Auðvitað má margfalda “endalusar tölur”. Það er ekkert að þessu dæmi hjá þér enda sýnir það að 0,999… er jafnt og 1 eins og ég er búinn að tönnlast á. Það sem þú átt við með endalausum tölum er eflaust brot með óendanlega marga aukastafi. Öll brot eru þannig, t.d. 1/10 = 0,1000…, 1/9 = 0,111… og að sjálfsögðu getum við margfaldað þessi brot með tölum. Þessi aðferð sem þú ert að nota (ttcmp) er oft notuð til að breyta tugabrotum yfir í almenn brot og nýtum við okkur þá eðli óendaleikans þ.e. með því að lengja tugabrot með t.d. 10 eða 100 breytir engu um fjölda aukastafa því hann verður enn óendanlegur.
Dæmi: Fjöldi aukastafa í 0,111… og 10*0,111… = 1,111… er sá sami.
Hugsum okkur að við höfum tugabrotið 0,010101… og við viljum breyta því í almennt brot. Við gerum það svona:
Setjum x = 0,010101… og sjáum að þetta brot er lotubundið með lotuna 01, þ.e. 01 endurtekur sig. Margföldum x með 100 og fáum 100x = 1,010101… . Hérna margföldum við brotið með 100 til að fá eins aukastafi í 100x og x, þ.e. 010101… . Við höfum sem sagt x = 0,010101… og 100x = 1,010101… og með frádrætti losnum við við aukastafina og fáum 100x - x = 1 sem gefur
99x = 1 og þar með x = 1/99. Hér erum við komin með almennt brot fyrir tugabrotið 0,010101…, þ.e. 1/99 = 0,010101…