Mér datt þetta allt saman í hug þegar ég sá umfjöllun um stofnun sem borgar eiturlyfjafíklum til að láta gelda sig. Ég er sjálfur ekki fylgjandi því að fólk fái pening fyrir að gelda sig, en ég er ekki jafn viss með að borgað sé fyrir aðgerðina fyrir þau. Ef fíklarnir fá borgað þá er ólíklegt að þeir líti jafn vandlega á galla aðgerðarinnar eins og á kosti peninganna. Spurningin þar er samt hversu mikill skaðinn er þegar maður hefur “óvart” gelt sig. Sumar af hinum spurningunum vöknuðu þegar var fjallað um bæklanir barna slíkra fíkla, sumar banvænar.
Ég hef líka svolítið spáð í hvað á sér í raun stað þegar maður drepur fóstur. Það virðist vera til í hugum sumra einhver skilveggur við fæðingu, sem er samt mjög ótengdur þroska barnsins. Við að drepa manneskju er maður ekki beint að valda henni skaða, því þótt það sé hin fullkomna frelsissvipting þá verður manneskjan ekki svekkt yfir því eftirá. Maður er þá að valda þeim skaða sem er annt um og reiða sig á hana. Huglægur skaði í fyrra og hlutlægur í því seinna. Sá hlutlægi skaði er þó yfirleitt bundinn í huga manneskjunnar sem dó. Nýfædd börn hafa huga sem er nokkuð þroskaður, þó eru engin sérstök skil í þeim þroska við fæðingu að mér vitandi. Fyrrnefndur skilveggur er þá í raun bara tilbúningur ástar á ákveðinni veru, barninu, sem áður fyrr var bara nokkurs konar óhlutbundið fóstur inní mömmunni.
En þessi sjálfsákvörðunarréttur um geldingu og pælingar um virði og gildi lífs leiða mann óhjákvæmilega til pælinga um sjálfsmat og sjálfsmorð. Hvenær er sá punktur þar sem maður er verr staddur en ef maður væri dauður? Líklega er ekki vit í spurningunni, því maður er að bera saman magn einhvers við skort á tilvist þess. Eins og að spyrja um lit á ósýnilegum einhyrningi. Flestar hugsanir okkar eiga sér stað innan einhvers ákveðins ramma, að gefnum ákveðnum forsendum. Þær forsendur geta verið að halda vinnunni (sem hindrar mann ósjálfrátt í að segja hug sinn við yfirmenn) eða að halda híbýlunum í heilu lagi (sem gerir mann vænisjúkan gagnvart bruna og bramli). Maður er ekki endilega mikið að hugsa um rammann sem maður hugsar innan. Og stærsti ramminn af öllum er að halda lífi, hann umkringir svo stórt sett hugsana og hegðunar að maður gengur svo gott sem fullkomlega út frá honum. En kannski er það bara því maður hefur ekkert til að bera hann saman við, eins og maður hefur með hina rammana.