Í dag (10. janúar 2004) var veðrið ekki sem verst en því miður lést einn í umferðinni í morgun. Blessuð sé minning þessa unga pilts.
Fyrir áramót var mig farið að klæja í puttana því mig langaði sssvooooooo á hestbak. Ég held mig hafi aldrei langað eins mikið á bak og þá er nú mikið sagt. Helsta ástæða þessarar löngunar tel ég vera að ég keypti mér meri í vor sem er svo dásamleg og góð. Fyrir áramót tók ég líka þá ákvörðun að hafa þau úti bæði yfir áramót og þrettándann til að spara þeim raketturnar og ná ekki í þau fyrr en í fyrsta lagi 10. janúar. Þegar nær dró var ég kominn með 10. janúar gjörsamlega á heilann.
Svo núna eftir áramót og áður en skólinn byrjaði var ég uppi í sveit að hjálpa til í búskapnum og þá sá maður hrossin á hverjum degi og ekki batnaði löngunin við það. Eiríkur bóndi var hálfpartinn farinn að banna mér að fara með þau vegna þess að það var svo mikil hálka. Frekjan í mér var farin að krauma og svo síðast liðinn miðvikudag fór ég loks heim því skólinn byrjaði aftur á fimmtudag. Þessir þrír dagar voru ÓENDANLEGA lengi að líða og í morgun hrökk ég upp fyrir allar aldir og mundi eftir því að dagurinn væri runninn upp. En síðan leið dagurinn því ekki kom bróðir minn með bílinn. Ég var búin að skaffa kerruna og var komin í hesthús-klæðin. Loksins, um hálf fjögur bitist bróðir minn og við pabbi flýtum okkur út í hesthús að ná í kerruna og brunum af stað. Vegna færðar var ekki hægt að fara nema á svona 70-75 kílómetra hraða en auðvitað finnst manni þetta vera eins og á 30 eða hægar.
Eftir langa leið komumst við loks í sveitina og þá vildi pabbi endilega kíkja í bæinn. Þar voru bornar fram vöfflur en ég var á nálum, skildi alls ekki af hverju pabbi þurfti endilega að borða svona mikið. Eftir mikið kjaftasnakk kom loksins gestabókin, stressið í mér var virkilega farið að segja til sín og skrifaði ekki einu sinni Ragnarsdóttir, þau vita hvort eð er hver Jóna Þórunn er, þau myndu vita það ef ég skrifaði bara Jóna.
Út drifum við okkur öll, við pabbi, Árdís, Eiríkur og Pálína og fórum út í hesthús. Ég var fljót að ná klárnum mínum, hann var bara eitthvað að éta bak við hús. Kom honum á kerruna, hann var ekki einu sinni með læti. En síðan tók ég eftir því að það vantaði nokkur hross, þar á meðal merina mína. Ég sá þau hvergi (það var tekið að skyggja) en Eíríkur sá þau víst úti í mýri.
Spretthlauparinn í mér tók á rás og fram í mýri og endilega þurfti hundspottið að elta. Þegar ég var komin næstum að þeim kemur hestur aftan að mér og er það þá Röðull sem hafði verið heima við hús. Hann kom á harðaspretti bara til að fá brauð hjá mér. Þeir eru einstaklega vitlausir þessir hestar, þeir leggja mikið á sig bara til þess að fá einn lítinn brauðmola. Hrossin í mýrinni tóku eftir mér og fór að fikra sig nær, fyrstur Lindi, næst Birta og sætabrauðið mitt. Hún sem er venjulega röltstygg kom beint upp að mér og lét mýla sig eins og það væri eitthvað “sport”. Heim röltum við og að hestakerrunni. Skjóni karlinn stóð þar rólegur en þegar ég fór inn spenntist hann allur upp og kremdi merina þegar hún kom inn. Hún bara beit hann til að fá pláss og pabbi og Eiríkur lyftu hleranum að aftan. Hliðarhurðin var opin (til að koma Skjóna inn, hestar vilja sjaldan fara inn í dimma hestakerru) og þaðan fengu þau brauð. Klárinn var ótrúlega frekur, ég vissi hreinlega ekki að hann gæti verið svona frekur. Afi hefur greinilega vanið hann á þetta.
En við pabbi ákvaðum að leggja strax af stað og við kvöddum Geldhyltinga og af stað fór traktorinn. Leiðin heim leið eins og í draumi, hrossin mín bæði á kerrunni og pabbi að keyra.
Þegar við komum á Selfoss ætlaði ég að taka Eldingu af vagninum fyrst en hún kann greinilega ekki að bakka (þarf að kenna henni) og tók því bara klárinn. Setti hann í gerðið og náði svo í merina. Ég lét hana bara snúa sér á vagninum og labba niður. Lífsgleðin í henni er ótrúlega mikil og mjög gaman að hoppa og gerði það niður af hleranum. Kannski var hún bara að spara orku með því að sleppa að taka nokkur skref, taka frekar eitt stórt.
Þau fengu bæði að leika sér örlitla stund að leika sér í gerðinu á meðan ég setti smá tuggu í stallinn hjá þeim. Hestarnir sem voru inni voru mjög hissa á þessu, enda ekki nema 1/3 af þeim sem kannaðist við mig.
Inn fór kallinn en ekki merin, hins vegar varð hún einmanna og flýtti sér síðan inn í hlýjuna á þessu magnaða brokki.
Nú þarf bara að járna og svo er hægt að byrja á hinum daglegu göngu- og skokktúrum.
Ég hef það þannig að ég járna svona viku eftir að þau koma á hús og fyrsta 1-2 virkurnar fer ég ekkert á bak, fer bara í gönguferðir til þess bæði að hreyfa hrossi og sjálfa mig. Svo kemur sá tími þegar maður fer bara á bak í gerðinu, loks ríður maður nokkra hringi í kringum hesthúsahverfið og svo getur maður hætt sér út á reiðvegina…
Jæja, ég held að þetta sé komið út í bull hjá mér…
Kv. torpedo