Gamlar götur í Rangárvallasýslu

Eftir Örn H. Bjarnason


Margt hefur verið skrifað um reiðgötur í Rangárvallasýslu alveg frá því í fornöld. Það kann því að virðast að bera í bakkafullan lækinn að gera það enn einu sinni. En til að gera langa sögu stutta, þá hefur mig lengi langað að skrifa yfirlitsgrein um reiðleiðir í Rangárvallasýslu enda farið þar talsvert um á hestum. Fyrir stuttu ætlaði ég svo að gera alvöru úr þessu. Í gegnum tíðina hef ég punktað hjá mér minnisatriði á bréfsnifsi, sem ég hef síðan hent í pappakassa heima hjá mér. Nú hugðist ég púsla þessu saman, aldrei að vita nema í óskapnaðinum leyndist grein.
Þá var að fara á bókasafnið og viða að sér sögulegu efni til uppfyllingar í greinina. Eitthvert kjöt verður að vera á beininu. Þegar ég var kominn með álitlegan stafla af bókum í fangið, rakst ég á bók eftir einhvern Helga Þorláksson, sagnfræðing. Hann mun víst vera prófessor við Háskólann eða eitthvað svoleiðis og hefur skrifað nokkrar bækur og greinar. Ekki er hann verri fyrir það þó að hann sé prófessor og ekki að marka það þó að við í kaffiskúrnum í Neðri-Fáki segjum stundum um þennan eða hinn, að hann sé hálfgerður prófessor. Það er ekki hrós. Geti viðkomandi hins vegar setið hest nokkurn veginn skammlaust notum við ekki þannig orðbragð. Í Neðri-Fáki er mælikvarði alls hvernig menn sitja hest.
Þegar heim var komið lagðist ég upp á divan og fór að glugga í bókina. En hvert í logandi, þessi Helgi hafði verið á undan mér og ekki svo lítið. Árið 1989 hafði hann gefið út bók, sem heitir Gamlar götur og goðavald. Í henni var hann búinn að tíunda nánast allt um gamlar reiðgötur í sýslunni, sem ég vildi sagt hafa og miklu, miklu meira. Mér fannst ég einfaldlega ekki hafa sama olnbogarými eins og í öðrum sýslum sem ég hef skrifað um.
Lengi hef ég vitað að þeir sem ætla að skrifa eigi ekki að lesa of mikið. Ef ég hefði ekki lesið þessa bók hefði ég getað skrifað mína grein alveg hindrunarlaust. Varðandi skaðsemi of margra bóka þá rifjast upp fyrir mér, að liðtækur breskur rithöfundur uppi á öldinni sem leið álpaðist til að ráða sig sem bókavörð á British Museum. Þegar hann sá öll þau kynstrin af úrvals bókum, sem höfðu verið skrifaðar í heiminum, missti hann algjörlega móðinn. Er skemmst frá því að segja, að hann skrifaði ekki staf fyrr en hann hafði vit á að forða sér út af safninu og lét öðrum það eftir að gæta heimsbókmenntanna.

Inn Fljótshlíð að Einhyrningi
Nema hvað þar sem ég lá uppi á dívan, þá fór ég í huganum yfir ýmislegt, sem ég hefði getað sagt ef þessi Helgi hefði ekki verið á undan mér. Ég hefði t.d. getað sagt frá því þegar ég fór ríðandi ásamt Fáksfólki hringinn í kringum Tindfjallajökul. Það var um Verslunarmannahelgina 1993. Við lögðum af stað frá Ey í Vestur-Landeyjum, riðum hjá Stóra-Dímon um Markarfljótsaurar og síðan framhjá Eyvindarmúla.
Í landi Eyvindarmúla er Hólmfríðargata, en hún heitir svo í höfuðið á Hólmfríði hinni ríku, sem uppi var á 16. öld. Hún átti sér einkakapellu í Árkvörn og liggur gatan þangað. Enn búa niðjar Hólmfríðar í Eyvindarmúla og eru þeir Jón og Binni afkomendur hennar. Geta má þess að Eyvindarmúli var eitt af höfuðbólum Oddaverja á Sturlungaöld. Einnig hitt að fyrir ofan bæinn þar var það sem Fjalla-Eyvindur steypti undan hrafni, en það var að sögn talið upphafið að ógæfuferli hans. Hann var haldinn þeirri áráttu að geta ekki látið kjurrt liggja eigur annarra.
Fallegt var að sjá yfir í Þórsmörkina þegar við riðum inn Fljótshlíðina framhjá Fljótsdal og yfir Gilsá í Einhyrning.
Í Chorographica Islandica rituð af Árna Magnússyni í byrjun 18. aldar segir: “Flosavegur upp úr Þórmörk liggur milli Eyjafjallajökuls og Tindafjallajökuls. Mér er sagt, hann sé ennú við lýði, en sé vondur og erfiður.”Ætli Flosi á Svínafelli og menn hans hafi ekki farið Flosaveg þegar þeir fóru til Njálsbrennu að Bergþórshvoli?
Í Njáls sögu segir að Flosi og menn hans hafi lagt af stað frá Svínafelli á sunnudagsmorgni og voru komnir á Þríhyrningshálsa fyrir klukkan níu á mánudagskvöldi. Fyrst riðu þeir um Skeiðarársand og yfir Núpsvötn hjá Lómagnúpi. Svo að Kirkjubæjarklaustri. Þar fóru þeir til kirkju og báðust fyrir.
Síðan riðu þeir á fjall og til Fiskivatna og þaðan vestur yfir Mælifellssand. Svo niður í Goðaland og yfir Markarfljót á vaði. Hver þeirra var með tvo til reiðar. Þeir eru með öðrum orðum um einn og hálfan sólarhring á leiðinni. Það væri gaman að mæla þetta á korti því að úr Skaftártungu um Mælifellssand og hjá Króki og Hungurfitjum að Rauðnefsstöðum var talinn 20 tíma lestargangur. Þetta hefur því verið vel af sér vikið, en sjálfsagt hafa þeir haldið áfram nánast í strikklotu, gengið eitthvað til að hvíla menn og hesta og jafnvel sofið á hestbaki. Þess má geta til samanburðar að vegalengdin frá Hvolsvelli í Skaftafell er um 220 km.
Kunningi minn einn úr hestamennsku segir mér, að þegar hann var og hét hafi hann haft þann háttinn á í hestaferðum einmitt að sofa á hestbaki, svo að hann gæti tekið þátt í gleðskapnum þeim mun hressilegar fram eftir nóttu. Þetta var í þá daga þegar það þótti fínt að vera drukkinn á hestbaki og menn álitnir einhvers konar skoffín ef þeir voru það ekki. Ég man þegar ég var strákur að vingsast um á hestamannamótum þá sá ég iðulega hesta stökkva til hliðar eða fara krossgang undir dauðadrukkinn eiganda sinn, væri hann farinn að hallast um of. Hestar með þessa eðliskosti voru eftirsóttir.
Sumir vilja meina að Flosi hafi farið hjá Króki og um Hungurfit og komið niður hjá Rauðnefsstöðum. Þaðan hafi hann svo farið á Þríhyrningshálsa. Rétt er að algengast var að koma af Fjallabaksleið-syðri hjá Rauðnefsstöðum, en samt held ég að hann hafi farið Flosaveg niður í Þórsmörk þó að þar sé torsótt leið.
Ég veit að Binni í Eyvindarmúla fór fyrir nokkrum árum ríðandi með hóp af útlendingum niður í Þórsmörk og úr því að Binna tókst það, þá treysti ég alveg Flosa á Svínafelli til þess að hafa gert það.
Á einum stað í Njáls sögu segir frá því er Kári dvelur hjá Birni í Mörk í Þórsmörk. Þar segir: “Þar var Kári nakkvara stund á laun, ok var þat á fára manna viti. Ætluðu menn nú at hann myndi riðinn norðr um land á fund Guðmundar ríka; því að Kári lét Björn þat segja nábúum sínum, at hann hefði fundit Kára á förnum vegi og riði hann þaðan upp í Goðaland ok svá norðr á Gásasand (Sprengisand) ok svá til Guðmundar ríka á Möðruvöllu. Spurðist það þá um allar sveitir.”
Hér má geta þess að á Einhyrningsflötum undir Einhyrningi stóð bær Sighvats hins rauða. Þar hét Bólstaður segir í Landnámu. Þarna er Sveinn Pálsson á ferð þann 2. sept. 1793. Hann segir svo í Ferðabók sinni: “Um miðjan dag 2. sept. lögðum við upp frá Hlíðarenda og héldum inn Fljótshlíðina, því að við ætluðum að fara Fjallabaksveg, sem Skaftfellingar kalla Norðurveg, yfir í Skaftatungu, í því skyni fyrst og fremst að athuga hina merkilegu hveri í Torfajökli. Leiðin lá yfir litla á, Gilsá, og fram með Markarfljóti að vestan."

Frá Einhyrningi í Hungurfit

Þetta var útúrdúr en daginn eftir riðum við Fáksfólkið svo með viðkomu hjá leitarmannakofanum að Mosum handan við Markarfljótsbrúna og aftur til baka yfir brúna og um Þverárbotna að leitarmannakofanum í Króki, en þar mætir áin Hvítmaga Markarfljóti. Hvítmaga kemur upp norðan við Hungurskarð og rennur á afréttarmörkum Fljótshlíðinga og Rangvellinga. Þaðan riðum við svo um Reiðskarð í Hungurfit sem er grösug vin vestan við Tindfjallajökul. Þar sváfu sumir í leitarmannakofanum en aðrir í tjöldum. Leiðina úr Hungurfitjum að Króki hef ég heyrt nefnda Króksleið.
Í sóknalýsingu (1839-1873) segir: “Vöð (á Markarfljóti) eru tvö á afréttinum, sem heita á Launfit og Króknum.”
Þess má geta að fyrir norðan Tindfjallajökul heitir á einum stað Bjarnavegur eftir Bjarna nokkrum Eiríkssyni. Á þetta minnist Árni Magnússon í Chorographica Islandica.


Frá Hungurfit að Fossi
Næsta dag riðum við um Hungurskarð og á vaði yfir Eystri-Rangá og að Hafrafelli og síðan að Fossi, gömlu eyðibýli efst á Rangárvöllunum. Þegar við vorum að koma um Dalöldur og niður í Lambadal var það sem Dísu Morthens fannst hún rétt sem snöggvast vera orðin 17 ára gömul aftur af því það var svo gaman og veðrið frábært.
Úr því ég minnist á Dísu Morthens langar mig að skjóta því hér inn í, að hún hefur tekið vídeómyndir í mörgum hestaferðum Fáks m.a. Jónsmessuferðum. Einhver þyrfti að aðstoða hana við að skeyta þessu saman og fjölfalda. Ég hef oft fylgst með henni út undan mér í hestaferðum og séð, að hún var óþreytandi að stökkva upp á hóla og hæðir hjá áningarstöðum til að ná sem bestum skotum. Það væri skaði ef þessar videómyndir lentu í glatkistunni.
Nema hvað þennan dag vorum við Leifur símamaður og fleiri í eftirreiðinni og eltum reksturinn nokkuð í blindni, en sáum ekki til forreiðarinnar. Hún var í traustum höndum þeirra Viðars Halldórssonar, fararstjóra og Guðbrandar Kjartanssonar, læknis, sem höfðu þaulkannað leiðina áður en lagt var af stað. Við vorum því með öllu áhyggjulausir.
Þegar við komum að eyðibýlinu Fossi stansaði reksturinn af sjálfu sér enda nokkuð grösugt þar, en forreiðina sáum við hvergi. Seinna kom í ljós að hún hafði áð á leiðinni en í hvarfi á bak við hól, en enginn hugað að því að standa fyrir rekstrinum Ef reksturinn hefði ekki stansað sjálfkrafa hjá Fossi hefði hann fullt eins getað teymt okkur alla leið niður á Hvolsvöll eða guð má vita hvert, því að enginn var til að hafa hemil á honum. Það var þetta kvöld sem Leifur símamaður sagði við Viðar: “Ég er nú ekki vanur í svona hestaferðum,” sagði hann, “en segðu mér eitt, er það algengt að eftirreiðin komi langt á undan forreiðinni í mark?” Þegar fast er skotið verður fátt um svör.

Frá Fossi að Hellu
Síðasta daginn riðum við niður með Eystri-Rangá að austanverðu með viðkomu hjá eyðibýlinu Reynifelli og yfir ánna á Hofsvaði, sem er rétt fyrir norðan Stóra-Hof. Síðan hjá Gunnarsholti og þaðan svo vildisgötur sendnar og mjúkar að Hellu. Það var þá sem brúni klárinn minn óð áfram á hraðatölti og ég man enn sælutilfinninguna, sem hríslaðist upp eftir mjóhryggnum á mér. Á þessu augnabliki fyrirgaf ég honum endanlega öll þau skipti, sem hann hafði látið mig eltast við sig ljónstyggur í haga.
Á Hellu lauk svo ferðinni og voru hestarnir fluttir á bíl í bæinn. Til hafði staðið að fara ríðandi alla leið í bæinn og var ég búinn að sammælast við hjón og kunningja minn um að við yrðum samferða. Ég þurfti hins vegar að fara til Reykjavíkur í einn dag að stússast í bönkum. Síðustu nóttina dreymdi konuna hins vegar 4 hvíta svani, en drauminn lagði hún út á þann veg, að gott veður yrði næstu fjóra daga. Hún treysti sér ekki til að bíða þennan eina dag, svo sterkt orkaði draumurinn á hana.
Hjá Stóra-Hofi fórum við en þar var á árunum 1904-1907 sýslumannssetur og sat Einar skáld Benediktsson þar. Lengi hef ég haft það á tilfinningunni, að þegar Einar orti kvæðið Fákar hafi hann haft Rangárvellina í huga.

Í morgunljómann er lagt af stað.
Allt logar af dýrð, svo vítt sem er séð.
Sléttan, hún opnast sem óskrifað blað,
þar akur ei blettar, þar skyggir ei tréð.
Menn og hestar á hásumardegi
í hóp á þráðbeinum, skínadi vegi
Með nesti við bogann og bikar með.
Betra á dauðlegi heimurinn eigi.

Og svo:

Maður og hestur, þeir eru eitt
fyrir utan hinn skammsýna, markaða baug.
Þar finnst, hvernig æðum alls fjörs er veitt
úr farvegi einum, frá sömu taug.
Þeir eru báðir með eilífum sálum,
þó andann þeir lofi á tveimur málum,
og saman þeir teyga í loftsins laug
lífdrykk af morgunsins gullroðnu skálum.

Ég hef einhvers staðar lesið, að Einar hafi fyrst farið með þetta ljóð uppi á Mosfellsheiði hjá Háamel í laut við gamla Þingvallaveginn í útreiðatúr með Einari í Miðdal og konunum þeirra Valgerði Benediktsson og Valgerði Jónsdóttur. Ætli það hafi ekki verið sumarið 1910 þremur árum eftir að hann fór frá Stóra-Hofi.
Og yfir að Keldum sáum við, þegar við riðum hjá en um leið þaðan og á Fjallabaksleið syðri segir í sóknalýsingu yfir Keldnasókn gerð af séra Jóhanni Björnssyni fyrir miðja 19. öld: “Frá Keldum austur hjá Fossi, inn Lambadal, liggur vegur yfir fjöllin kallaður “á fjallabaki” austur í Skaftártungur, helst farinn af Skaftártungumönnum til kaupstaðar á Eyrarbakka eða á Suðurland, aldrei farinn á vetrardag, telst fullar 2 þingmannaleiðir milli byggða. Áfangastaður Grashagi hjá Torfatindi. Á Rangárvöllum er Foss og Rauðnefsstaðir næstu bæir þessum fjallvegi, en í Skaftártungu Fljótastaðir.”
Reynifell, Þorleifsstaðir og Rauðnefsstaðir stóðu í svonefndum Krók fyrir austan Eystri-Rangá. Í landi Þorleifsstaða við Fiská er hellir klappaður í móberg af fornmönnum og tók hann 100 fjár að sögn. Rauðnefsstaðir og Þorleifsstaðir fóru í eyði árið 1947 vegna vikurfalls úr Heklu, en frá Þorleifsstöðum var venjan að leggja af stað á Fjallabaksleið syðri, öðru nafni Miðvegur eða Norðurvegur.
Í sóknalýsingu er þess getið að “öngvar íþróttir svo teljandi sé” hafi verið stundaðar í Keldnasókn. Þar sem lífsbaráttan er hörð þurfa menn ekki mikið á hástökki að halda né kúluvarpi. Nokkuð hóstaði fólk í sókninni og sumir voru talsvert kvefaðir, en bót í máli að læknir var í Oddasókn og blóðtökumaður.

Ferð frá Reykjavík að Eyvindarmúla
Ég hefði líka getað sagt frá því þegar við Valdimar kvótabani fórum ríðandi yfir Reynifellsvað á Eystri Rangá, en það er rétt fyrir neðan Reynifellsfoss og hjá eyðibýlinu Reynifelli. Þar áðum við og ég man enn hvað klárarnir voru skínandi fallegir, þar sem þeir tóku niður í grængresinu, brúnn og jarpur, vindóttur og höttóttur og gott ef Valdimar var ekki líka með rauða hestinn, sem hann keypti af Dúdda í Arnþórsholti, útökuhross. Dúddi var inn á milli með ágæta hesta út af Vilmundarstaðakyninu.
Ég hef þá sýn að þegar heimurinn verður búinn að fá nóg af tölvuaðlinum og verðbréfabraski þá setjist einhver þarna að á Reynifelli og stundi sjálfsþurftarbúskap. Ein belja, fáeinar kindur, kálgarður, kerling og krakkaormar. Meira þarf ekki nema kannski þrasgjarnan nágranna til að pexa við, hressandi litla heimsstyrjöld í hlaðvarpanum til að sofna ekki alveg út af.
En síðan riðum við Valdimar yfir Hraunin sem kallað er og fyrir austan Þríhyrning að Eyvindarmúla í Fljótshlíð. Þetta var í júlí 1989. Við höfðum komið ríðandi úr Mosfellssveit ásamt Stjána Mikk og Guðnýju í Flekkudal. Úr Mosfellssveit lögðum við af stað á föstudegi og riðum í Skógarhóla á Þingvöllum, Stardalsleið.
Á laugardeginum riðum við frá Skógarhólum hjá eyðibýlinu Skógarkoti og yfir Hrafnagjá um Gjábakkastíg. Þegar við komum út fyrir Þjóðgarðsgirðinguna tókum við stefnu skáhalt í Kringlumýri svona einhvern veginn eins og okkur fannst þægilegast. Úr Kringlumýri fórum við svo Biskupagötur að veginum, sem liggur að Laugarvatni. Að Laugarvatni riðum við meðfram vegi. Við gistum á Eddu-hótelinu á Laugarvatni.
Þess má geta að nú er búið að stika slitrótta, gamla leið frá hliðinu á Þjóðgarðsgirðingunni og í Kringlumýri. Þetta er þarft framtak og liður í því að endurvekja gamlar götur. Þessi leið er teiknuð inn á gömul herforingjaráðskort í mælikvarðanum 1 á móti 100000 og þarna er því gömul þjóðleið.
Á sunnudeginum skildu leiðir. Stjáni Mikk og Guðný riðu aftur heim til sín í Flekkudal í Kjós, en við Valdimar héldum áfram för austur í Eyvindarmúla. Við ætluðum Biskupagötur hjá Mosfelli og þar sem við riðum meðfram veginum frá Laugarvatni ók fram á okkur prestur og konan hans. Presturinn hvatti okkur eindregið til að koma við í Skálholti og fá okkur kaffisopa. Á leiðinni um Biskupagötur álpuðumst við út í einhver fúafen og urðum forugir upp fyrir haus og eiginlega ekki sjón að sjá okkur.
Við vissum að eitthvað mikið stóð til í Skálholti, en ekki nákvæmlega hvað það var. Nema hvað þegar við riðum í hlað, þá taka kirkjuklukkurnar að hringja og út úr kirkjunni koma í fararbroddi biskupar og vígslubiskupar, útlendur biskup og guð má vita hvað. Á eftir gengu svo svartklæddir prestar í halarófu. Við Valdimar vorum ný stignir af baki og gátum ílla forðað okkur úr augsýn verkaðir eins og við vorum.
Þarna stóðum við og Valdimar hélt í sína þrjá hesta, en ég í mína tvo á meðan prósessían leið hjá rétt við nefið á okkur. Ég kannaðist við nokkur andlit, en enginn gerði sig líklegan til að heilsa okkur nema séra Gunnar Kristjánsson, prestur á Reynivöllum í Kjós. Það mátti hann eiga. Hann nikkaði til okkar en afar dræmt. Það var hann sem hafði hvatt okkur til að koma við í Skálholti að fá okkur kaffisopa, en það var áður en við lentum í fúafenunum. Allt fór þetta samt á besta veg og það var randaterta með kaffinu og pönnukökur og líka kleinur. Ég held ég muni það örugglega rétt, að það hafi líka verið kleinur.
Að þessu hátíðarkaffi loknu héldum við svo áfram för yfir Iðubrú og riðum niður Þjórsárbakkanna. Við geymdum hestana í Þjórsártúni og húkkuðum bíl austur á Hvolsvöll þar sem við gistum um nóttina. Næsta dag riðum við síðan meðfram vegi austur að Hellu og upp hjá Gunnarsholti og Keldum og yfir Eystri-Rangá á Reynifellsvaði og svo yfir Hraunin eins og fyrr segir.
Frá Keldum munu hafa legið leiðir um Tunguvað á Eystri-Rangá framhjá Hestaþingshól og hjá Völlum en fyrir vestan Völl voru um aldamótin 1900 taldar 70 samliggjandi gamlar götur, segir í bók Helga Þorlákssonar. Frá Keldum lá einnig leið um Þorgeirsvað eða Reynifellsvað suður fyrir Þríhyrning að Vatnsdal. Þorgeirsvað þótti nokkuð grýtt og íllt yfirferðar.
Keldur voru eitt af höfuðbólum Oddaverja og eyddi Jón Loftsson þar seinustu æviárum sínum. Keldnaskálinn er talinn vera frá hans dögum og byggði Jón kirkju á staðnum og klausturhús. Ingjaldur Höskuldsson, sem ætlaði að veita Flosa á Svínafelli fulltingi sitt í aðförinni að Njáli á Bergþórshvoli en hætti við, bjó á Keldum.

Allir komu óvinir Njáls,
nema Ingjaldur frá Keldum.

Eins og þar stendur.

Í bók sinni lýsir Helgi hvernig völd Oddaverja jukust vegna þess, að þeir komust yfir jarðir sem lágu vel við samgöngum, voru vel í sveit sett. Hann nefnir í því sambandi m.a. Odda á Rangárvöllum, Keldur og Skarð í Landssveit. Auður og völd söfnuðust þangað vegna legu jarðanna. Til þess að halda völdum þurfa menn að fá réttar upplýsingar og þessar upplýsingar bárust með gesti og gangandi um alfaraleið. Á upplýsingaöld ætti það ekki að koma neinum á óvart að lipurt upplýsingaflæði styrkir völd.
Þegar við Valdimar fórum frá Laugarvatni hafði ég lofað að hlíta í einu og öllu leiðsögn hans og forustu. Hann lagði sérstaka áherslu á að ég færi aldrei fram úr sér, kvað fararstjóra í hestaferð geta ruglast í ríminu ef stöðugt er verið að fara fram úr honum, geti þá hæglega tapað slóðinni. Mér fannst eðlilegt að virða þessa ósk hans nema hvað útsýnið þarna uppi á Hraununum var frábært þegar austar dró. Við sáum Eyjafjallajökul og Stóra-Dímon og út yfir Markarfljótsaurarnar. Andartak gleymdi ég mér og fór eins og múllinn er breiður fram úr Valdimar. Þá snarstansaði hann hest sinn og leit á mig hreint ekki vingjarnlegu augnaráði.
“Nú, það er bara svona,” sagði hann, “ætlar að hrifsa völdin hér.” Ég fullvissaði hann um að það hefði alls ekki verið ásetningur minn, veðrið væri bara svo gott og útsýnið eftir því. Ég hefði einfaldlega gleymt mér. Hann lét orð mín sem vind um eyrun þjóta.
“Nei, nei það er allt í lagi,” hélt hann áfram. “Ef þú treystir þér til að vera leiðtogi í þessari hestaferð þá er það mér að meinalausu.” Þegar ég heyrði orðið leiðtogi lyppaðist ég algjörlega niður. Ef það er eitt sem ég vil alls ekki vera þá er það leiðtogi. Ég lét mig því dragast það langt aftur úr, að Valdimar gat ekki dulist undirgefni mín, en samt ekki það langt að það liti út eins og ég væri í fýlu. Að Eyvindarmúla komumst við svo áfallalaust, Valdimar á undan og ég á eftir. Eftir tvo kaffibolla var mér aftur farið að finnast Eyjafjallajökull fallegur.
Um leiðir á þessum slóðum segir í sóknalýsingu frá árinu 1844 gerð af séra Stefáni Hanssyni, en hann var prestur í Fljótshlíðarþingum 1842-1855 og bjó að Valstrýtu. Hann segir um alfaravegi: “Eftir endilangri Hlíðinni niður undir Þverá og yfir svokallaða Þríhyrningshálsa beggja megin við Þríhyrning.”

Frá Eyvindarmúla til Reykjavíkur
Þessu hefði ég öllu getað sagt frá ef Helgi hefði ekki skrifað þessa bók. Ég hefði líka getað sagt frá því þegar við Valdimar komum frá Eyvindarmúla og misstum jarpa klárinn minn í stóð uppi á Hraununum. Við náðum honum ekki fyrr en okkur hafði tekist að reka stóðið ofan fjallið og í aðhald. Þá vorum við búnir að reyna öll önnur ráð m.a. að skríða á fjórum fótum í áttina að honum. Valdimar kvað gamalreyndan hestamann hafa kennt sér þetta að skríða á fjórum fótum að styggum hestum. Ég hef aldrei verið mikið gefin fyrir að skríða á fjórum fótum langar leiðir og var heldur farið að leiðast þófið. Samt var veðrið ágætt og við vorum með nesti og kaffi og ekkert amaði að nema hvað við náðum ekki jarpa klárnum og án hans yrði ekkert framhald á ferðalaginu. Við reyndum líka að gefa honum af nestinu okkar, smurt brauð með skinku og rækjusalati og Prince Polo. Hann var á sjötta vetri sá jarpi út af Skugga frá Bjarnanesi og nokkuð sjálfráður að mér fannst.
Áfram hélt ferðalagið og við fengum að geyma hestana yfir nótt í Gunnarsholti, en næsta dag fórum við Heklubraut framhjá Koti og að Svínhaga. Þar fengum við kaffi og pönnukökur en á eftir leiðbeindi dóttir bóndans þar okkur um vaðið á Ytri-Rangá yfir í Réttarnes. Ekki er sama hvernig farið er í vaðið þarna.
Í sóknalýsingu stendur að hjá Svínhagalæk utan við bæinn Svínhaga séu þrjár laugar nýmjólkurvolgar 25-30 stiga heitar. Í læknum er hólmi og þar eru grafin systkin, sem tekin voru af lífi. Ekki má beita eggjárni á gróður í hólmanum.
Um leiðina frá Svínhaga að Keldum segir í sóknalýsingu yfir Keldnasókn frá því um miðja 19. öld. “Yfir Rangá hina ytri hjá Svínhaga austur yfir Krókahraun að Koti, þaðan að Dagverðarnesi og suður hjá Knafahólum hjá Keldum.” Yfir Krókahraun frá Svínhaga að Koti var sagður vel ruddur vegur með vörðum. Eins yfir Keldnahraun frá Knafahólum suður að Keldum. Þarna heitir Kotvegur.
Dapurlegt er að sjá þarna víða rofhnausana og uppblástur allan, en huggun harmi gegn er að í Gunnarsholti hafa um árabil starfað atgervismenn komnir út af Sveini Pálssyni þeim er samdi Ferðabókina. Þeir hafa unnið að uppgræðslu lands víða þarna. Það var einmitt frá Gunnarsholti sem ég reið í fyrsta skipti um Rangárvellina í fylgd með Sveinbirni heitnum Benediktssyni starfsmanni í Gunnarsholti systursyni þeirra Runólfs og Páls fyrrum sandgræðslustjóra. Það er ógleymanlegur dagur og þá opnaðist sléttan svo sannarlega sem óskrifað blað. Sveinbjörn átti m.a. stólpahest leirljósan að mig minnir og léttbyggða meri jarpa. Hann var slíkt ljúfmenni, að maður fór ósjálfrátt að tala í hálfum hljóðum í návist hans.
Nema hvað við Valdimar riðum gamlar götur að Skarði í Landssveit. Það var þá sem allir hestarnir hans Valdimars urðu ýmist haltir eða uppgefnir og ég varð að ríða einn frá Skarði og til Reykjavíkur. Ef það hefði verið einhver dugur í okkur hefðum við haldið áfram saman daginn eftir og farið yfir Þjórsá á Nautavaði, en það vað fundu strokunaut Páls Jónassonar biskups í Skálholti (1155-1211). Ýmsir hallast að því að Nautavað sé sama og Holtsvað, sem nefnt er í Njálu.
Um Nautavað segir í sóknalýsingu yfir Landþing gerð af séra Jóni Torfasyni árið 1841: “Engir stórfossar eru í ánni utan ef nefna skyldi Búða,” og svo: “Nefndur foss er skammt utar en Nautavað, sem er það helzta vað á ánni, og er þar mikil yfirferð.” Önnur vöð á þjórsá voru Sóleyjarhöfðavað á Sprengisandsleið, Gaukshöfðavað og Hagavað. Lögferjur komu snemma á ánna enda þessi vöð oft ófær. Aðeins fyrir ofan Nautavað er Hrosshylur. Þar var bátur hafður en ekki talinn álitlegur ferjustaður vegna stórgrýtis og straumþunga í ánni. Í Íslenskir sjávarhættir eftir Lúðvík Kristjánsson er mjög greinargóð lýsing á skreiðarkaupaleiðum. Þar segir hann að skreiðarmenn að austan hafi mest farið yfir Þjórsá á Sandhólaferju, en sumir notuðu ferjuna í Selparti sem var neðar og kallað að fara á Pörtunum.
En áfram með ferðalagið. Frá Skarði reið ég nokkrum dögum seinna einn um mjúkar götur meðfram vegi niður að Landvegamótum og síðan áfram til Guðmundu í Lækjartúni þar sem ég fékk að geyma hestana yfir nótt, en Lækjartún er næsti bær við Kálfholt skammt frá Þjórsárbrú. Þaðan er hægt að ríða framhjá Kálfholtskirkju og síðan skurðarbakka og að eyðibýlinu Sauðholti og svo brautina meðfram Þjórsá að Steinslæk. Yfir Steinslæk á Prestsvaði og að Sandhólaferju. Þarna eru víða graslitlir harðbalar góðir undir fót.
Frá Sandhólaferju er stutt að Hala í Háfshverfi en þar býr Jón Karlsson. Hann datt í þann lukkupott að eiganst stóðhestinn Þokka frá Garði þann genabanka, nema hvað í hrossarækt er ekkert til sem heitir lukkupottur. Þar gildir lögmálið líkt og annars staðar 90% vinna, 5% hæfileikar og 5% heppni.
Næsta dag reið ég í Hveragerði og Aage Michelsen leyfði mér að stinga hestum inn hjá sér í hesthús sem hann á syðst í þorpinu. Þriðja daginn reið ég svo gamla veginn upp Kamba þar sem nefnt hefur verið vegaminjasafn þjóðarinnar og Hellisheiðina og hjá Kolviðarhóli og síðan Hólmsheiðina og hjá Reynisvatni á Blikastaði í Mosfellssveit.

Frá Leirubakka að Keldum
Eins hefði ég getað sagt frá því þegar við Valdimar komum einu sinni frá Leirubakka í Landssveit og fórum yfir Ytri-Rangá á Dýjafitjarvaði. Síðan Heklubraut að eyðibýlinu Koti og Kotveg framhjá Knafahólum að Keldum. Hjá Knafahólum eru sagðar hafa verið krossgötur hér fyrr meir og byggð þar allt í kring. Í Njáls sögu segir frá því að við Knafahóla hafi Starkaður Barkarson og Sigurður svínhöfði lagt á ráðin um að sitja fyrir Gunnari á Hlíðarenda, Kolskeggi og Hirti Hámundarsyni.
Dýjafitjarvað var nokkuð djúpreitt þennan dag og Valdimar ávítaði mig fyrir að fara of fljótt á eftir sér út í ánna. Ég átti að bíða þangað til hann var kominn heilu og höldnu yfir. Hefði hann losnað frá hestinum átti það að vera mitt hlutverk að fiska hann upp úr ánni neðar, nema hvað ég hef aldrei fiskað neinn mann upp úr á. Ég hef veitt fjórtán punda lax í Holunni í Laxá í Kjós, en Valdimar vóg þá ekki minna en 90 kg í öllum fötum og talsvert meira í blautum fötum. Hefði hann ekki getað bjargað sér sjálfur hefði hann drukknað og dagurinn ónýtur. Hann kvað þetta algjört grundvallaraðtriði í hestaferðum.

Frá Hunkubakka Fjallabaksleið syðri að Eyvindarmúla
Ég hefði líka getað sagt frá því þegar ég fór ásamt Binna í Eyvindarmúla og nokkrum útlendingum frá Hunkubakka bær skammt fyrir vestan Kirkjubæjarklaustur og Fjallabaksleið syðri. Við gistum í Lambaskarðshólum eða Hólaskjóli eins og líka heitir. Síðan aftur skammt frá Hvanngili við Álftavatn. Friðsælt var við vatnið með Torafatind að norðan og Brattháls að sunnan. Ekki hefur verið jafn friðsælt þarna síðsumars 1838 þegar Benedikt Erlingsson bóndi í Fljótsdal í Fljótshlíð fékk þá flugu í höfuðið að sundríða uppi álft, en drukknaði.
Svo gistum við í Einhyrningi en síðasta daginn riðum við í Eyvindarmúla. Það var í þessari ferð sem ég ofreyndi mig við að skemmta sænskum kerlingum og fékk gubbupest. Allan Mælifellssandinn ældi ég öðru megin út af hestinum á milli þess sem ég reyndi að vera skemmtilegur við kerlingarnar á hina hliðina. Sumir eiga alveg að láta það eiga sig að reyna að vera skemmtilegir.
Á Mæilfellssandi urðu haustið 1868 úti við Slysaöldu á fjórir Skaftfellingar. Bein þeirra fundust ekki fyrr en 10 árum seinna. Ég ætla ekki að rekja þá sögu hér en um þennan sorgaratburð má lesa í Árbók Ferðafélags Íslands frá árinu 1976.
Þetta var ágæt ferð og við riðum upp á Mýrdalsjökul að vísu ekki nema svona tíu metra en samt upp á jökulinn. Ég var með brúna klárinn minn undan Sörla gamla frá Sauðárkróki og þann jarpa frá Ásgeiri á Svínhólum í Lóni, sem ég keypti af Björgu og Svenna. Þeir reyndust báðir ágætlega.
Fjallabaksleið syðri er lýst svo í sóknarlýsingu frá 1839-1873: “Þegar vegur þessi er farinn er hann tekinn við Ægissíðuvað á Rangá hinni ytri og liggur þá fyrir ofan garð á Kirkjubæ og þaðan fyrir norðan tún á Keldum, svo upp hjá Árbæ og inn í Lambadal, úr honum í gegnum Hungurskarð við Tindfjallajökul, svo yfir Markarfljót á Launfit í Grashaga, úr honum í gegnum Kaldaklof og er þá komið á Mælifellssand. Austur hjá Mælifelli er farið austur beint að Hólmsá. Frá henni liggur gata er Bjarnagata heitir ofan að Búlandsseli.” Þær eru hnitmiðaðar þessar gömlu sóknarlýsingar og ekki er útflúrið í stílnum.

Á Landsmóti á Hellu 1986
Eins hefði ég getað sagt frá því þegar Sigurður Haraldsson í Kirkjubæ reið með hóp manna um Rangárvelli á Landsmótinu 1986. Það var þá sem jarpí klárinn hans Ragnars heitins Thorvaldsen opnaði sig á hraðatölti og Ragnar varð á svipinn eins og hann væri bergnuminn. Hann hafði verið með hann í Efri-Fáki um veturinn og þjálfað hann á hröðu brokki og hægu tölti, en hraðatöltið lét á sér standa. Nú kom það og það svo um munaði. Ragnar átti alltaf góða hesta og kunni að laða fram það besta í þeim. Aldrei sá ég klepra á lærunum á hans hestum. Þeir voru kembdir fram í tá.
“Eitt skaltu muna,” sagði hann eitt sinn við mig, “þú skalt spretta af þegar best lætur.” Eftir hraðatöltið þarna á Rangárvöllunum skammt frá Kirkjubæ lagði hann á annan jarpan klár sem hann átti. Ég man enn hvað mér fannst hárið á Ragnari ungt þetta kvöld, alveg eins og forðum daga þegar hann lét sig svífa fram af skíðastökkpallinum á Kolviðarhóli.

Frá Miðhúsum að Úthlíð í Biskupstungum
Ekki hef ég heldur minnst hér á ferðina sem ég fór með Valdimar og Margréti konunni hans frá Miðhúsum bær rétt hjá Hvolsvelli. Við vorum með tvo bíla og byrjuðum hvern dag á því að aka öðrum bílnum þangað sem við vorum að fara. Síðan ókum við til baka á hinum bílnum þangað sem hestarnir biðu. Þegar við komum í náttstað fórum við á bílnum sem við höfðum farið með um morguninn að sækja bílinn sem við höfðum skilið eftir.
Þetta bílarallý stóð í fimm daga milli þess sem við riðum hestunum okkar. Ég er viss um að samtals höfum við ekið eins og hringvegurinn er langur eða tvisvar sinnum það og þó vorum við bara að fara austan úr Fljótshlíð og til Reykjavíkur. Miklu einfaldara hefði verið að ríða á milli bændagistinga bíllaus. Nokkrum dögum eftir að við komum úr ferðinni spurði ég Valdimar út í þennan ferðamáta þetta að vera með tvo bíla, hvort ég myndi það ekki rétt að afi hans Valdimar Erlendsson hefði farið ríðandi norðan úr Þingeyjarsýslu á níu dögum einhesta og bíllaus. “Þú skilur þetta ekki,” sagði hann, “við urðum að vera með þessa tvo bíla svo að Magga gæti haft snyrtidótið sitt meðferðis.” Nútíminn er skrítinn í laginu.
Fleiri vandamál voru í þessari ferð. Þau hjónin voru í megrun og höfðu lítinn áhuga á mat, en matur hefur mér alltaf fundist nauðsynlegur í hestaferðum. Á stöku stað gat ég skotist inn í sjoppu og fengið mér pylsu og kókakóla. Líka gat ég farið í berjamó af og til, en pylsur og krækiber standa ekki lengi við. Ég hef vanist kjarngóðum mat.
En svo ég haldi áfram með ferðina þá riðum við fyrsta daginn að Þjórsártúni.
Annan daginn riðum við Þjórsárbakkana og yfir Iðubrú, framhjá Skálholti og yfir Brúará að Seli í Grímsnesi.
Þriðja daginn riðum við um Reykjabraut og að Efstadal og þaðan Kóngsveg að Miðhúsum í Biskupstungum, en gistum í húsvagni í Úthlíð. Það var þá sem ég barði í borðið og heimtaði að við færum austur að Geysi og fengjum okkur ærlega máltíð. Þar sprungu þau rækilega á megrunarkúrnum enda súpan einstök, laxinn frábær og ís á eftir og dúndur kaffisopi. Með matnum var ekta kók, engin diet-vitleysa. Það var líka eins gott því að næsti dagur reyndist strembinn.

Frá Úthlíð Hellisskarðsleið um Þingvöll í Mosfellssveit
Þann dag riðum við hjá Miðfelli og um Hellisskarð að Hlöðuvöllum. Þaðan svo að Karli og Kerlingu undir Skjaldbreið. Svo Eyfirðingaveg um Goðaskarð og í Skógarhóla. Þá var enn uppistandandi girðingin á Rótarsandi sem nefnd hefur verið Lönguvitleysa. Enginn vissi hvar hún byrjaði og hún endaði guð má vita hvar. Það vissi heldur enginn lengur til hvers hún hafði verið sett upp en það var hlið á henni og erfitt að finna þetta hlið.
Fimmta daginn riðum við síðan yfir Öxará á Norðlingavaði hjá Brúsastöðum og Kjósarheiði, Einiberjaflöt, Selkot og fyrir norðan Stíflisdalsvatn og Þrengslaleið niður með Laxá í Kjós. Á móts við Svínaskarð skyldu leiðir. Þau ætluðu með sína hesta að Reynivöllum í Kjós, en ég reið einn um Svínaskarð að Blikastöðum í Mosfellssveit.
Við Valdimar fórum í mörg ár í sumarferðir saman á hestum. Aðeins einu sinni sauð virkilega upp úr og þá mun heiftarlegra en daginn sem við fórum yfir Hraunin. Við vorum staddir við Háafell í Skorradal og höfðum daginn áður riðið yfir Svínaskarð að Reynivöllum í Kjós. Þar fengum við að geyma hestana yfir nóttina. Næsta dag fórum við svo Kirkjustíg yfir Reynivallaháls og að Fossá, en síðan þaðan meðfram vegi inn í Hvalfjarðarbotn. Þaðan svo um Reiðskarð og Síldarmannagötur yfir að Fitjum í Skorradal.
En við vorum sem sagt staddir við Háafell og allt í einu heyri ég hróp og köll fyrir aftan mig og hófadynki. Þarna var þá kominn Valdimar, samferðamaður minn, sótrauður í framan og ég sem hélt að hann væri talsvert á undan mér.
“Hvert ertu eiginlega að æða?” öskraði hann, “sástu ekki að ég sveigði út af veginum hjá Háafelli?”
“Nei,” sagði ég. Ég hafði verið að skoða trén og fugla úti á vatninu og reyna að halda brúna klárnum mínum til á hægatölti, sem var engan veginn auðvelt vegna þess að ég var með höttótta klárinn hans Valdimars í taumi.
“Víst, sástu mig.”
”Nei,” sagði ég.
“Og víst.” Þetta magnaðist svo orð af orði þangað til ég henti taumnum á hóttótta klárnum í hann og sagðist vera farinn mína leið. Valdimar reið svo yfir hjá Háafelli en ég lét feta meðfram Skorradalsvatni. Á leiðinni var ég að hugsa hvar ég gæti fengið að geyma hestinn minn og síðan ætlaði ég að húkka bíl í bæinn.
En Skorradalsvatn er langt og smám saman rjátlaðist af mér reiðin. Ég sá að í stöðunni var engan veginn praktískt að vera langrækinn. Ég fór því yfir hálsinn um Mávahlíðarsneið og svo yfir Grímsá og að Arnþórsholti í Lundarreykjadal. Þar beið Valdimar hlæjandi úti á hlaði og Dúddi í Arnþórsholti stóð hjá honum.
Þetta var svo sem allt í lagi nema hvað Valdimar hafði komið við á Oddsstöðum og sagt sína hlið á rifrildinu og í hans útgáfu var allt mér að kenna. Svo var hann búinn að segja Dúdda söguna líka. Ég reyndi að malda í móinn en hann var búinn að koma sinni sögu rækilega á kreik. Verra er þó að í Borgarfirðinum skiptir enginn málsmetandi maður um skoðun nema á svona tuttugu ára fresti. Að skipta um skoðun þykir þar efra bera vott um ístöðuleysi. Ég er því enn þann dag í dag álitinn í þeirri sveit svo og svo mikill asni, en Valdimar aldeilis fínn pappír og maður fyrir sinn hatt. Valdimar starfaði lengi sem blaðamaður og vissi að það er þýðingarmikið að vera fyrstur með fréttirnar.
Á Oddsstöðum eru menn langminnugir. Ég heyrði Sigurð Odd Ragnarsson bónda þar segja frá því fyrir tveimur árum, að þar á bæ hefði fundist handrit frá því í byrjun Seinni heimsstyrjaldar eða í kringum 1940. Það er skrifað eigin hendi og er í senn verklýsing og verkefnaröðun. Efni þess er hvaða dag vikunnar hver snúningastrákur á bænum á að tæma koppana og hvenær hver á að fá helgarfrí. Ekki hefur enn fengist staðfest hverjum rithöndin á skjalinu tilheyrir.


Niðurlag
Nú er best að fara að slá botninn í þetta, en ég vil samt segja frá því að um daginn var ég staddur inni á Café París. Við næsta borð sátu tveir leikhúsmenn og voru að ræða um muninn á tragedíu og kómedíu. Þeir komust að þeirri niðurstöðu, að oft væri ekki ýkja mikill munur á þessu tvennu, nema hvað tragedía endar alltaf ílla en kómedía endar vel. Hestaferðir okkar Valdimars enduðu alltaf vel og það var gaman að vera með honum á fjöllum, enda er hann ósérhlífinn og úrræðagóður. Lærifaðir hans var Guðmundur heitinn klæðskeri, sem átti yfirleitt úrtökuhross þurrbyggð, rauð á lit flest hver út af Goða 401 frá Jóni svaða, sem Sveinn á Sauðárkróki eiganaðist seinna, en síðan þeir Björn leturgrafari og Guðmundur. Hann hafði verið dæmdur eineistungur en það reyndist rangt. Guðmundur klæðskeri kunni að ferðast upp á gamla mátan og enginn vogaði sér framúr honum alsgáður.
Mörgu fleiru hefði ég getað sagt frá nema hvað Helgi hafði skrifað þessa bók. Ég get svo sem endurtekið, að hún fjallar um fornar leiðir og völd Oddaverja í Rangárþingi. Að öðru leyti nenni ég ekki að ræða þessa bók. Ég ætti ekki annað eftir en að fara að segja ykkur hvað stendur í bók einhvers manns, sem ég þekki ekki einu sinni. Þið getið bara lesið hana sjálf. Það skyldi þó ekki vera að prófessorar við Háskólann geti sagt okkur í skúrnum í Neðri-Fáki ýmislegt um hesta og fornar reiðleiðir, sem við höfum ekki hugmynd um. Sumarferðir okkar verða örugglega skemmtilegri ef við vitum eitthvað í okkar haus. Við getum svo á móti sagt þeim í Háskólanum ýmislegt, sem þeir vita ekki um hesta. Svo vil ég hnykkja á því að það er ekki praktískt að fara í fýlu í miðri hestaferð og hinu að Guðmundur klæðskeri átti alltaf afbragðs ferðahesta.