Ég er oft í ástandi þar sem ég myndi hvorki segjast vera hamingjusamur né óhamingjusamur. Það hvort aðrir hafi sömu mælistiku á orðin er annað mál. Augljóslega meina ég þá ekki sama hlutinn með að vera “ekki hamingjusamur” og “óhamingjusamur”.
Þau tilefni þar sem ég myndi segjast vera hamingjusamur eru helst þegar ég er í góðra vina hópi að skiptast á skrítlum eða á einhvern hátt að njóta skemmtilegheita. Við þau tilefni hugsa ég ekkert um það að ég sé á því augnabliki hamingjusamur, það er eftirádómur. Hins vegar grufla ég mikið í eigin óhamingju þegar hún dynur á.
Í Grikklandi til forna töluðu heimspekingar stundum um hvernig mætti öðlast hið góða líf, eudaimonia, sem hefur verið þýtt sem “hamingja”. Það sem þeir áttu við var árangursríkt og fyrirmyndarvert líf. Þeir áttu sumsé við langtímaástand, öfugt við almenna nútímanotkun orðsins, sem vísar til tímabundinnar tilfinningar.