reiðnámskeið og gekk vel en hann átti það til að rjúka með mann og maður mátti passa sig á því að reka ekki fæturna mikið í hann, þá varð hann snælduvitlaus. En aldrei henti hann mér af baki. Þetta sumar sem ég fór að nota hann fyrst tókum við þátt í gæðingakeppni og okkur að óvörum unnum við barnaflokkinn með þónokkrum yfirburðum. Árið eftir var okkar mótaár, unnum næstum öll mót sem við kepptum á innan félagsins okkar.
Svo flutti ég í bæinn og ég tók hann auðvitað með, en hann unni sér aldrei í bænum og var aldrei eins góður og hann var í sveitinni. En hann var mjög gott reiðhross. Svo fór ég sem skiptinemi í eitt ár og saknaði hans alveg rosalega, ef maður mætti fara út með hross og koma með þau aftur til Íslands hefði ég tekið hann með. En því miður þá kom eitthvað fyrir hann í bakinu á meðan ég var úti og það var ekkert hægt að gera í því. Og honum var lógað haustið 2001, og var hann þá aðeins 13 vetra. Ég sakna hans ennþá alveg rosalega, og stundum finnst mér eins og hann sé bara útí girðingu í sveitinni og bíði eftir að ég komi með brauð til hans.
Vildi bara deila þessu með ykkur og heiðra minningu hans.