Ég verð að byrja á því að segja að þetta var stórglæsileg sýning og greinilegt að mikið hefur verið í hana lagt. Ekki er verra að aðgangur var ókeypis. Mig langar einnig að biðjast velvirðingar fyrirfram ef ég skyldi birta rangar upplýsingar, rugla félögum og annað þess efnis. Hefði helst þurft að hafa sýningarskrá. ;)
Sýningin byrjaði á fánareið þar sem þar sem hvert þeirra hestamannafélaga sem þátt tóku höfðu þrjá fulltrúa. Fulltrúi landbúnaðarráðuneytisins flutti stutta ræðu áður en riðið var út og sýningin sett.
Mest áberandi voru hópsýningar eða munsturreið og fannst mér gaman að sjá hversu vandað var til verks. Mörg félögin reyndu að hafa hrossin í ákveðnum litum og þannig auka á heildarsvipinn en einnig voru búningar skrautlegir og vel gerðir. Flest voru atriðin ekki mjög flókin að gerð en ekki sakaði því það sem krakkarnir gerðu gerðu þau mjög vel. Til dæmis sá ég þarna krossa (skipta yfir völlin frá tveim hliðum og mætast þannig að þau fari í kross) sem voru með þeim bestu sem ég hef séð og sumar breiðfylkingarnar heppnuðust alveg glymrandi vel (var Andvari ekki með eina?).
Freyja Amble reið einnig nokkrar fimiæfingar (sniðgang, slöngulínur o.fl.), stór hópur krakka í pollaflokk létu sjá sig og kom einnig skrautlegur hópur krakkar íklæddir grímubúningum fram þar sem hugmyndaflugið var greinilega í hávegi haft. Þá kom Daniel Ingi aftur í ár með hestinn Lilla og hundinn Tangó en í þetta sinn hafði tíkin Tobba bæst í hópin.
Krakkar úr Herði sýndu hindrunarstökk eftir hlé og var sagt að í fyrsta sinn á Íslandi ætti að reyna að stökkva í kross (+-laga hindrun hafði verið komið fyrir). Þetta var mjög sérstakt atriði en ég tók eftir því að hestarnir hlupu meira yfir hindranirnar heldur en stukku, enda voru hindranirnar um 20cm háar. Kross-stökkin sjálf tókust misvel hjá knöpunum en í heildina get ég sagt að þetta hafi komið vel út ef ráð er gert fyrir því að þessi hross hafi aðeins nýlega verið þjálfuð í þessu. Hindranirnar voru einnig ekki mjög áberandi ef miðað er við að erlendis eru þær yfirleitt í skærum og vel áberandi litum.
Fyrir mitt leiti þá kom atriðið frá reiðskólanum að Geldingaholti mér mest á óvart. Krakkarnir sex voru mjög vel æfðir og var frábært að sjá hvað þau gátu gert. Stórgott dæmi um þá auknu fjölbreytni sem er að verða í íslenskri reiðmenningu.
Mig langar til að enda á því að óska öllum þeim sem tóku þátt í sýningunni til hamingju með stórglæsileg atriði og einnig þeim sjálfboðaliðum sem hjálpuðu til. Ég sé ekki eftir því að hafa mætt og vona að ég geti mætt á þessa sýningu að ári.
=)