En ertu endilega viss um að þú eigir þína sjálfsvitund? Ertu ekki bara afurð hugmyndanna allt í kringum þig sem mata þig og móta þig?
Ég er meðvitaður um það að í hvert skipti sem ég tjái einhverja skoðun er ég að viðurkenna einn raunveruleika, eitt sjónarhorn, og útiloka marga aðra. Tungumálið takmarkar líka þær hugmyndir sem við erum fær um að koma upp með, dregur okkur ósjálfrátt í dilka þar sem við viljum ekki endilega vera. Ég hélt einu sinni að ég væri vinstrisinnaður, svo hélt að ég væri hægrisinnaður. Loks komst ég að því að ég vil ekki viðurkenna neinar kreddukenndar hugmyndir sem aðrir troða inn á mig. Ekkert er nógu satt eða merkilegt að það taki því að binda sig lengi við það. Ég er búinn að vaða í gegnum kristni, trúleysi, búddatrú, islam, gyðingdóm, gnostísisma og ýmsa dulspeki; allt hafði sitt gagn á sínum tíma en ekkert af þessu var nógu satt til að festa sig lengi við. Er þetta algjör efnishyggja eða nihilismi?
Nei, þetta er hin stöðuga leit að sannleikanum, sem er hvergi og alls staðar. Við getum víkkað út meðvitund okkar um heiminn með því að vera stöðugt að spyrja og leita. Um leið og við setjumst niður og segjum, svona er ég, svona er heimurinn, þá erum við svo gott sem dauð (eða hér um bil). Heimspekingur sem gengur út frá því að öll trúarbrögð séu vitleysa, er að viðurkenna ákveðna kreddu sem hann trúir, hann lokar sig inni í einum raunveruleika og útilokar aðra. Að hafa eina einstaka sýn á veruleikann er að mínu mati hamlandi fyrir persónulegan þroska. Sjálfsvitund er að mínu mati sjálfsblekking. Í hverju samfélagi er e.t.v. e.k. kollektív vitund, hugsanlega nokkrar, menn eru bara mislangt komnir að átta sig á því. Sumir eru algerlega staðnaðir og lúta þ.a.l. stjórn annarra, grípa hugmyndir sem er hent í þá og herma. Skilur einhver hvað ég er að fara?
Ein spurning: Þegar þú segir þetta ert þú þá ekki að útiloka sjónarmið þess sem ef til vill er ósammála þér? Er þetta sem þú segir ekki líka einstök sýn á veruleikann?
Heimspekingar hafa undanfarið verið að sætta sig við að það sé ekkert “point of view from nowhere” (sem gárungar kalla sjónarhól guðs), en um leið held ég að það sé ekki til neitt “point of view from everywhere”.
Hvað sem því líður held ég að það sé ekki sanngjarnt að halda því fram að ef einhver telur að einhver kenning um eitthvað sé rétt og ákveður að tileinka sér hana, þá sé viðkomandi að hamla persónulegum þroska sínum sem einungis þeir geri ekki sem binda sig ekki við ákveðna skoðun.
En það er samt, finnst mér, sannleikskorn í þessu hjá þér, að það er ekki nein nauðsyn að taka einhverja sérstaka afstöðu (sbr. þá efahyggju sem ég er af og til að boða, þ.e. forna efahyggju) og að menn mega ekki staðna og verða að hafa halda huga sínum opnum (sbr. núverandi handklæði frá Donald Davidson, það er sannleiksorn þar, held ég) :)<br><br>_____________________________________
Aut tace aut loquere meliora silentio.
___________________________________
0
Sæl(l) ramax!
Ég gef lítið fyrir svona póstmódernískt blaður. Leit okkar að sannleikanum, sé hann til sem eitt og afmarkað fyrirbæri, hlýtur að hluta til að felast í því að setjast niður og segja (að lokinni rannsókn) “svona er heimurinn”. Því betur sem við könnum þennan heim okkar, sjálfsvitundina og allt sem er, því nær komumst við vitneskjunni um HVAÐ þetta allt saman er.
Að kalla slíkt kreddu nær varla nokkurri átt. Kredda felst í því að skilgreina heiminn ÁN undangenginnar rannsóknar. Trúarbrögðin ganga einmitt út á það og falla því klárlega undir kreddur.
Það getur varla talist kredda að afgreiða trúarbrögðin sem vitleysu, hafi maður í höndunum haldbærari vitneskju en þau geta nokkurn tíma boðið. Í þessu felst einmitt fegurð þess að rannsaka, gamlar ranghugmyndir og kreddur falla úr gildi og verða í besta falli broslegar.
Þú spyrð: “En ertu endilega viss um að þú eigir þína sjálfsvitund? Ertu ekki bara afurð hugmyndanna allt í kringum þig sem mata þig og móta þig?”
Ég held þú sért hér að rugla saman hugtökunum sjálfsvitund og sjálfsmynd. Sjálfsvitund felst í því að vita af sjálfum sér, skynja tilvist sína. Ekkert annað.
Birgir.com
0