Þú getur notað sömu rök um nánast hvaða fag sem er eða hvaða hlut sem hægt er að skipta. Hvers vegna að tala um eðlisfræði, þegar þú getur talað um hreyfifræði, varmafræði, skammtafræði og svo framvegis? Hvers vegna að tala um stærðfræði þegar þú getur talað um talnafræði, algebru, örsmæðareikning, tölfræði og svo framvegis? Hvers vegna að tala um bíl þegar þú getur talað um púst, bremsubúnað, kerti, vélar og svo framvegis?
Það er hægt að skoða hvern hlut eða hugmynd með sértækum eða almennum hætti, skoða einingarnar eða heildina. Heimspeki fæst við bæði hið almenna og sértæka, til dæmis þekkingafræði sem eru sértækar vangaveltur um hvað þekking sé og hvað það er sem hægt er að vita. En við gætum líka haft áhuga á því að hugsa um þekkingu með almennari hætti, til dæmis samspil þekkingar og tungumáls eða jafnvel enn almennari hætti, hvort þekking skipti yfir höfuð nokkru máli og hver tilgangur þess að vita sé, er æskilegt að öðlast þekkingu yfir höfuð?
Þetta er ein leið til þess að líta á heimspeki; að rífa allt saman í sundur og skilja hvernig einingar þess virka og setja þær aftur saman til þess að skilja heildina. Það ætti því ekki að sæta furðu að hver eining sem þú skoðar með þessum hætti gæti verið viðfangsefni sérstakrar fræðigreinar, en það gerir heimspeki ekki gagnslausa í sjálfum sér. Það er eins og að segja að læknir þjóni engum tilgangi vegna þess að það er á endanum viðfangsefni meinafræðings að greina krabbamein og lyfjafræðings að lækna það.