1. Platon var lærifaðir Aristótelesar; Aristóteles var 17 ára þegar hann hóf nám við Akademíuna - skólann sem Platon stofnaði þegar Aristóteles var 3 ára gamall.
2. Platon skrifaði um Atlantis, en það eru engar heimildir um að Aristóteles hafi “sett honum það fyrir” eða beðið hann um það; og það er sennilega engin þörf á skýringu á tilurð sögunnar annarri en þeirri sem útskýrir hvað Platon vildi sjálfur segja með sögunni. Með öðrum orðum er óþarft að leita út fyrir túlkun á sögunni til að finna skýringu á tilurð sögunnar.
3. Það er Platon sem er eldri maðurinn á myndinni og bendir upp í loftið. Hann heldur á bók og á bókarkilinum stendur Timaeus sem er latnesk mynd af heiti einnar frægustu samræðu Platons (reyndar reyndar er hún önnur tveggja þar sem hann getur Atlantis). Yngri maðurinn á myndinni (sá sem er með flatan lófa) er Aristóteles. Hann heldur á bók og á bókarkilinum stendur Ethica sem vísar til Siðfræði Níkomakkosar, sem er eitt af áhrifamestu ritverkum hans.
4. Kvikmyndir eins og Roadtrip eru engan veginn góð heimild um sögu heimspekinnar. En ef ég man rétt segir í kvikmyndinni “Ok, Socrates, he was like the Vince McMahen of philosophy, he started it all”, en að gæti svo sem verið að mig misminni. Það skiptir hins vegar engu máli, því hvorki Aristóteles né Sókrates er talinn fyrsti gríski heimspekingurinn. Samt mætti segja um þá báða (í ólíku samhengi) að þeir hefðu komið öllu af stað. Það er til dæmis vel þekkt klisja að Sókrates hafi fyrstur fengist við siðfræði og hann kom vissulega á ákveðinni hefð í grískri heimspeki. Aristóteles var hins vegar fyrstur til að kerfisbinda ákveðna hluta heimspekinnar, eins og til dæmis siðfræði og hann bjó líka til rökfræði sem fræðigrein. En svona setningu úr svona kvikmynd ber samt ekki að taka mjög hátíðlega.
___________________________________