Úr Kvosinni í Hvalfjarðarborn.

Eftir Örn H. Bjarnason


Sumt fólk í dag virðist halda að fyrstu landnámsmennirnir hafi verið þeir sem innleiddu íslenska sjónvarpið. Svo er þó ekki. Áður en sjónvarpið kom til sögunnar hafði þjóðin lifað í þessu landi í 1100 ár og fréttaflutningur einna helst með förufólki, en ferðamátinn lengst af tveir jafnfljótir eða þarfasti þjónninn. Hvaða leiðir menn fóru getur verið forvitnilegt að skoða.
Í þessari grein hyggst ég lýsa stuttlega gömlum götum úr Kvosinni í Reykjavík um Mosfellssveit, yfir Svínaskarð sem er milli Móskarðshnjúka og Skálafells. Þaðan svo um Reynivallaháls og inn Brynjudal um Hrísháls yfir í Botnsdal.
Ef við hefjum förina við Lækjarósinn þá lágu götur um Arnarhólstraðir skáhallt yfir núverandi Arnarhólstún og áfram svo þar sem nú er Prentarafélagshúsið við Hverfisgötu. Upp úr 1830 voru Arnarhólstraðir jafnaðar við jörðu, en alfaravegurinn færðist yfir í Bankastræti.
Úr því að við erum stödd á þessum slóðum má geta þess að í þjóðsögum segir frá því, að nykur hafi verið eitt árið í Reykjavíkurtjörn en það næsta í Hafravatni. Töldu menn vera samgang þarna á milli. Þegar nykurinn var í tjörninni sprengdi hann ísinn og fylgdi því miklir skruðningar, en þegar hann var í Hafravatni var allt með kyrrum kjörum í tjörninni.
Hér læt ég líka fljóta með lausavísu eftir Vilhjálm frá Skáholti úr þeim hulduheimi “undir blikkinu” á Arnarhóli, sem hann slysaðist inn í á stundum. Hún er einhvern veginn svona:

Mættur var á Arnarhól
Ásmundur sonur Klemens.
Var þar enn er haninn gól
með delerium tremens.

Frá Prentarafélagshúsinu lá leiðin svo upp á Skólavörðuholt. Þar voru lengi beitarhús frá Arnarhóli en undir aldamótin 1800 notuðu skólasveinar úr Hólavallaskóla efnið úr þeim til að reisa Skólavörðuna við hinar gömlu götur.
Frá Skólavörðuholtinu lágu göturnar milli Norðurmýrar og Vatnsmýrar að vörðunni Háaleiti. Þessi varða var í skarði milli Öskjuhlíðar og Minni-Öskjuhlíðar. Þaðan svo austur Bústaðaholt nánast eins og Bústaðavegurinn liggur í dag að vöðum á Elliðaánum. Þess má geta að um aldamótin 1900 var svo af þjóðinni dregið, að hún fór að trúa því að í Vatnsmýrinni fyndist gull. Í dag heitir það mannauður sem við vonandi berum gæfu til að nýta.
Mýrar voru alla tíð mikill farartálmi og þess vegna voru holtin þrædd. Á veturna fóru margir þó vetrarveg svonefndan yfir freðin fen og foröð og þá nokkuð beint af augum.
John Coles getur þess í bók sinni Íslandsferð, að hann hafi árið 1881 farið þarna um. Hann segir veginn inn að Elliðaám ágætan. En um tuttugu árum áður hafði C.W Shephard farið innan að Elliðaám til Reykjavíkur í hríðarveðri. Shephard er háttvís í lýsingu sinni á götunum, segir að hann og félagar hans hafi átt steinum í vegkantinum því að þakka að þeir rötuðu heim aftur. “Á Íslandi,” segir hann svo, “ gera menn vegi með þeim hætti að ryðja steinum úr götunni, en ekki með því að steinleggja brautina.” Loksins eftir þriggja stunda barning sáu þeir móta fyrir húsi hálffentu í kaf með strompi, glugga og hurð. Það var mikill léttir.
Inn undir Elliðaám sunnan megin við veginn stóð bærinn Bústaðir. Þar fæddist m.a. Núpur Jónsson en hann er þekktur úr sögunni fyrir að hafa ásamt öðrum staðið að drápi Diðriks frá Minden eftir rán Viðeyjarklausturs árið 1539.
Sagnir herma að á 18. öld hafi Þorgarður nokkur verið vinnumaður á Bústöðum. Hann hafði verið dæmdur til dauða en var boðið að kaupa sér líf. Á Seli bjó vel efnaður bóndi og leitaði Þorgarður til hans um aðstoð. Bóndinn tók vel í málaleitan hans en kerlingin þvertók fyrir allt slíkt. Við það sat og var Þorgarður líflátinn. Áður en hann dó hafði hann í heitingum og fylgdi hann síðan afkomendum Selshjóna í nokkra ættliði. Var hann kallaður Selsmóri og þótti ekki eftirsóknarvert að hafa hann heimilisfastan hjá sér.
Yfir Elliðaár lá leiðin um vað fyrir ofan Búrfoss og síðan yfir Ártúnsvað, sem er á eystri ál Elliðaánna. Þaðan svo fyrir sunnan Ártún og um Reiðskarð.
Í Ártúni var um tíma veitingasala en á árunum 1879-1881 var Eiríkur Ólafsson á Brúnum þar veitingamaður. Það var þá sem hann hafði skipti á brennivínsflösku og litlu kveri eftir mormónska leikprédikarann Þórð Diðriksson, sem heitir Aðvörunar og sannleiksraustin. Sagt er að þennan dag hafi hann riðið með slætti yfir Ártúnsvað svo mikið lá honum á að sýna heimilisfólkinu ritlinginn. Konu hans Rúnveldi Runólfsdóttur grunaði strax að í uppsiglingu væri önnur holskefla ekki ósvipuð þeirri þegar hann kastaði frá sér orfi og ljá um hásláttinn austur undir Eyjafjöllum og fór til Kaupmannahafnar að gefa Valdimar prins hest og galdrakistil með ótal hólfum. Eitthvað velktist Eiríkur í trúarefasemdum en þegar hann komst út úr þeirri röstinni stofnaði hann höfuðkirkju mormóna þarna í Ártúni.
Úr Reiðskarðinu lá leiðin hjá Grafarvogi en þar sést enn móta fyrir gömlum vegi eins og hann er teiknaður á korti Björns Gunnlaugssonar frá árinu 1844 og öðrum síðari tíma kortum. Þess má geta að í Gufunesi var kirkja frá árinu 1150 til 1886. Altarið úr þeirri kirkju slysaðist á bæinn Úlfarsfell og var lengi notað þar sem búrskápur. Nú gegnir það sínu upprunalega hlutverki við guðsþjónustur á Reykjalundi.
Í kringum 1950 var hinn kunni hestamaður Þorgeir Jónsson með kappreiðar í Gufunesi og átti hann fræga hlaupahesta. Hann lét m.a. keppa í 800 m stökki og veitti há peningaverðlaun. Þorgeir var merkismaður en gat verið nokkuð seinheppinn í orðavali. Eitt sinn var hann spurður um líðan Gunnu sem var vinnukona hjá honum. “Æ, hún er ósköp léleg í fótunum,” sagði hann, “en ágæt þar á milli.”
Fleira var haft eftir honum. Eitt sinn voru hann og Jón í Skollagróf á leið úr Fákshúsunum við Bústaðaveg og ætluðu upp í Gufunes að skoða trippi sem Þorgeir átti. Þegar þeir voru komnir nokkuð vel áleiðis afleggjarann hjá Grafarvogi hafði Jón orð á því hversu vegurinn væri langur. “Já,” sagði Þorgeir þá, “ef hann væri ekki svona langur myndi hann ekki ná alla leið.” Á 18. öld var elliheimili í Gufunesi.
En svo við höldum áfram ferð þá lá leiðin úr Grafarvogi fyrir vestan Keldur og norðan Keldnaholt um Korpúlfsstaðaland og yfir Blikaðastaðaá á Ferðamannavaði. Þar sunnan árinnar er Ferðamannabarð. Fleiri þekkt vöð eru þarna, Blikstaðavað nokkurn veginn í beinni línu milli Korpúlfsstaða og Blikastaða og Króarvað en það er niður við sjó. Rétt fyrir ofan Merkjafoss í Korpu er Stekkjarvað, en það var á kirkjuleið til Lágafells.
Leið lá að bænum Eiði hjá Geldinganesi, en í nesinu hafði Hestamannafélagið Fákur lengi hross í hagabeit. Gaman var að sjá stóðið bylgjast frjálst í faxi þegar það var rekið um Eiðisgranda. Á 18. öld var Geldinganes konungseign og var geymdur þar fénaður ætlaður fálkum konungs, sem senda átti til Kaupmannahafnar.
Korpúlfsstaða er getið í Kjalnesinga sögu. Um tíma átti Einar skáld Benediktsson jörðina, en árið 1922 seldi hann hana Thor Jensen. Thor var eldhugi og fulltrúi einkaframtaksins af gamla skólanum. Hann taldi sig eiga skyldur við samfélagið og studdi hann ýmsa til náms m.a. Kristján heitinn Albertsson rithöfund og bókmenntagagnrýnanda.
Thor hóf stórfeldan búrekstur á Korpúlfsstöðum. Árið 1932 var hann þar með 300 kýr í fjósi og túnið það stærsta á öllu landinu. Reykjavíkurbær keypti Korpúlfsstaði árið 1942.
Blikastaðir næsti bær við voru áður smákot, en á fyrri helmingi tuttugustu aldar breytti Magnús Þorláksson því í stórbýli. Í túninu þar er Þúfnabanaflöt svonefnd en hún var unnin með fyrsta þúfnabananum sem kom til landsins. Margir ungir menn renndu hýru auga til Blikastaðasystra. Sigsteinn varð hlutskarpastur um Helgu. Þau trúlofuðu sig í skarði efst í Hamrahlíðinni, sagði hann mér eitt sinn. Eftir því hve kvöldsett er mynda klettar þarna í hlíðinni karl og kerlingu. Sigsteinn og Helga náðu líka að verða karl og kerling saman. Nú er verið að skipuleggja byggð í landi Blikastaða og þá verða þeir aftur smákot. Þetta kalla menn framfarir.
Á sjávarbakkanum yst í Blikastaðanesi eru fornar rústir og grjótgarður. Talið er að þar hafi verið verslunarstaður eða útræði.
Frá Ferðamannavaði lá leiðin um fjöru yfir Dýjakrókslæk. Þar má fara út á leirurnar þegar fjara er, en sandbleytur eru beggja vegna lænunar. Á leirunum er hlemmiskeið víða. Síðan áfram um Tungubakka fyrir sunnan Leirvogstungu um Oddsbrekkur í Víðirodda, en hann er þar sem Norður- og Suðurá sameinast í Köldukvísl, sem rennur svo til sjávar.
Leiruvogar er víða getið í fornsögum. Þar áttust m.a. við Hrafn Önundarson og Hallfreður vandræðaskáld, en Hrafn sótti að honum með 60 manns og hjó á landfestar Hallfreðar. Skipið rak og lá þarna við alvarlegu skipbroti. Leiruvogar er einnig getið í Landnámu, en Hallur goðlauss nam land að ráði Ingólfs frá Leiruvogi til Mógilsár.
Rétt þar hjá sem hringvöllurinn er á Varmárbökkum var Hestaþingshóll, sem bendir til að þar hafi verið háð hestaöt, vinsæl skemmtun til forna. Þegar graðhestum var att saman var gjarnan höfð meri í látum ekki langt undan. Fnykurinn gerði þá áhugasamari um að standa sig.
Fyrir norðan hesthúsahverfið er svo Skiphóll, en hann var seinasta leiti á mörkum milli Helgafells og bæjarins Varmár. Skip fóru þarna upp um flóð m.a. til að taka hey úr Skaftatungu en Skaftatunga voru mýrar sem lágu undir Helgafelli.
Ekki langt undan eru Varmármelar. Milli þeirra heitir Klauf eða Varmárklauf. Þar lá vegurinn um að vaði á Köldukvísl fyrir neðan Tungufoss þar sem heitir Hjallberg norðan við ánna. Fyrir neðan Krókhyl var annað vað.
Minnst var á Víðirodda en það er hið gamla Tjaldanes. Þar var Egill Skallagrímsson heygður. Í Egils sögu segir: “Egill tók sótt eftir um haustið, þá er hann leiddi til bana, en er hann var andaður, þá lét Grímur færa Egil í klæði góð. Síðan lét hann flytja hann ofan í Tjaldanes og gera þar haug og var Egill þar lagður og vopn hans og klæði.” Seinna voru bein hans flutt í kirkjugarðinn á Hrísbrú.
Áfram lá leiðin svo fyrir sunnan Mosfell þar sem Egill bjó á efri árum og að Skeggjastöðum. Fyrir utan Mosfell er Kirkjugil en um það fóru Kjalnesingar til kirkju að Mosfelli.
Egill átti tvær kistur af ensku gulli, morðfé í þá daga. Karlinn ætlaði að ríða með það á Þingvöll og strá gullinu yfir þingheim, vildi láta menn berjast um það. Sonur hans bannaði honum þetta. Lét Egill þá tvo þræla grafa gullið en drap þá síðan svo að þeir segðu ekki frá. Sumir segja að gullið sé grafið í Kirkjugili aðrir að það sé í fenjum í dalnum eða í hver hinum megin í dalnum. Egill var brellinn.
Frá Skeggjastöðum lá leiðin á vaði yfir Leirvogsá og í brekkurótunum norður af Hrafnhólum, en síðan hjá Haukafjöllum sérkennilegum hamraborgum og norður yfir Svínaskarð, Svínaskarðsveg svonefndan. Þarna eru glöggar götur.
Svínaskarð er 481 m.y.s. og þar lá gamla þjóðleiðin um sumardag en á veturna var þar oft ófært vegna svellalaga og fannfergis. Þetta var styttri leið en að fara út fyrir Esju. Norður af lágu göturnar á gilbarmi og niður í Svínadal. Eftir honum rennur Svínadalsá og var á víxl farið vestur fyrir hana eða austan megin. Síðan var farið yfir Laxá á Norðlingavaði rétt fyrir neðan þar sem Svínadalsá rennur í hana og upp hjá Vindáshlíð. Vöð á Laxá voru oft tæp og var þá þrautaleiðin að fara yfir Laxárvoginn en stundum hamlaði ís þar för.
Árið 1557 var Oddur Gottskálksson lögmaður á leið á Alþingi við Öxará. Hestur hans hrasaði á Norðlingavaði og Oddur datt af baki, en tókst að komast upp á eyri. Kápan hans sveiflaðist þá yfir höfuð honum og kaffærði hann aftur. Þegar hann náðist á þurrt var tjaldað yfir hann, en hann lést um nóttina. Sennilega hefur hann ætlað Þrengslaleið upp með Laxá og hjá Stíflisdal í Selkot og síðan Kjósarheiði á Þingvöll.
Dys er í Svínaskarði. Margt hesta- og göngufólk hefur þann sið að kasta steinvölu í Dysina, vill friða æðri máttarvöld. Það er betra að hafa Írafellsmóra með sér en á móti. Náttúran er óblíð þeim sem ekki leitar samkomulags við hana.
Fyrir fáeinum árum fór undirritaður um Svínaskarð upp úr 20. september með tvo til reiðar á leið í haustbeit að Reynivöllum í Kjós. Ég lenti í byl og vonskuveðri. Áður en ég lagði á brattann tók ég steinvölu upp af götu minni og setti í vasann. Það var hvasst í skarðinu og ég áði þar ekki heldur seildist í vasa minn eftir steinvölunni og henti í Dysina. Lúinn en sæll komst ég klakklaust að Reynivöllum. Oft hefur kaffisopinn verið góður hjá þeim hjónum séra Gunnari Kristjánssyni og Önnu, en þennan dag sló hann öll met.
Hér fyrr meir voru prestasögur nokkuð tíðkaðar. Eina úr nútímanum langar mig að segja hér. Eitt sinn vorum við bræðurnir að sækja hesta úr haustbeit upp að Reynivöllum. Séra Gunnar fylgdi okkur út í girðinguna þar sem hestarnir voru. Við gengum framhjá kirkjugarðinum og á legsteinunum hvíldi nýfallin snjór. Ég hugsaði með mér að í svona kirkjugarði hlyti að vera notalegt að láta jarða sig. Ég spurði séra Gunnar hvaða skilyrðum þyrfti að fullnægja til þess að það gæti orðið.
“Tja,” sagði hann eftir nokkra umhugsun, “þú þyrftir nú helst að vera dauður.” Drifhvít vetrarkyrrð ríkti í Kjósinni þennan dag.
Svínaskarði er tengd hryggileg saga. Á aðfangadag jóla árið 1900 lagði 15 ára piltur frá Hækingsdal í Kjós á skarðið. Hann ætlaði að eyða jólunum með foreldrum sínum. Þegar hann skilaði sér ekki hófst umfangsmikil leit að honum og fannst hann loksins dáinn í snjóskafli í háskarðinu. Þannig voru þessi jól í Hækingsdal.
Sveinn Pálsson lýsir því í Ferðabók sinni að hinn 9. október 1792 hafi hann farið frá Meðalfelli í Kjós um Svínaskarð til Mosfellssveitar. “Koldimmt var orðið þegar við komum upp á háfjallið,” segir hann, “og komumst við með naumindum að Gufunesi kl. 11 um kveldið. Þar fengum við bát og komum til hinnar fögru Viðeyjar um miðnætti og var þá ferðum mínum lokið að því sinni, en ég mun hafa vetursetu í Viðey eins og síðastliðinn vetur.”
Frá Vindáshlíð lá leiðin um götur sem séra Magnús Grímsson (1825-1860) prestur á Mosfelli og rithöfundur kallar Sandfellsgötur. Þá nafngift mun ég taka góða og gilda enda var Magnús sem ungur maður leiðsögumaður útlendra náttúrufræðinga um landið. Magnús þótti lipurt skáld en líka hugvitsmaður, bjó m.a. til sláttuvél. Hann gaf út Íslensk ævintýri ásamt Jóni Árnasyni og þýddi m.a. Nokkur orð um kartöflur eftir Leplan, öndvegisrit um þá fæðutegund.
Sandfellsgata lá rétt við rætur Sandfells að austan og norðanverðu og hjá Dauðsmannsbrekkum um Fossárdalinn yfir Fossá og um Reiðhjalla. Þaðan svo hjá bænum Fossá í Hvalfirði.
Á Fossá bjó á átjándu öld bóndi nokkur sem hafði ránskap sem aukabúgrein. Staðsetningin fyrir þann starfa var afar hagstæð þarna enda stendur bærinn nánast á krossgötum. Kannski bendir örnefnið Dauðsmannsbrekkur, en þar sat stigamaðurinn oft fyrir vegfarendum, til þess að hann hafi kálað einhverjum svona í leiðinni. Nú hefur siðmenningin rutt sér til rúms og í dag eru seldar pylsur og gos og bingókúlur á krossgötum við alfaraleiðir. Bóndinn á Fossá væri í nútímanum talinn full grófur. Og þó.
Upp frá prestssetrinu Reynivöllum lá Kirkjustígur um Reynivallaháls hjá Prestsvörðu og Teitsvörðum ýmist að Hvítanesi eða Fossá. Einnig lá Gíslagata um Reynivallaháls og sameinast hún Sandfellsgötu. Líka mætti nefna Selstíg sem lá suðvestan í Sandfelli, allbrött leið sem sameinast Gíslagötu.
Ýmsir hafa lent í basli á Reynivallahálsi. Séra Friðrik Friðriksson (1868-1961) ættaður frá Hálsi í Svarfaðardal segir frá suðurferð skólapilta í Latínuskólann um mánaðarmótin september-október 1887. Þeir lentu í roki og skafhríð. Kirkjustíg hafa þeir farið frá Fossá yfir að Reynivöllum. “Þegar við komum á brúnina,” segir hann, “sáum við ljósin í glugganum á Reynivöllum, er sýndust beint fyrir neðan. En tvo tíma tók það að komast ofan hálsinn. Það var lang versta raunin í allri ferðinni.” Höfðu þeir þó deginum áður lent í hremmingum á Síldarmannagötum og álpast niður þar sem nú er Hvalstöðin í stað þess að fara um Reiðskarð niður Síldarmannabrekkur.
Leiðin frá Fossá lá svo inn Brynjudal hjá Ingunnarstöðum og þar sem nú er eyðibýlið Hrísakot, Hrísakotsleið um Hrísháls yfir í Botnsdal að Botnsá sem skiptir löndum milli Kjósarsýslu og Borgarfjarðarsýslu. Af Hríshálsi lá leið um Leggjabrjót á Þingvöll. Upp frá bænum Botni lá Grillirahryggjaleið yfir í Skorradal en vestar lágu um Reiðskarð Síldarmannagötur yfir að Sarpi eða Vatnshorni í Skorradal og áfram Hálsaleið í Borgarfjarðardali.
Þann 1. febrúar árið 1846 andaðist Kristín fyrri kona Einars í Botni í Botnsdal. Lík hennar var flutt til greftrunar að Reynivöllum. Þegar fólkið var á heimleið gerði aftakaveður með snjókomu. Minnstu munaði að líkfylgdin öll eins og hún lagði sig yrði úti á Reynivallahálsi. Eftir þetta var ekki flutt til greftrunar frá Botni að Reynivöllum.
Fyrir nokkrum árum fór ég ríðandi um Hrísháls ásamt kunningjafólki mínu. Við vorum að koma ofan úr Lundarreykjadal og höfðum farið Hálsaleið og um Síldarmannagötur deginum áður. Skaplegt veður var þegar við lögðum af stað frá veitingaskálanum í Hvalfjarðarbotni, en þegar við komum á Hrísháls var komið hávaðarok, líklega ein 17-18 vindstig. Ekkert okkar hafði farið þarna áður og við fórum rammskakkt niður í Brynjudal. Þar velktumst við um í kjarri í fleiri klukkutíma og frekar bætti í vindinn en hitt.
Mér leist ekkert á blikuna því alltaf annað slagið sá ég að fararstjórinn okkar lagðist í berjamó í kjarrinu og virtist vera búinn að gleyma því að við vorum á leið í Mosfellssveitina. Út úr kjarrinu komumst við þó að lokum en neðst í Brynjudal var rokið svo mikið að ég hélt ég myndi fjúka út á sjó. Þegar við komum á Reynivallaháls lagaðist veðrið og mikið var fallegt að sjá yfir Mosfellssveitina úr Svínaskarði. Þá var nánast komið logn.
Ég hef aðeins einu sinni áður lent í viðlíka roki. Það var á hálsinum milli Flókadals og Lundarreykjadals. Ég var þá einn á ferð á leið á Þingvöll til móts við Fáksfólk í Jónsmessureið. Það hefur sína kosti að ferðast einn, maður missir þá ekki fararstjórann í berjamó. En mikið var ég feginn þegar ég var kominn niður Lundarsneiðina og í kaffi og pönnukökur til Ástu og Kristjáns á Oddsstöðum. Seinna um daginn keyrði Kristján svo mig og hesta mína upp á Uxahryggi. Þá var komið blíðskarparveður og reið ég þaðan í Skógarhóla á Þingvöllum.
Nú er ég farinn að afvegaleiðast og því kominn tími til að slá botninn í þessa umfjöllum um gamlar götur úr Kvosinni í Hvalfjarðarbotn. Hittumst vonandi aftur á öðrum gömlum götum.

Netfang:ornhelgi@torg.is