Ég læt nægja að telja upp það helsta sem komið hefur út á íslensku.
<i>Stefnur & straumar í siðfræði</i> eftir James Rachels (Sifræðistofnun, 1997). Þetta er mjög góður inngangur að siðfræði. Ýmsar kenningar eru teknar fyrir og útskýrðar skipulega ásamt helstu rökunum fyrir þeim, en einnig gagnrýndar. Öll rök eru skipulega sett fram og bókin er afar skýr.
<i>Þættir úr sögu siðfræðinnar</i> eftir Vilhjálm Árnason (Háskóli Íslands, 1990). Sígildar siðfræðikenningar úr heimspekisögunni eru teknar fyrir, kenningar sem enn er haldið fram. Stutt bók en góð.
<i>Broddflugur</i> eftir Vilhjálm Árnason (Háskólaútgáfan, 1997). Þetta er greinasafn eftir Vilhjálm Árnason, prófessor í heimspeki við HÍ. Sumar eru stuttar en aðrar eru að verða sígildar í íslenskri umræðu um siðfræði.
<i>Siðfræði lífs og dauða</i> eftir Vilhjálm Árnason (Háskólaútgáfan, 1997). Bókin fjallar ítarlega um nánast alla þætti siðfræði heilbrigðisvísinda, t.d. fóstureyðingar, líknardráp og forgangsröðun í heilbrigðiskerfinu. Bókin er væntanleg í þýskri þýðingu innan skamms fyrir þá sem vilja æfa sig í þýskunni.
<i>Þroskakostir</i> eftir Kristján Kristjánsson (Rannsóknarstofnun í siðfræði, 1992). Greinasafn eftir helsta málsvara nytjastefnu á Íslandi. Greinarnar fjalla m.a. um afstæði og algildi siðfræðinnar, nytjastefnuna og túlkun á henni og menntamál.
<i>Af tvennu illu</i> eftir Kristján Kristjánsson (Heimskringla, 1997). Annað greinarsafn eftir Kristján. Kristján ver m.a. nytjastefnu, fjallar um geðshræringar og gerir atlögu að lauslæti, auk þess sem hann ræðir heilbrigðis- og menntamál.
<i>Siðfræði</i> eftir Pál Skúlason (Háskólaútgáfan, 1990). Páll Skúlason, rektor HÍ, fjallar hér um siðfræði í nokkrum greinum, en hann hefur einnig komið inn á siðfræðileg efni í <i>Pælingum</i>, <i>Pælingum II</i> og <i>Sjö siðfræðilestrum</i> sem einnig komu út hjá Háskólaútgáfunni.
<i>Siðferði og mannlegt eðli</i> eftir Pál S. Árdal (Hið íslenzka bókmenntafélag, 1997). Páll S. Árdal, prófessor í heimspeki við Queen's University í Kingston, Ontario í Kanada, fjallar um siðfræði Davids Humes.
Greinasafnið <i>Erindi siðfræðinnar</i> (Rannsóknarstofnun í siðfræði, 1993) inniheldur greinar eftir ýmsa höfunda. Róbert H. Haraldsson ritstýrði.
Greinasafnið <i>Hvers er siðfræðin megnug</i> (Siðfræðistofnun, 1999) inniheldur greinar eftir ýmsa höfunda, t.d. Vilhjálm Árnason, Róbert H. Haraldsson, Sigríði Þorgeirsdóttur, Jón Á. Kalmansson o.fl. Jón Á. Kalmansson ritstýrði.
Einhverjar greinar er að finna í greinarsafni Þorsteins Gylfasonar <i>Réttlæti og ranglæti</i> (Heimskringla, 1998), t.d. um réttlæti (ein frægasta grein sem skrifuð hefur verið um stjórnmálaheimspeki á íslensku), um líknardráp, um hlutverk siðfræðinnar, um samviskuna og um gildi, boð og ástæður til athafna.
Sígildar greinar eftir erlenda höfunda er að finna í íslenskum þýðingum í greinasafninu <i>Heimspeki á tuttugustu öld</i> sem ritstýrt er af Einari Loga Vignissyni og Ólafi Páli Jónssyni (Heimskringla, 1994), þ.á m. “Fyrirlestur um siðfræði” eftir Ludwig Wittgenstein, “Tvö hugtök um frelsi” eftir Isiah Berlin, “Siðfræði nút+imans” eftir G.E.M. Anscombe, “Siðferði og sannfæringar” eftir Philippu Foot, “Dygðastefna nút+imans” eftir Rosalind Hursthouse og “Til hvers að ganga í skóla? Menntun frá sjónarhóli nytjastefnu og réttarhyggju” eftir Amy Gutman.
<i>Frelsið</i> eftir John Stuart Mill hefur komið út í íslenskri þýðingu (Hið íslenzka bókmenntafélag, 1978). Sígild lesning.
<i>Nytjastefnan</i> eftir John Stuart Mill hefur komið út í íslenskri þýðingu (Hið íslenzka bókmenntafélag, 1998). Sígild framsetning á einni áhrifaríkustu siðfræðikenningu heimspekisögunnar.
Platon fjallar um réttlætið í 1stu bók <i>Ríkisins</i> (o.áfr.) en einnig í <i>Gorgíasi</i>. Báðar samræðurnar hafa komið á íslensku (Hið íslenzka bókmenntafélag).
<i>Siðfræði Níkomakkosar</i> er helsta rit Aristótelesar um siðfræði og hefur það verið þýtt (Hið íslenzka bókmenntafélag, 1996). Þetta er sígild framsetning dygðasiðfræði en löng lesning og tæknileg.
…ég er kannski að gleyma einhverju, en það er væntanlega nóg komið til að koma þér af stað. Líttu svo í heimildaskrárnar í þessum ritum til að finna það helsta á erlendum málum :)
<br><br>_____________________________________
Aut tace aut loquere meliora silentio.
___________________________________