Nú eru líklega flestir farnir að huga að því að taka inn eða jafnvel búnir að því. Þeir sem ekki eru búnir að því ættu þó að líta á hestana sína því líklegt er að holdhnjóskar séu farnir að myndast.
Holdhnjóskar myndast í slæmum veðrum þegar vindur ýfir feld hestsins, svo rignir og hesturinn blotnar þá alveg niður að feldi, og loks kólnar og myndast þá þessir leiðinda kögglar niðri við holdið. Þeir myndast aðallega á baki hestsins og aftur á rass, því þar á jú vindurinn auðveldast með að ýfa upp feldinn. Hestar eru mislíklegir til að fá hnjóska og ég skildi ætla að ástæðan sé sú að hárafar er mismundandi, og eru þá mjög “loðnir” (með mikinn vetrarfeld) hestar örugglega líklegastir til að verða fyrir barðinu á þessum leiðindum.
Mikilvægt er að fylgjast með hestum sem enn eru úti, því hnjóskar geta valdið því að feldurinn opnast svo mikið að kuldavarnir bresta og þá leggur hesturinn af. Séu hnjóskar farnir að myndast er mikilvægt að taka hestinn á hús til að koma í veg fyrir alvarleg tilfelli. Ef hesturinn er ekki með mjög mikla hnjóska ætti að vera óhætt að byrja að nota hann, en þá verður að hafa dýnu undir hnakknum til að koma í veg fyrir að nuddsár myndist, en ef hnjóskarnir eru miklir verður að ná þeim úr áður en brúkun hefst.
Þá kann einhver að spyrja; hvernig nær maður svo þessum ands**** í burtu? Það eru til nokkrar aðferðir og ég nota þessa mest: Svita hrossið, annaðhvort með því að fara á bak (ef hnjóskarnir eru fáir, með dýnu að sjálfsögðu undir hnakknum), teyma hestinn með eða lónsera hann í gerði (eða hreyfa á annan hátt), og láta hann svo standa inni með ábreiðu í 1-2 klst. Þannig losna hnjóskarnir smám saman og eftir einhverja daga ættu þeir að vera farnir. Svo er hægt að nota þá aðferð að setja olíu í feld hestsins (parafínolíu eða bara matarolíu) til að mýkja kögglana en þó getur það verið varasamt því öll utanaðkomandi fita getur klesst feldinn saman og opnað hann, rétt eins og vont veður. Ef nægur tími er fyrir hendi er samt best að leyfa hárunum að vaxa í einhvern tíma, því þá losna hnjóskarnir frá holdinu og þá er hægt að losa þá burt. Það má nefnilega alls ekki kroppa hnjóskana í burt þegar þeir eru í holdinu eða við það, því þá myndast sár.
Ég vona að einhverjir hafi not fyrir þetta, því það eru jú búin að koma svolítið leiðinleg veður undanfarið, allavega sumstaðar á landinu. Takk fyrir mig…
_________________________________________________