Gamlar götur í Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu

Eftir Örn H. Bjarnason

Um nokkurt skeið hefur undirritaður haft áhuga á gömlum reiðleiðum á landinu. Þessi áhugi kviknaði í framhaldi af ferðaslarki á hestum. Fornar götur geyma á margan hátt merka sögu. Hjá Löngufjörum var það t.d. sem Æri-Tobbi vísaði ferðamönnum skakkt til vegar með þessari vísu:

Smátt vill ganga smíðið á
í smiðjunni þó ég glamri.
Þið skulið stefna Eldborg á,
undir Þórishamri.

Þarna var hins vegar ófært og drukknuðu allir, en eftir þetta orti Æri-Tobbi leirburð einan. Talið er að vísa þessi hafi orðið til í smiðjunni í Skógarnesi og var hann að vísa ferðamönnum fjöruveg austur Hausthúsafjörur. Í Fagraskógarfjalli var Grettisbæli en undir því liggur gömul þjóðleið. Berserkjagata í norðanverðu Berserkjahrauni er vettvangur frásagna í Heiðarvígasögu og Eyrbyggju. Svona mætti lengi telja en eitt er víst að land án sögu er flatt. Mannlífið og síkvikar minningar um það fólk, sem ferðaðist um þetta land gefur því dýpt.
En best að snúa sér að efninu. Þetta verður ekki nákvæm leiðarlýsing heldur einungis stiklað á stóru. Förina hyggst ég hefja við Hítará. Þegar komið er af Mýrum um Ferðamannaveg hraungötuna í Hagahrauni er farið yfir vaðið á Hítará “undir bælinu” sem kallað er. Þaðan liggur leið hjá Fagraskógarfjalli og um Kaldármela og síðan meðfram vegi niður að Snorrastöðum. Eins og að ofan greinir var Grettisbæli í Fagraskógarfjalli, en þar hafðist Grettir Ásmundarson við í 3 ár sekur skóggangsmaður. Ofan úr fjallinu gat hann fylgst vel með mannaferðum og erfitt að sækja að honum. Þarna útbjó hann sér fylgsni að ráði Björns Hítdælakappa sem bjó á Hólmi í Hítardal.
Á einum stað í Grettissögu segir Björn við hann: “Er þar bora í gegnum fjallið og sér það neðan frá veginum, því að þjóðgatan liggur niðri undir, en sandbrekka svo brött fyrir ofan, að fáir menn munu upp komast ef einn maður röskur er til varnar uppi í bælinu.”
Lengi hefur verið deilt um það hvort Íslendingasögur séu sannar. Um þetta er það að segja að þær eru sannari en sannar. Til viðbótar við hugsanlega sanna atburði kemur til innsæi höfundar. Ég býst við að þeir flestir hefðu gefið lítið fyrir nútíma bollaleggingar um sálarfræði eins og þær birtast í glanstímaritum í dag. Samt leynist í sögunum svo djúpstæð þekking á mannlegu eðli, að mann rekur í rogastans á annarri hverri blaðsíðu. Hann var sterkur í þeim heilinn þessum körlum. Þetta er ekki strangt til tekið umfjöllun um gamlar reiðleiðir, heldur sagan sem gerðist við hina fornu götu.

Um Hítardal

Ágæt leið liggur frá Staðarhrauni framhjá eyðibýlinu Múlaseli og Helgastöðum. Undir Bæjarfelli er bærinn Hítardalur. Skammt vestan við túnið þar er Hítardalsrétt. Þar er farið hjá og síðan eftir bílvegi. Framundan er Hítarhólmur með girðingu og nægu vatni. Þarna er gistiaðstaða. Halda má áfram meðfram Hítarvatni að vestanverðu. Ef vatnsstaða í vatninu er hagstæð er hægt að ríða undir bökkum þar og losna þannig við keldur. Síðan er farið eftir góðum götum að eyðibýlinu Tjaldbrekku.
Frá Tjaldbrekku er farið norður með Þröskuldardalsá og síðan beygt upp á Svínbjúginn svonefnda. Þarna heitir Bjúgsvegur. Á Svínbjúgi eru vatnaskil og þar eru mörk þriggja sýslna, Hnappadalssýslu, Mýrasýslu og Dalasýslu. Þegar komið er yfir Svínbjúg er farið niður í Burstardal. Í botni dalsins eru all skýrar götur. Því næst tekur við Selárdalur. Handan árinnar er ruddur vegur, sem liggur um Múlahorn og Hólsskarð að Hóli í Hörðudal.
Milli Vatnshlíðar og Klifsands er leið um Klifsdal. Farið er vestur yfir Hítará og upp Hvítingshjalla. Þarna liggur leið vestur í Hnappadal nokkuð brött. Komið er að Hallkelsstaðahlíð í Kolbeinsstaðahreppi sem er skammt frá Hlíðarvatni. Leið liggur frá Hólmi við Hítarvatn um Þórarinsdal í Gvendarskarð í Langavatnsmúla. Síðan er farið til vinstri inn múlann í átt að Hafradal. Svo yfir Hafradalsá fyrir enda Kattarhryggs yfir Langavatnsdalsá og í Langavatnsdal. Um Gvendarskarð fóru Hítardalsprestar að messa á Borg í Langavatnsdal. Þarna er að vísu komið í Mýrarsýslu en samt látið fljóta hér með.

Frá Snorrastöðum að Arnarstapa

Snorrastaðir standa austan við Eldborgarhraun en í gegnum það liggja þrjár fornar götur: Syðst er Þrællyndisgata hálfgerður óvegur eins og nafnið bendir til. Hún liggur milli Snorrastaða og Litla-Hrauns. Svo kemur Eldborgargata milli Garða í Kolbeinsstaðahreppi og Stóra-Hrauns. Frá Görðum liggur líka Skjólhvammsgata, en hún mætir Holtnagötu sem liggur þvert yfir Eldborgarhraun frá austri til vesturs. Hún var greiðfærust enda gamla póstleiðin. Í Akurholti rétt vestan við Haffjarðará var á tímabili bréfhirðing. Ef ekki voru farnar fjörurnar þá lá gamla skreiðarkaupaleiðin um Skjólhvammsgötu um svonefndan Skjólhvamm og fyrir vestan Sauðastapa. Farið var yfir Haffjarðará á Hábrekknavaði og út hreppa um Ölduhrygg.
Sagt er að Nikulás Ásmundsson frá Ystugörðum, sem uppi var á átjándu öld hafi fyrstur fundið Eldborgargötu. Í Sýslu- og sóknalýsingum frá árinu 1841 er hún talin alfaravegur og gerðar á henni vegabætur af og til. Hún kemur út úr hrauninu rétt fyrir norðan Stóra-Hraun. Farið var þar vestan frá túninu um svokallað Árnes og Reiðsker og yfir Haffjarðará á Bænhússvaði. Það var þrautavað. Skerjavað var svolítið neðar en það var sjaldan farið.
Milli Litla-Hrauns og Stóra-Hrauns er fjöruvegur ágætur þangað til flæðir að. Þá verður að krækja inn hraunjaðarinn. Upp með hinni veiðisælu Haffjarðará voru ágætar reiðgötur fyrrum. Á Stóra-Hrauni bjó lengi vel séra Árni Þórarinsson, en hann lagði þjóðinni til óborganlegar frásagnir stílfærðar af Þorbergi Þórðarsyni. Um þeirra samvinnu var sagt að þar hefðu komið saman lýgnasti maður á Íslandi og sá trúgjarnasti. Enn aðra götu má nefna í norðurjaðri Eldborgarhrauns, en hún lá meðfram Landbrotalæk.
Í hrauninu um 4 km frá Snorrastöðum er Þjófahellir. Þar munu menn hafa lagst út og lifað á ránum, kjörinn staður til þeirrar iðju enda mikil umferð út undir jökul. Þar var þéttbýlasta svæði á landinu lengi vel, þurrabúðarfólk svonefnt og útvegsbændur. Aðalleiðin frá Snorrastöðum og vestur lá um Löngufjörur en þær eru af sumum taldar ná frá Ökrum á Mýrum allt vestur að Búðum. Venjulega er þó talið að þær nái ekki nema að Stakkhamri. Frá Stakkhamri að Búðum tekur við skeljasandsfjara.
Ef lagt er af stað segjum frá Grímsstöðum á Mýrum og farið með Múlum og hjá Snorrastöðum er hæfileg dagleið að Hausthúsum. Farið er undir Snorrastaðabakka meðfram Kaldá. Þar fyrir neðan taka fjörurnar við. Farið er milli Lönguskerja að Básatá og síðan í Saltnes og svo áfram með Hausthúsaeyjar á vinstri hönd og um Hausthúsafjörur að Hausthúsum. Ef ekki er rambað rétt á sjávarföllin geta menn lent á hrokasundi í álunum, svo snögglega fyllast þeir. Í Almanaki Þjóðvinafélagsins eru greinargóðar upplýsingar um flóð og fjöru. Hestamenn ættu að hafa það í farteskinu þegar Löngufjörur eru farnar. Sömuleiðis að leita eftir leiðsögn kunnugra.
Næsta dagleið gæti svo verið frá Hausthúsum að Görðum. Þá er riðið meðfram vegi að Syðra-Skógarnesi og síðan um fjörur að Stakkhamri og þaðan að Görðum, er þá síðasti spottinn farinn meðfram vegi. Ágæt dagleið er frá Görðum að Arnastapa. Farið er niður á fjörurnar og síðan um Búðaós. Þar fyrir vestan tekur Búðahraun við.
Um Búðahraun liggur Klettsgata. Hún þótti alltaf nokkuð erfið yfirferðar enda víða djúpar gjótur þar, gjár og hraunhvelfingar á báða bóga. Í Búðahrauni hafa fundist fjölmargar burknategundir. Þarna lá skreiðarkaupaleið þeirra sem áttu viðskiptamenn að Arnarstapa, Hellnum og Dritvík. Þetta var kallað að fara “framan undir.” Var þá ýmist farin Klettsgata eða með fjöllum út Breiðuvíkina. Áfram er svo haldið hjá Miðhúsum um Hraunlandarif að Hamraendum með Húsanesvatn á hægri hönd. Þarna fór hestur undirritaðs eitt sinn svo rækilega ofan í sandkviku, að hann endasteyptist og ég á hausinn með. Það var blaut lending. Svo er farið um Hamraendahamar og yfir ánna Sleggjubeinu. Þar stutt frá stóð bærinn Grímsstaðir. Skáldið og beykirinn Sigurður Breiðfjörð bjó þar á árunum 1836-1841 með Melabúðar-Kristínu sem svo var nefnd.
Líf hans þarna var honum um flest mótdrægt enda hafði sjálft höfuð rímnaskáld þjóðarinnar ruglast svo rækilega í ríminu, að hann giftist Kristínu án þess að hafa skilið við sína fyrri konu. Hann hafði gerst sekur um tvíkvæni. Skáld eru ekki tiltakanlega smámunasöm, en það eru yfirvöld á hinn bóginn og í framhaldi af málastappi hrökkluðust þau skötuhjúin frá Grímsstöðum slypp og snauð. Þegar hið svonefnda réttlæti er komið á skrið þá vinnur það eins og grjótmulningsvél. Á því fengu þau rækilega að kenna.
Næst er komið að Sölvahamri. Þar liggja reiðgötur nokkuð tæpt víða en hamarinn er sums staðar 100 metra hár. Niður Stapaklif liggur leiðin um Grísafossá og gamla götu að Arnarstapa.
Um Sölvahamar var alfaraleið fyrrum. Á einum stað liggur gatan um skarð milli hraunsins og kletts sem heitir Göngukonusteinn. Nafnið er þannig til komið, að eitt sinn áttu menn þarna leið um með skreiðarlest. Þeir riðu framá förukonu sem hírðist undir steininum. Hún bað þá gefa sér mat en þeir neituðu henni um það. Fyrir harðneskjuna hefndi hún sín á þeim og mælti svo fyrir að hraun skyldi eyða þeim. Í sömu andrá gaus upp jarðeldur og hrauntungan rann yfir skreiðarlestina.
Að Arnarstapa hafa leiðir margra legið á vorin með búvöru á klyfjahestum í skiptum fyrir skreið. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1709 kemur fram umkvörtun ábúanda þar undan átroðningi og óbærilegu ónæði manna sem sækja þangað kaupstefnur. Skreiðarferð úr Laxárdal og þarna vestur tók viku, en úr Kolbeinsstaðahreppi 5 daga.
Á fáum stöðum hef ég séð annan eins sælusvip á andlitum samferðafólks míns eins og á Löngufjörum. Þar hefur margur uppgötvað að í lullsæknum reiðhesti hans leyndist gammviljugur vekringur eða hann hefur opnað sig á hraðatölti. Óvíða finnast betri reiðgötur en á eggsléttum leirum og söndum frammi í flæðarmáli á Löngufjörum. Þær rofna að vísu hér og þar en það gerir einungis gleðina enn meiri þegar þær taka við aftur.
Útlendingar sem hingað koma til að hvíla sig á uppáþrengjandi siðmenningunni, segjast hvergi hafa komist eins nærri því sem kallað er algleymi eins og á Löngufjörum. GSM-síminn og lófatalvan langt, langt í burtu. Þetta algleymi varir að vísu ekki nema í fáeinar mínútur dag hvern, en það er þess virði að leggja á sig mikið erfiði til að kalla það fram aftur og aftur. Þess skal getið að fara verður varlega þarna. Frá því segir í annálum frá árinu 1800 að Pétur prentmeistari Sveinsson hafi komið um sumarið í söluferð með bókalest. Hann seldi bækur undir Jökli en fór síðan inn Snæfellsnesið að sunnanverðu. Tveir menn voru með honum og ráku þeir klyjahestana á undan sér.
Er þeir komu á Löngufjörur var farið að falla talsvert að. Þeir voru ekki allsgáðir og hleyptu hestum sínum á bólakaf. Þarna drukknuðu þeir allir en lík tveggja þeirra fundust þegar fjaraði undan þeim. Lík Péturs fannst hins vegar aldrei. Hann var sagður hafa verið með talsvert af peningum á sér og sumir sögðu að bóndi þarna í nágrenninu hefði fundið líkið og stolið peningunum. Hugmyndaflugið ríður ekki við einteyming þegar peningar eru annars vegar og fátt veldur eins mikilli andvöku.
Löngufjörur hafa frá fyrstu tíð verið alfaraleið . Í Þórðar sögu kakala er sagt frá flótta Þórðar undan Kolbeini unga frá Borgarnesi og vestur. Sagt er að Þórður hafi riðið út á vaðlana. Talið er að þarna sé átt við fjörurnar vestur undan Jörfa. Kolbeinn reið hins vegar á kaf í flóanum.
Fyrir ofan Búðahraun liggur Jaðragata. Frá Búðum er farið út hjá danska stekk og síðan meðfram hrauninu í Axlarhóla. Þar tekur þjóðvegurinn við út hjá Knörr og Tungubæjum. Um þetta fræddi mig aldraður maður kominn eitthvað yfir nírætt Guðbrandur Vigfússon. Hann hafði ungur maður ráðist til Finnboga á Búðum, en var seinna um árabil oddviti í Ólafsvík. Nú er þetta fólk sem man tímanna tvenna óðum að hverfa og ómetanleg vitneskja um lifnaðarhætti fyrri tíma með því. Það er synd. Þarna skammt frá undir Axlarhyrnu stendur bærinn Öxl. Niður undan Axlarhólum stóð Forna-Öxl. Rústir bæjarins eru við Jaðragötu. Þar bjó á sextándu öld sá íllræmdi fjöldaforðingi og stigamaður Axlar-Björn. Hann drap 18 manns og var líflátinn á Laugarbrekkuþingi árið 1596. Grunur hafði fallið á hann m.a. vegna þess hversu hestmargur hann var á stundum.
Menn notuðu sleggjur til að beinbrjóta hann á útlimum. Eftir það hjuggu þeir af honum hausinn og settu á stöng. Kona Björns var talin í vitorði með honum og hún var viðstödd aftöku hans. “Smásaxast á limina hans Björns míns,” sagði hún þegar verið var að búta karlinn niður. Veður var gott þennan dag. Eins og allir miklir athafnamenn kaus Axlar-Björn að búa nálægt alfaraleið og þarna á Öxl var hann nánast á krossgötum. Bæjarstæði er fallegt þarna sunnan í móti en svo svartsýnn var hann og djúpt sokkinn, að hann sá ekki sólina um hádegisbil í heiðskíru veðri um Jónsmessuna.
Búðir voru um aldir verslunar- og útgerðarstaður. Þarna í grunnum Búðaós þótti á Landnámsöld gott að ráða skipum til hlunns. Á stórstraumsfjöru var þeim fleytt langt inn en síðan flæddi undan þeim. Ekki langt frá Búðum er Bjarnafossdalur. Þangað voru naut rekin fyrrum til beitar á sumrin.
Á Bjarnafossi bjó Katla. Hún var ótrúlegt skass og vinnuhörð en maður hennar liðleskja og dusilmenni. Hvern sunnudag fór hún til kirkju, en leyfði selsfólkinu aldrei að koma með. Hún var þó ekki með öllu samviskulaus og færði selsfólkinu hnausþykkan graut fram í Bjarnarfossdal í yfirbótarskyni. Þar heitr Kötlustígur sem hún fikraði sig upp klettastallana. Að lokum hrasaði hún og féll í foss, sem eftir það heitir Kötlufoss. Réttlætistilfinning alþýðunnar endurspeglast í þessari munnmælasögu.

Snæfellsnesið utanvert

Á Arnarstapa skiptust vegir. Efri vegurinn lá um ofanvert Hellnahraun fyrir ofan Laugarhöfuðið og bæina Laugarbrekku, Miðvelli og Dagverðará. Þaðan svo undir Háahrauni Háahraunsgötuna svonefndu yfir Dranga- og Beruvíkurhraun. Síðan vestan undir jöklinum í norður fyrir ofan Beruvík og þaðan inn í Ingjaldshólssókn.
Háahraunsgatan er víða ágætlega vörðuð og heitir ein varðan þar Prestsvarða. Neðri vegurinn lá með sjó, yfir neðanvert Hellnahraun, þá yfir Hellnapláss, svo kippkorn fyrir neðan áðurnefnda bæi, síðan meðfram sjónum út á Malarrif, út í Lón, Dritvík og að Hólahólum. Þaðan í Beruvík og svo í Ingjaldshólssókn.
Um svonefndan Efsta veg er sagt í Örnefnalýsingu höfð eftir Jóni Magnússyni frá Litla-Lóni; “Efsti vegurinn lá úr Beruvíkurhliði um Litlumóðu neðan við Krossabrekkur, inn með fjallinu, yfir heiðar og var komið á hann (miðveginn) inn undir Vættir við Skeiðsand. Fyrir innan Saxhól um Djúpudali og Hvarfbrekkur. Ef þú fórst hann munaði á lestargangi þrem tímum, hvað það var styttra miðað við að fara miðveginn ofan í Beruvík.”
Sýslumaður Snæfellinga 1793-1796 var Jón Espólín. Hann bjó m.a. á Ingjaldshóli. Fljótlega komst hann að raun um að Jöklarar væru þvermóðskufullir oog hyrsknir. Hann setti því upp gapastokk heima að Ingjaldshóli mönnum til viðvörunar, vildi með því draga úr flakki og annarri lausung. Sennilega hefur honum þótt of langt að fara að Laugarbrekku til að hirta sveitunga sína. Skammt fyrir utan Ingjaldshól er útgerðarstaðurinn Rif. Þar ætluðu synir Jóns biskups Arasonar að handsama Daða í Snóksdal árið 1549, en hann hafði spurnir af ferðum þeirra og komst undan á léttvígum, fóthvötum hesti er Markúsar-Brúnn hét.
Árið 1467 drápu Englendingar Björn hirðstjóra Þorleifsson þar sem hann var staddur á Rifi. Þeir brytjuðu lík hans í sundur og sendu konu hans Ólöfu ríku að Skarði á Skarðsströnd. Þessu atviki eigum við að þakka vegalögn hjá Skarðsfjalli. Ólöf hefndi bónda sins og tók marga Englendinga til fanga. Hún lét þá vinna m.a. að vegagerð á jörð sinni, þá sem hún ekki drap.

Leiðir norður yfir Snæfellsnesið

Frá Arnarstapa yfir í Ólafsvík er leið um Jökulháls. Hún liggur upp með Stapafelli og síðan í jökulrótunum í 700-800 metra hæð yfir sjávarmáli.
Í Sýslu- og sóknalýsingum yfir Nesþing sem Þorgrímur Thorgrímsen skráði árið 1840 segir: “Yfir Jökulháls sem áður er nefndur liggur og vegur. Er hann stuttur og oft farinn á vetrum og fara má hann ogso með hest um sumardag. Upp á hann má fara að norðanverðu frá Ingjaldshóli, Vaðstakkseyri, Sveinsstöðum og Ólafsvík. Að sunnanverðu eru næstu bæir við fjallveg þenna Arnarstapi og Hellnar í Breiðuvík.”
Um fjallveg þennan skyldi enginn fara í dimmviðri enda þarna villugjarnt og snjór getur legið þar á kafla fram eftir sumri. Árið 1932 reistu svissneskir veðurathugunarmenn hús á Jökulhálsi en það fauk í burtu. Þetta sýnir að þarna getur verið stórviðrasamt.
Um Kambsskarð liggur önnur leið úr Breiðuvík. Farið er upp í skarðið frá bænum Litla-Kambi. Allbratt er þar upp. Að norðanverðu er komið niður að Fróðá. Af skarðinu má líka komast annan veg ofan að Arnarhóli næsta bæ við. Leiðin um Kambsskarð var nokkurð farin fyrrum bæði vetur og sumar. Annars var þarna vestra víða erfitt yfirferðar vegna hrauna. Enn sjást vörðubrot á þessari leið en þessar vörður þyrfti að endurreisa.
Svo blindri þoku lenti undirritaður í á Leggjabrjótsleið í sumar leið, að engin leið hefði verið að rata nema vegna þess að vörður vísuðu veginn. Reglan um vörður er sú, að ekki má vera lengra á milli þeirra en að tvær sjáist samtímis.
Seint verður nægilega brýnt fyrir hestafólki að hafa áttavita meðferðis og ekki sakar að kunna að nota hann. Áttaviti hefur hins vegar ekki alltaf verið til og skemmtilega sögu hef ég heyrt um hugkvæmni bónda úr Vatnsdal í Húnavatnssýslu. Hann villtist ásamt kunningja sínum uppi á Grímstunguheiði og brá á það ráð að krafsa sig niður úr snjónum til þess að sjá hvernig stráin undir fönninni lágu. Hann mundi úr hvaða átt blés við fyrstu snjókomu og með þessu móti náði hann áttum og þeir félagar komust klakklaust heim. Ég er ekki viss um að margir búi yfir svona þekkingu á náttúrunni í dag.
Á Kambi bjó Björn Ásbrandarson Breiðvíkingakappi. Frá tíðum ferðum hans yfir að Fróðá segir í Eyrbyggju. Þangað fór hann að hitta Þuríði systur Snorra goða. Hún var gift Þóroddi skattkaupanda. Ekki þótti öruggt um faðerni Kjartans sonar Þuríðar. Þóroddi var ekki vel við Björn.
Um Fróðárheiði liggur akvegurinn frá Búðum yfir í Ólafsvík. Þarna var nokkuð fjölfarið, en þeir sem komu að norðan eða úr Dalasýslu til skreiðarkaupa út undir Jökul kusu samt frekar að fara Rauðamelsheiði ofan í Hnappadalssýslu. Ástæðan fyrir því að menn fóru ekki norðan fjalla var sú hversu erfitt var að fara um Búlandshöfða og Ólafsvíkurenni. Það var ekki fyrr en 1961 að kominn var akfær vegur fyrir Búlandshöfða, en hjá Ólafsvíkurenni 1963.
Upp á Fróðárheiði að sunnanverðu fara hestamenn í dag ekki þjóðveginn heldur upp Hraunhafnardalinn upp á Rjúpnaborgir. Niður heiðina að norðanverðu er farinn þjóðvegurinn og komið að Klettakoti. Til Ólafsvíkur er svo farið meðfram Bugsvaðli.
Þarna á einum stað heitir Knarrarfjall og Knarrarklettar. Þar hafa margir hrapað fram af er þeir hafa villst af leið á Fróðárheiði.
Um Arnardalsskarð lá leið frá Kverná í Grundarfirði. Farið var um Arnardalshlíð upp Arnarklif um Sóleyjardal og vestan megin Arnar. Komið var niður að sunnanverðu við bæinn Hólkot. Vegur þessi var talinn slitróttur og litlar endurbætur fóru fram á honum. Staðarsveitingar nefna leið þessa Bláfeldarskarð.
Í seinna stríði vann Theódór Friðriksson rithöfundur við móskurð í Staðarsveit. Hann segir frá því að piltana í mógrafavinnunni hafi ekki munað um að fara fótgangandi á böll yfir í Grundarfjörð og til baka aftur að dansleiknum loknum.
Leikfimikennari hefur sagt mér að í dag geti sumir unglingar varla borið sig um á jafnsléttu, svo mjög hefur seta við sjónvarp og tölvur dregið úr hreyfigreind þeirra. Hreyfigreind er nýyrði og þýðir m.a. að viðkomandi detti ekki mikið um sjálfan sig og ef hann dettur þá hafi hann vit á að bera fyrir sig hendurna. Hreyfigreind er líka að tolla nokkurn veginn skammlaust á þægum hesti. Dæmi um litla hreyfigreind er Ford fyrrverandi Bandaríkjaforseti, en hann er sagður eiga erfitt með að ganga og tyggja tyggigúmmí samtímis
Úr því að við erum stödd á þessum slóðum má skjóta því hér inn í að vegatollur við Hvalfjarðargöng er ekkert einsdæmi í Íslandssögunni. Þannig háttar til að eftir endilangri Staðarsveit liggur melahryggur. Um hann lá alfaravegur. Sagt er að Grani bóndi á Staðarstað eða Stað á Ölduhrygg eins og bærinn hét fyrrum hafi hlaðið garð um þjóðbraut þvera, svonefndan Granagarð, mikið mannvirki. Á garðinum hafði hann hlið og innheimti þar toll af vegfarendum.
Grani tollheimtumaður varð ekki vinsæll af þessu uppátæki sínu og einn morguninn fannst hann hangandi í snöru á öðrum hliðstólpanum, dauður. Margir þekktir kirkjunarmenn hafa setið Staðarstað.
Prestur á Staðarstað 1922-1938 var Kjartan Kjartansson. Hann er talin fyrirmynd að Jóni prímusi persónu í bókinni Kristnihald undir Jökli eftir Halldór Laxness. Um tíma bjó hann á Bakka í Ölfusi og heyjaði í Ölfusforum þar sem hestum hafði lítt verið við komið. Hann setti þrúgur undir hestana og gafst það ágætlega. Kjartan þessi var mikill hugvitsmaður og fann m.a. upp berjatínuna, ótrúlegt framfaraskref í íslenskri verkmenntasögu.
Ef ferðinni var heitið til Helgafells eða Skógarstrandar var ýmist farið um Vatnaheiði og Vatnsskarð, Lágafellsháls eða Kerlingarskarð.
Ferðar er getið um Kerlingarskarð m.a. í Sturlungasögu. Þar segir: “Reið Þórður kakali þaðan vestur Kerlingarskarð og vestur til Helgafells. Fékk Þórður sér þar skip og fór út í Fagurey, en hestana lét hann reka it iðra; kom hann þar laugardaginn fyrir hádegi, það var hinn næsta dag fyrir Andreasmessu. Þótti það öllum mikil furða og varla dæmi til finnast, að menn hefðu riðið hinum sömu hestum í einni reið af Þingvelli og til Helgafells í svo miklum ófærum sem þá voru. Þórður reið fimmtadag um hádegi af Þingvelli en kom til Helgafells föstunóttina, er stjarna var í austri. Þóttust þá allir þegar vita að Þórður myndi til nokkurra stórra hluta undan rekið hafa.”
Flatnavegur lá frá Ytra-Rauðamel og að Litla-Laugadal vestan Sátu. Þetta var fjögra tíma lestagangur og var talað um að fara um Flatir. Oftast var þarna hins vegar farið um Heydal. Um Flatir fóru menn í verslunarferðir til Stykkishólms.
Bæjarstæðið að Ytri-Rauðamel var valið með þeim hætti að sögn Landnámabókar, að þar sem bærinn stendur lagðist hryssan Skálm undir birgðum sínum. Þetta tók Sel-Þórir sem ábendingu um að þarna skyldi hann setjast að.
Um Heydal hefur löngum verið fjölfarin þjóðleið. Vegur um hann lá frá Miðstrandarbæjum og suður að Ölviskrossi, en með lest tók þetta 3 klt. Troðningar lágu milli Ölviskross og Höfða um Höfðaása, klukkutíma lestagangur. Þó að slíkar ferðir hafi ugglaust oft verið erfiðar þá hefur lestamannalíf áreiðanlega fyrir marga verið kærkomin tilbreyting í fásinninu.
Leið lá um Rauðamelsheiði. Um hana og dalina vestan hennar voru alfaraleiðir á Skógarströnd og þaðan um Vestliðaeyri í Dalina. Örnefnið Götuvatn minnir á þetta. Rauðamelsheiðarvegur var fyrrum talinn liggja frá innstu bæjum á Skógarströnd og suður að Ölviskrossi. Með lest tók það 4 klt. að fara þessa leið.
Sátuhryggjarvegur lá frá Breiðabólsstað suður að Höfða eða Rauðamel og var fjögra stunda ferð með lest. Stígar eru um Gullborgarhraun milli Syðra-Rauðamels og Höfða í Eyjahreppi og eins milli Syðra-Rauðamels og Hraunholts. Þótt þetta væru hálfgerð torleiði voru þessir stígar oft farnir áður fyrr.
Fossavegur liggur frá Hafursstöðum við Hlíðarvatn uppúr Fossabrekkum og yfir að Dunki í Hörðudal í Dalasýslu. Í Bjarnar sögu Hítdælakappa er þessarar leiðar getið en heitir þar Knappafellsheiði. Þessa leið fór Þorsteinn Kuggason frá Ljárskógum ásamt mönnum sínum. Þeir voru á leið í jólaboð til Dálks að Húsafelli í Borgarfirði og gistu að Hafursstöðum. Þessi leið var aldrei fjölfarin.
Þegar komið er upp fyrir Fossabrekkur heitir þar klettarani rétt vestan við slóðina Beinakast. Þar fundust árið 1954 bein af manni sitjandi á hækjum sér, sennilega örmagnast á vetrardegi, sofnað og ekki vaknað aftur. Þetta minnir á að íslensk náttúra getur verið grimm og eins gott að leita samkomulags við hana.
Talað var um að fara upp á Fossa eða inn Fossa þegar farið var úr Hnappadal og vestur, en aftur á móti suður Fossa þegar farið var úr Hörðudal. Aldrei var þessi leið fjölfarin.

Leiðir um Snæfellsnesið norðanvert

Um Ennisdal var stundum farið þegar flóð var undir Ólafsvíkurenni en í fjörunni þar lá annars leiðin. Seinfarið þótti um Ennisdal vegna stakgrýtis víða.
Margir týndu lífi við Ólafsvíkurenni. Í Bárðar sögu Snæfellsáss segir frá Hettu tröllkonu sem bjó í Ennisfjalli. Hún var gráglettin í viðskiptum sínum við Ingjald bónda á Ingjaldshóli og kannski líka við ferðalanga, sem áttu leið um Ólafsvíkurenni. Vitað er að Jónas Hallgrímsson fór þarna enda geymir eitt ljóða hans minningu um það.
Leiðin frá Ólafsvík til Grundarfjarðar liggur um gömlu brúna á Fossá og reiðgötu inn að Hjallhóli. Síðan eftir gömlum vegi inn að Bug og með Bugsvaðli að Fróðá, Klettakoti og Fornu Fróðá. Svo þjóðvegurinn að Geirakoti og Brimilsvöllum, Hrísum og Hrísaá.
Fjöruveg er hægt að fara þegar fjara er og yfir Helgabrot og inn Mávahlíðarrif að Mávahlíð. Þjóðvegurinn er farinn fyrir Búlandshöfða.
Utan í Búlandshöfða lá mjó gata og hengiflug fyrir neðan. Helst virtist þar fyrir fuglinn fljúgandi að fara. Þarna eru örnefni eins og Líkasteinn og Þrælaskriða, ekki uppörvandi heiti. Hjá Þrælaskriðu var gatan varhugaverðust og segir í Eyrbyggju að þar hafi þrælar steypt sér fyrir björg óttalsegnir á flótta. Núna er þarna bílvegur.
Um Höfðaskarð á bak við Búlandshöfða lá leið. Um hana segir í Sýslu- og sóknalýsingum yfir Snæfellsnes sem Sigfús Schulesen skráði árið 1840: “Að sönnu liggur svonefnt Höfðaskarð uppi á fjallinu, bak við Höfðann, en þar eð báðum megin að er bratt og erfitt upp á það og vegur talsvert lengri hefir þar enn nú ei verið þjóðvegur lagður, þó í viðlögum hafi einstöku sinnum þar með hesta yfir farið.”
Um Höfðaskarð kvað einn svona heldur stúrinn ferðalangur:

Fyrir mér aldrei verri varð
vegur um heimsins álfur
en há-bannsetta Höfðaskarð.

Farið var um Höfðaskarð upp frá bænum Höfða í Eyrarsveit að Mávahlíð í Nesshreppi. Mávahlíðar er getið í Eybyggju vegna Mávahlíðarvíga svonefndra. Þarna varð harður bardagi milli Þórarins svarta bónda í Mávahlíð og Þorbjörns digra á Fróðá og manna þeirra. Konur reyndu að ganga á milli en við það saxðist höndin af Auði konu Þórarins og fannst hún á blóðvellinum að bardaganum loknum. Oddur frá Kötluholti vann þetta fólskuverk og var hengdur fyrir. Mávahlíð þótti kostajörð.
Gamla póstleiðin milli Grundarfjarðar og Stykkishólms lá um Tröllaháls. Þarna fer fólk talsvert á hestum í dag. Komið er niður í Ánabotna og Hraunsfjörð. Þaðan er hægt að fara svonefnda Efri leið, sem liggur fyrir ofan hraunið. Vörðubrot vísa nokkuð veginn og eins er þarna gamall bílvegur. Síðan er haldið áfram hjá Gríshóli og á Drápuhlíðarmela.
Neðri leið liggur að Bjarnarhöfn. Frá Hraunsfirði er farið í gegnum hraunið. Þarna er gamall bílvegur og komið niður á Bjarnarhafnarsanda og hjá Kothraunskúlu og síðan að Bjarnarhöfn. Frá Bjarnarhöfn er farið meðfram vegi á Drápuhlíðarmela. Þaðan er stutt í Stykkishólm.
Hrísasneiðingar er getið í Íslenskir sögustaðir eftir Kristian Kålund útgefið 1877. Þar segir: “Brött er fjallshlíð niður að Álftafirði og liggur leiðin niður að firðinum við horn múlans eftir brattri og krókóttri götu er nefnist Hrísasneiðingar; er það klif það sem nefnt er í Eyrbyggju þar sem “upp ríður úr fjörunni.” Þar náðu menn Arnkels Spá-Gils og drápu hann, eftir að hann hafði myrt Úlfar.
Ýmsar fleiri götur eru á norðanverðu Snæfellsnesi. Berserkjagata er þar þekkt en hún liggur um Berserkjahraun. Berserkjagötu er getið bæði í Heiðarvígasögu og Eyrbyggju. Í Eyrbyggju segir að Víga-Styr, sem bjó að Hrauni hafi tekið við tveimur svona heldur skarpstirðum berserkjum af bróður sínum Vermundi í Bjarnarhöfn. Til þess að bæta geð þeirra fékk hann þeim verk að vinna og skyldi annar þeirra fá dóttur hans að launum. Verkefnið var m.a. að ryðja veg yfir hraunið út til Bjarnarhafnar.
En Víga-Styr efndi ekki loforð sitt heldur drap berserkina þar sem þeir voru í baði. Síðan dysjaði hann þá við götuna. Enn í dag sést þessi dys mjög greinilega, enda hafa vegfarendur sjálfsagt bætt steinum í hana í tímans rás.
Berserkjagata er mikið mannvirki og er enn farin á hestum. Dysin hefur verið rofin og fundust þar bein af tveim lágvöxnum, þreknum mönnum. Þessi gata er talin elsti manngerði vegurinn á Íslandi, eitthvað um 1000 ára gamall.
Á þessum slóðum er líka Gagngata. Hún lá upp frá Hraunsfirði í Helgafellssveit að Grísahóli í sömu sveit. Um Gagngötu segir í Sýslu- og sóknalýsingum Helgafells- og Bjarnarhafnarsóknar, sem Jón Guðmundsson skráði árið 1842: “Þegar komið er að innan, er farið yfir Álftafjörð, þá fjara er, og upp frá honum riðið yfir Hrísasneiðinga. Frá þeim liggur vegur eftir sveitinni yfir Vatnsdal og framhjá Drápuhlíð út á svonefnd Skeið, allt að Berserkjahrauni. Mestur vegur þessi liggur eftir holti og er hann góður. Yfir hraunið liggur svonefnd Gagngata. Er hún góður vegur og sléttur, nema hátt klif er í ytri hraunjaðrinum.”

Niðurlag

Í stuttri grein sem þessari er ekki unnt að lýsa öllum leiðum. Margar eru þó þekktar eins og t.d. Sátudalur, Háskaskarð, Dugfossdalsvegur og Baulárvallavegur. Þetta og fleira sem hér hefur verið sleppt verður að bíða betri tíma að fjalla um.
Þegar kannaðar eru gamlar götur vill oft gleymast, að margir fóru fótgangandi um langan veg t.d. í verið. Vermenn völdu stystu leið þótt um fjöll væri að fara. Reiðhest á járnum áttu kannski ekki aðrir en gildir bændur og oft á tíðum ekki einu sinni þeir. Járn í skeifur var stundum ófáanlegt.
Talið er að þegar Reynistaðabræður urðu úti á Kili hafi menn misst kjarkinn að fara þann fjallveg. Önnur skýring og kannski nærtækari er sú, að menn áttu einfaldlega ekki skeifur undir hross til langferða.
Fátækt er einkennilegur hlutur og sú var tíðin að heilu breiðurnar af fólki voru á verðgangi hér, þrömmuðu milli byggða í leit að mat. Þetta fólk tróð fornar götur, þar sem við ríðum skemmtiskokk í dag með fjölvítamín út í hvern taugaenda. Næringarskortur skapar skrítna óra og trúin á útilegumenn náði þarna hámarki. Kannski var þar í bland von um, að til þeirra mætti flýja í grösuga, dularfulla dali þar sem lömb væru til slátrunar og heitir hverir að sjóða í. Þjóðin sofnaði út frá draumum um feitmeti á hverju kvöldi og kjöt af nýslátruðu.
Sumt af því sem sagt er hér að framan er byggt á Sýslu- og sóknalýsingum frá því um miðja 19. öld. Þær eru ómetanleg heimild um alfaravegi á þeim tíma og eru til komnar mikið til að frumkvæði Jónasar Hallgrímssonar, listaskáldsins góða.
Þessi forðum langminnuga þjóð er víst búin að gleyma flestu um Jónas nema rysjóttu veraldargengi hans og því, að hann datt á hausinn niður stiga í Kaupmannahöfn og dó upp úr því. Skyldi nokkur lengur muna eftir þessu ljóði?

Enginn grætur Íslending
einan sér og dáinn.
Þegar allt er komið í kring
kyssir torfa náinn.

En kannski gerir það ekkert til. Við þurfum ekki að hafa þetta í hausnum lengur, getum bara sótt allan fróðleik á Internetið og gleymt honum svo.
Bent hefur verið á að hestamennska geti verið hættuleg og vissulega hafa menn lent í óhöppum á hestbaki. Hitt vill gleymast að það hættulegasta sem nokkur maður getur aðhafst er að fara á fætur á morgnana og fram á bað að raka sig. Á sleipum gólfum baðherbergjanna verða flest slysin.
En svo ég víki að öðru þá hef ég tekið eftir því, að hestar virðast þreytast misjafnlega á ferðum þó að knapar séu svipaðir að þyngd. Ég held að þetta geti stafað af því að sumir leggja hnakkinn allt of framarlega á hest sinn, en eins hitt að menn fylgja hestinum misjafnlega eftir. Sumir vinna með ásetu sinni á móti hestinum.
Ekki hefur hér verið minnst á náttúrufegurðina, né hesta á mjúkri moldargötu kasta toppi eða hvernig reksturinn bylgjast áfram frjáls í faxi. Ekki hefur heldur verið minnst á sjávarloftið við gullinn sand eða fugl í fjöru, straumönd hjá bergvatnsá eða nýgenginn lax að skvetta sér. Eða silfurtær jökullinn og hesta á beit í sumargrænum haga að safna kröftum fyrir næstu dagleið.
Allt er þetta samt partur af hestaferðum, ógleymanlegar myndir, blik í auga, samferðafólk á leið gegnum daginn. Hágengur töltari, vekringur eða brokkari, sem tekur mikla jörð svo dunar í sandinum . Þetta eitthvað sem fær jafnvel seinlátustu hjörtu til að bifast.
Stundum þegar ég hef farið um Snæfellsnesið hefur mér fundist, að þegar gussi skapaði þessa náttúrufegurð hafi hann heldur betur verið í stuði.