Til að hestinum líði vel og hann virki rétt er naupsynlegt að hann sé rétt járnaður. Það eru til margar útfærslur á járningum, enda eru engir hestar með eins hófa. Stundum er járnað þannig að heseturinn brokki frekar, og stundum er hann járnaður þannig að hann tölti frekar. Eðlilegast er þó að járna hann bara þannig að hann sé jafnvígur á öllum gangi. Svo eru til ýmsar gerðir sjúkrajárninga, t.d til að laga kvíslbandabólgur snúa sumir skeifunni öfugt, eða þannig að táin á henni er á hælnum á hestinum, og hællinn á henni á tá hestsins. Þannig fæst meiri stuðningur undir hælinn sem ætti að minnka álag á aftanverðan fótinn.
Þegar hestur sem er búinn að vera ójárnaður í einhvern tíma, er byrjað á að klippa mestan umfram-hófvöxt í burtu með hófbít. Ef það er einhver sem heldur fætinum fyrir járningamanninn, er síðan hófurinn tálgaður hæfilega mikið niður með tálgi, og mótaður þannig eftir því hvað á að gera með hestinn (laga brokk osfrv) og skorið innan úr hófbotninum “dauðan” hóf með hófhnífum. Ef járningamaðurinn heldur sjálfur löppinni notar hann stóran rasp í stað tálgsins. Þegar búið er að móta hófinn er að máta skeifuna og finna stærð sem passar. Þá þarf að hugsa um þykkt skeifna og svoleiðis, og einnig hvort á að nota plastbotna (gott ef hesturinn er sárfættur) eða annað milli skeifu og hófs. Þegar búið er að finna rétta skeifustærð getur þurft að berja hana aðeins til, svo að hún passi fullkomlega. Athuga verður líka að það á ekki að nota sömu skeifur að framan og aftan, heldur sér framfótarskeifur og afturfótaskeifur (framfótaskeifur eru líkari u í laginu). Þá þarf að stilla skeifuna og halda henni á réttum stað meðan fjaðrirnar (naglarnir sem halda skeifunni við hófinn) eru slegnar í. Best er að nota bara 6 fjaðrir þó að flestar skeifur séu með 8 götum, og sleppa þá næstöftustu götunum, því þá helst hófveggurinn sterkari. Það verður að passa að negla ekki í þann hluta hófsins sem er lifandi, því það er sársaukafullt fyrir hestinn og getur valdið helti. Þegar búið er að negla fjaðrirnar í á að klippa endana á þeim með naglbít. Þar á eftir er mjög gott að taka raspinn og nota kantinn á honum til að raspa einskonar rás neðan við alla fjaðraendana. Þegar búið er að því á að hnykkja fjaðrirnar með þar til gerðri hnykkingatöng, og þá er átt við að þær eru klemmdar saman þannig að þær “krumpast” inni í hófnum og halda því skeifunni í staðinn fyrir að renna bara út eftir stuttan tíma, og þá er gott að hafa búið til “rásina” með raspnum, því þá verður festan enn betri. Að lokum er svo bara að snyrta hófinn meðfram skeifunni með hófbít og raspi.
Ég hef aldrei járnað sjálf en ég hef fylgst með og haldið löppum ótal sinnum. Þetta er samt alls ekki eins auðvelt og það lítur út fyrir að vera (er mér sagt og ég trúi því alveg!) og krefst mikillar æfingar undir umsjá og einnig nákvæmni ef ekki á að fara illa. Vonandi hafið þið haft gaman af að lesa þetta… kv. karensk
_________________________________________________