Það var ekki aðeins íhaldssöm áróðurslist í Rússlandi. Í upphafi byltingarinnar var náttúrulega konstrúktívisminn sem átti að vera tákn hinna nýju tíma, bylting í listum til að styðja stjórnmálalega byltingu. Hann er miklu skemmtilegri en það sem síðar kom. Nokkuð fljótlega (man ekki ártöl) voru byltingarsinnuðu listamennirnir “vinsamlegast” beðnir að styðja við kommúnismann á þann hátt sem alræðisherranum líkaði, sem var félagsleg raunsæislist. Dæmi um frábæra konstrúktívista eru Moholy-Nagy, Malevich, El Lissitsky, Chernikov, Rodchenko og Tatlin. Sumir flúðu til Þýskalands og jafnvel einhverjir þaðan til Bandaríkjanna þegar fasismi var orðinn yfirþyrmandi alls staðar í Evrópu. Í rauninni má segja að módernisminn í myndlist og arkitektúr hafi verið sterklega mótaður af kommúnískum hugmyndum, sbr. Bauhaus. Arkitektúrinn missti reyndar hugmyndafræðina fyrir borð á leiðinni til Bandaríkjanna.
Marxismi hefur annars loðað við listaheiminn fram á okkar dag, á írónískan hátt því auðvitað er listin öll orðin söluvara. Póstmódernískir heimspekingar eru flestir aflóga marxistar, svo að Marx læðist aftan að Bandaríkjamönnum í gegnum myndlistina og arkitektúrinn, en þeir eru kaldhæðnislega einna mest uppteknir af pomo heimspeki sem gagnrýnir þá hvað mest. Í dag eru post-marxistar t.d. skólastjórar í flestum “Ivy League” arkitektaskólum í Bandaríkjunum, s.s. Columbia, Sci-arc, Yale og Harvard. Lesið greinina um afbyggingu og póstmóderníska heimspeki og list í Lesbók Morgunblaðsins í dag. Þessi grein færir okkur reyndar tíu til fimmtán ára gamlar fréttir en er engu að síður áhugaverð því þetta efni hefur verið hunsað á Íslandi hingað til, ef frá eru taldar niðurrifsgreinar <a href="
http://intra.unak.is/not/kk/ritumpm.html“> Kristjáns Kristjánssonar</a>. Voru þær kannski allt sem þurfti? Eða eru Íslendingar á eftir?
Það er nokkuð til í þessu með tíðarandann. En ég er samt farinn að hallast frá því að listamenn eigi aðeins að vera spegill samtímans. Póstmódernismi er í raun ekki spegill samtímans heldur tilraun gamalla marxista til þess afbyggja undirstöður hins kapítalíska ástands, sem er okkar raunverulega ástand. Marxísk hugmyndafræði er nú orðin að söluvöru og ”fetish“, þ.e. búin að snúast upp í andhverfu sína, sbr Rem Koolhas og Prada, Peter Eisenman, Thom Mayne og Bernard Tschumi sem eru allir afbyggingarsinnaðir stjörnuarkitektar. Hafið þið ekki tekið eftir hvernig kommúnísk tákn og frasar eru líka notaðir í auglýsingum nútímans, sbr. t.d. Rautt símafyrirtækið og musik.is -”lifi byltingin!"? Ég held við ættum að leyfa Marx gamla að hvíla í friði í stað þess að nauðga honum sífellt með því að snúa honum upp í andhverfu sína. Maðurinn átti sitt skeið og hafði margt gott fram að færa en hans tími er liðinn og kemur aldrei aftur. Allir sem hafa komist í návígi við Sovíetríkin geta vitnað um það.
Heh, ég er held ég sé að breytast í argasta íhald eftir að ég fór að lesa heimspeki og hugmyndasögu! Það er nefnilega margt í sögunni sem óþarfi er að henda frá sér, og óþarfi að finna upp hjólið upp á nýtt. Póstmódernismi er sökkvandi skip, og ég held að þeir listamenn og arkitektar/hönnuðir sem einbeita sér aðeins að samtímahugmyndum verði eins og stjórnlausir bátar á reki undan nýjustu straumunum. Hinir sem hafa ákveðna stefnu og markmið, og sjá söguna í samhengi, eiga auðveldara með að líta fram á við. Á morgun breytum við heiminum!