Hæhæ hestahugarar! :)

Það er svo langt síðan að ég hef skrifað eitthvað af viti á þessa síðu vegna þess að ég hef haft mikið að gera og alveg sérstæðlega lítið að segja (ég sem hef ALTAF eitthvað til mála að færa :) En um daginn sá ég eitt sem vakti athygli mína hér á síðunni. Ég var að skoða könnun sem hét þetta:
“Hvaða gang ríður þú mest í útreiðartúr???”
Og mér til skelfingar svöruðu meira en helmingur “tölt”(nánar tiltekið 54%)

Já, nú spyjra nokkrir sig ef til vill afhverju mér var það svo mikil skelfing. Jú, ég skal segja ykkur það.

Þegar ég ríð út, í bænum eða í sveitinni, þá þegar ég mæti fólki er það lang oftast á tölti. Einstaka menn og konur ríða framhjá manni á brokki eða feti, og maður sér sjaldan nokkurn mann vera að hleypa (samt líklegast vegna þess að fólk vill vera tillitssamt og hleypa ekki þegar aðrir eru nálægt sem er auðvitað hið besta mál). Oftast þegar maður sér fólk ríðandi á brokki þá eru það fagmenn sem eru með hross í tamningu og þjálfun.

Og nú að kjarna málsins; Það er vegna þess að BROKK ER UNDIRSTAÐA ALLS GANGS HJÁ HESTINUM. Púnktur og pasta.

Eins og flestir vita, þá ríður maður tamningatrippum á brokk
(fyrir utan fet og stökk) áður en þau eru gangsett. Og afhverju, jú því þau kunna ekki tölt. Til þess að hross geti tölt hreint og vel, þá þarf það að hafa mjög gott jafnvægi og vera gott á brokki. Jafnvægi á brokki er hlutur sem kemur með tímanum, en hann kemur auðvitað ekki nema maður gefi sér tíma til að láta hrossið brokka.
Þetta er svipað og með mennina, við byrjum ekki grunnskólan í 10. bekk, því þá höfum við ekki næga undirstöðu. Við byrjum á byrjuninni, og eins og Benni Líndal segir í myndbandinu sínu; “því byrjunin er góður staður til að byrja” Og það held ég að við verðum öll að taka undir.

Auðvitað er tölt þægilegasti gangurinn, en hann er það ekki fyrir hestinn. Brokk er þægilegasti og auðveldasti gangurinn fyrir hestinn. Svo í raun eigum við að geta notað brokkið sem einskonar hrós þegar hesturinn er búinn að vera duglegur. T.d. búinn að tölta góða vegalengd, stökkva vel, feta vel, hvað sem er.

Flestir þekkja líklega þá aðstöðu að vera á gömlum, viljugum, traustum og góðum töltara, og langa bara til að láta hann tölta heilan útreiðatúr því það er svo gaman og þægilegt. En maður verður að leyfa þeim að brokka. Leyfa þeim að slaka á inná milli. Þó þeir séu kannski gamlir og reyndir þá veitir þeim ekkert minna af því að fá að gera það sem er auðveldara frekar en öðrum.

Þetta með brokkið á líka sérstaklega við um fimmgangshesta. Fimmgangshestar sækjast mun meira í tölt en þeir klárgengu. Og það gerir það að verkum að við þurfum að hafa aðeins meira fyrir því að láta þá brokka (þó það þurfi ekki síður að passa uppá töltið í þeim því þeir eiga það til með að binda sig) en við verðum að skipta öllu jafnt. Brokk, tölt, fet, stökk, skeið, það verður að vera pláss fyrir þetta allt. Að eiga skeiðhest er svo mun meiri vinna en það er allt annað mál.


Svo hérmeð vil ég skora á alla að ríða meira út á brokki! Skipta þessu jafnt (ríða svipað af tölti og brokki í hverjum útreiðartúr) og nýta allar gantegundir hestsins.
Ég held það sé engu að tapa hér!

Kveðja, Ásta