“Vildi skilja trylltan veðhlaupahest eftir í Keflavík
”ÞETTA atvik leiðir hugann að því að við höfum enga aðstöðu hérlendis til að taka við dýrum við svona aðstæður. Slíkri aðstöðu þyrfti að koma upp og það er full þörf á að kanna slík úrræði betur,“ segir Halldór Runólfsson yfirdýralæknir um atvik á Keflavíkurflugvelli í gær, þegar flugstjóri á breiðþotu hollenska flugfélagsins KLM óskaði eftir að fá að skilja trylltan veðhlaupahest eftir í Keflavík.
Ellefu veðhlaupahestar voru um borð í vélinni sem átti að flytja til Bandaríkjanna, en einn þeirra trylltist skömmu eftir flugtak í Hollandi og tók flugstjórinn ákvörðun um að millilenda í Keflavík til að reyna að losna við hestinn. Halldór Runólfsson, Helgi Sigurðsson sérfræðingur í hrossalækningum og Gunnar Örn Guðmundsson héraðsdýralæknir voru kallaðir út vegna málsins og var flugstjóranum tjáð að ekki kæmi til greina að skilja hestinn eftir hér af sóttvarnarástæðum og gildandi laga um innflutning á dýrum.
Var flugstjóranum boðið upp á að hesturinn yrði aflífaður og hræið flutt áfram vestur um haf, eða að hann yrði deyfður með sterkum deyfilyfjum. Kaus flugstjórinn seinni kostinn og hélt áfram för sinni í gærkvöld með hestinn innanborðs, eftir fjögurra klukkustunda viðdvöl í Keflavík.
Halldór segir að hesturinn hafi skrámað sig lítillega í látunum en ekki hafi verið þörf á aðgerð af þeim sökum. Vel hafi farið um hrossin í vélinni og aðbúnaður góður. Hrossin voru í sérrými í þar tilgerðum gámum en í vélinni er einnig farþegarými og voru tæplega 300 farþegar um borð.”
Tekið af fréttavef hestar847
Þetta er náttúrulega alveg hræðilegt ástand. Það þarf að ýhuga svona mál til að fyrirbyggja svona vitleisu. En ég treysti dóra dýra og hans mönnum til að koma upp með einhverja snilldar lausn. En hvað finnst ykkur?