Lykilatriðið er að afstæður hraði milli tveggja hluta getur í mesta lagi numið ljóshraða. Það er ekki hægt að fullyrða að einn eða annar aðilinn sé á ferð. (Damphir var þegar búinn að benda á þetta atriði.) Ef Lísa er í einu geimskipi og Róbert í öðru og þau ferðast hvort frá öðru, þá getur hvorugur aðilinn fullyrt að hann sé sjálfur á hreyfingu. Lísu finnst Róbert fjarlægjast sig eins og honum finnst hún fjarlægjast sig. Nú geturðu allt eins stillt dæminu upp þannig að Lísa standi á Canaveralhöfða á jörðinni og Róbert sé í skipinu, á hraðferð til tunglsins. (Eða er Lísa á hraðferð frá honum, í slagtogi með jörðinni?)
Það er rétt að tímaskekkja á sér stað við háhraða ferðalög (og reyndar við alla hraða, hennar verður þó tæpast vart fyrr en nálægt ljóshraða). Hún er þó afstæð, rétt eins og hreyfingin sem veldur henni. Þannig þykir Róbert, sem fór á fleygiferð frá jörðu, að klukkan hennar Lísu gangi hægar en sín, á meðan Lísu finnst klukkan hans Róberts ganga hægar en sín.
Þessar pælingar miðast allar við jafnan hraða - hröðun er ekki afstæð, heldur algild. Ef Róbert snögghemlar í geimskipinu sínu tekur hann mjög greinilega eftir því að það er hann en ekki Lísa, sem í millitíðinni fór út í búð og keypti ís og situr nú í ró og spekt á ströndinni, sem kastast fram í sætinu. Hröðun hægir á tímanum hjá þeim sem verður fyrir henni, og um það eru bæði Róbert og Lísa sammála.
Nú geturðu ímyndað þér hvað myndi gerast ef Róbert myndi ferðast á ljóshraða til Betelgás, snögghemla og leiftra aftur til baka á ljóshraða.