Ég held þú sért að misskilja bæði það sem við vorum að segja og það sem verið er að segja í þessari mynd. Þeir eru að tala sérstaklega um flókin hegðunarmynstur eins og ýmsar birtingarmyndir geðraskana og ekkert af þessu er nýtt fyrir mér eins og ég hef áður sagt (hér er minnist ég til dæmis á ACE rannsóknina sem fjallar um áhrif áfalla í barnæsku:
http://www.hugi.is/tilveran/threads.php?page=view&contentId=7307846#item7309813).
Enn og aftur, þá er þetta alls ekki í mótsögn við það sem ég sagði. Ég var að tala um að erfðir hafa mest áhrif á hegðun okkar almennt, ég var ekki að tala um sértæk og flókin hegðunarmynstur. Dæmið sem þú nefnir um morð og mannát kemur mér ekki heldur á óvart og ég hef margoft rætt slíka hegðun hér á Huga í tengslum við siðferði. Hér er um sambærilega hegðun að ræða og má sjá í ryskingum meðal sjiimpasa og í stríðum milli þjóða (Abu Gharib er ágætis dæmi, betra þó þjóðarmorð í Kongó, Sómalíu o.s.frv.). Þetta er dæmi um hegðun sem stjórnast af umhverfinu hverju sinni (en forskriftin er greinilega til staðar í okkur, enda finnur þú hana alls staðar meðal manna og apa), menn hegða sér illa í réttu umhverfi (sbr. The Lucifer effect o.s.frv.). Enn og aftur, ekkert sem kemur mér á óvart og ekki í mótsögn við það sem ég var að segja.
Ég tók sérstaklega fram í fyrri umræðu okkar að siðferði væri að vissu leiti breytilegt, en þetta eru tímabundnar og smávægilegar breytingar miðað við þann rauða þráð hegðunar sem hægt er að rekja allt til sameiginlegra forferðra okkar og annarra apa. Innan hvers samfélags, manna og skyldra mannapa svo sem bónóbó apa, sjiimpasa o.s.frv. gilda afar djúpstæðar siðferðisreglur sem breytast ekki og hafa mun meiri áhrif á hegðun okkar. Sem dæmi nefndi ég sérstaklega tvö þekkt siðalögmál um morð og lygar innan hvers samfélags. Þó svo meðlimir innan eins samfélags myrði meðlimi annars samfélags (sbr. stríð og t.d. dæmið sem þú nefnir) og réttlæti það með ýmsum hætti er morð innan sérhvers samfélags samt sem áður alltaf álitið rangt. Þetta þekkist líka meðal apa sem verja óðal sinn fyrir öðrum apahópum og ætti því ekki að koma á óvart, þetta er dæmi um einfalt hegðunarmynstur sem er alls staðar ríkjandi. Þú getur ekki fundið dæmi um samfélag þar sem morð innan þess samfélags (þ.e. einstaklingur í því samfélagi myrðir annan einstakling úr sama samfélagi) er almennt álitið réttlætanlegt vegna þess að samfélög geta ekki virkað án þessarrar grundvallarreglu. Eins er farið um lygar, þær geta ekki almennt verið álitnar réttar vegna þess að allt mannlegt samfélag byggir á því að upplýsingar séu réttar. Tungumálið yrði gagnslaust ef lygar væru almennt ásættanlegar.
Það sem ég var að segja er að slíkar siðferðisreglur, sem eru djúpstæðar og almennar, hafi mun meiri áhrif á hegðun okkar þegar á heildina er litið en nokkurn tímann breytilegir siðir eins og t.d. hugmyndir manna um samkynhneigð eða reykingar á hverjum tíma. Slíkir tímabundnir siðir hafa vissulega áhrif í hverju samfélagi svo lengi sem þeir eru hefðbundnir um nokkurn tíma, en ég held það sé augljóst að siðalögmál um lygar og morð hafi mun meiri áhrif.