Einu sinni fyrir langa löngu þá átti ég fjóra hesta og hesthús.
Hestamennskan var lífstíll hjá mér og fyrrverandi manninum mínum, við eyddum öllum frítíma okkar í hesthúsunum.
Áður en ég kynntist manni mínum, hafði ég verið í hestamennskunni í fimm ár, en þá leigði ég pláss í hesthúsi og var bara með einn hest.
Kynntist svo þessum tilvonandi eiginmanni mínum og ekki spillti það fyrir að hann var líka í hestamennskunni.
Við keyptum okkur hesthús og bættum við okkur tveimur hestum.
Á þessum tíma bjóst ég aldrei við öðru en að ég yrði alla mína ævi í hestamennsku, þetta var líf mitt og yndi.
Allt snerist í kringum hestana, ef ég átti afmæli þá vildi ég bara eitthvað tengt hestunum í afmælisgjöf og eins var með jólagjafir.
Svo fór ég að eignast börn og þá fór að verða erfiðara að fara í hesthúsin , síðan fór hjónabandið að halla undan fæti og við ákváðum að skilja.
Peningamálin buðu ekki upp á annað en að selja hestana og hesthúsið.
Það var erfiðasta ákvörðun í lífi mínu, held ég.
Það sem hélt í mér lífinu ef segja má svo , var sú hugsun að ég væri ekki hætt í hestamennskunni, ég myndi fá mér hest aftur seinna og byrja aftur frá grunni.
Síðan eru liðin þrettán ár og í dag á ég nýjan eiginmann og nýtt barn :) sem er jú bara af hinu góða.
Ég er hamingjusöm og á ágætis líf.
En einn er sá galli á gjöf Njarðar að
hestarnir toga í mig sem aldrei fyrr.
Ég bý ekki langt frá hesthúsunum og ef sá tími vetrarins er, þá sé ég fólk í útreiðartúrum fyrir neðan húsið mitt í dalnum.
Og það er of mikið á mig sem fyrrum hestamann lagt.
Það versta við þetta allt saman er að núverandi maðurinn minn hefur ekki áhuga á hestum og því sem viðkemur þeim.
Honum finnst þetta allt voða mikið vesen , mikil binding og
kvöð að fara og moka undan þessu (hans orðalag) og gefa á hverjum einasta degi.
En ég sem fyrrverandi hestamaður veit, að þegar maður lifir og
hrærist í hestamennskunni þá er það ekki kvöð og pína að fara upp í hesthús á hverjum degi að moka og gefa, heldur hin mesta ánægja og lífsfylling sem um getur!
Og nú er bara að hrökkva eða stökkva…ekki satt?