Það er einstök upplifun að fara ríðandi í hrossaréttir! Og allir ættu að prófa það einu sinni. En í ár var það sem er skemmtilegast við mínar réttir, að ríða niður troðninginn á eftir öllu stóðinu, eyðilagt!
Dagurinn byrjaði vel og við riðum í dalinn. Frændi minn sem kom með okkur hrósaði mér fyrir fallega ásetu, það er ekki amalegt að fá þannig hrós frá miklum hestamanni! En þegar við komun inn fyrir afréttargirðinguna þurfti að smala nokkrum hrossum niður úr fjallinu svo við skelltum okkur í það og biðum svo eftir hinum MIKLA flokk frá Ási (fullt af túristum). Þegar ég kom fyrst auga á hópinn hélt ég að þetta væru um 20 manns en svo kom alltaf meira og meira og meira! Enginn smá hópur!!!
Þegar allir voru komnir átti að reka stóðið inn eftir og yfir ána en þá kom í ljós að hópur af hrossum hafði falið sig alveg efst uppi í fjallinu undir þoku. Stóðið var komið að girðingu sem lokar leiðinni yfir ánna og átti að bíða eftir okkur sem fórum tilbaka að ná í hrossin. (Það var stór hópur af reiðmönnum og flestir af þeim sem voru á heimaslóðum.) En svo allt í einu sáum við stóðið vera komið yfir ána og á harðastökki áfram.
Þegar ég gat loksins riðið af stað reið ég í loftköstum til að reyna að ná í eitthvað af fjörinu. En svo þegar ég kom niður að rétt kom það í ljós að einhver utan að komandi aðili (hugsanlega túristi) hafði hleypt stóðinu af stað. Stóðið hefði getað hlaupið hvert sem er, þar sem mjög fáir reiðmenn voru til að fylgja því!
Ég veit að það er eflaust mjög gaman fyrir túrista að fara í ekta Íslenskar hrossaréttir en ef það var túristi sem opnaði hliðið, ætti ekki að setja einhverjar reglur fyrir þá áður en þeim er hleypt af stað? Einhver eyðilagði mesta fjörið og setti næstum allt á annan endann!