Það er reyndar ekki alveg skýrt hvað verið er að tala um hérna. Það er vissulega talað um að sum dýr hafi lappir t.d. er stundum talað um afturlappir á hundum o.s.frv. En þegar við tölum um mannfólk er talað um fætur og lappir þannig að löpp er sá hluti fótsins sem er neðan við ökkla. Hundar hafa t.d. engar lappir í þessum skilningi; neðsti hluti fóta þeirra kallast loppa. Ég veit ekki hvernig venjan er að tala um útlimi fíla en á stórum dýrum er sjaldnar talað um lappir, það er t.d. ekki talað um lappir á hestum, nautum eða nashyrningum (það brýtur gegn málvitund minni og í þeim bókum sem ég leit í snöggvast gat ég einungis séð að talað væri um fætur bæði á fílum, hestum og nashyrningum). En úr því að við erum að tala um fíl og notum orðið ‘löpp’ þá lagði ég þann skilning í orðið sem ég legg í orðið þegar ég tala um lappir á mannfólki.
Á þessum fíl eru fjórir útlimir sem við getum nefnt fætur. Neðsta hlutann (lappirnar) vantar á þrjá þessara fjögurra fóta. Hins vegar afmyndast þessir sömu þrír útlimir fílsins á myndinni þannig að svæðið á milli þeirra á teikningunni lítur eins út og neðsti hluti (löpp) fjórða útlimsins. En þetta sem lítur út eins og lappir tengist ekki fílnum, það er ekki á útlimunum á honum. Þess vegna mætti segja að fíllinn hefði bara eina löpp, þ.e. þá sem er á aftari útlim fílsins sem snýr að okkur.
Ef hins vegar maður skilur orðið ‘löpp’ þannig að það merki allan útlim fílsins (sem mér þykir eins og áður kom fram brjóta gegn málvitund minni), þá hefur hann vissulega fjórar lappir, eina heillega og þrjár sem eru þannig afmyndaðar að þær mynda eins konar tálsýn þannig að það lítur út fyrir að hann hafi enn fleiri lappir en hann raunverulega hefur.
Í stuttu máli: ef ‘löpp’ merkir allan útlim fílsins (ég hallast ekki að því), þá hefur hann fjórar lappir. En ef ‘löpp’ er neðstu hlutinn á fót fílsins, þá hefur hann bara eina löpp.
___________________________________