Það eru í grófum dráttum til tvenns konar marxistar, þeir sem trúa á réttlæti og þeir sem trúa ekki á neitt réttlæti.
Þeir sem trúa á réttlæti trúa því að það sé réttlátt að hver og einn vinni eftir getu en uppskeri eftir þörfum. Þeir vilja koma svona fyrirkomulagi á með einum eða öðrum hætti.
Á hinn bóginn eru þeir sem trúa ekki á neitt réttlæti; þeir trúa því ekki að það sé neitt sérstaklega réttlátt að hver og einn vinni eftir getu en uppskeri eftir þörfum, en halda aftur á móti að svona fyrirkomulag muni verða komið á fyrr eða síðar með einum eða öðrum hætti og sú þróun sé söguleg nauðsyn.
Það er margt sem bendir til þess að Marx hafi sjálfur verið nær þeim síðarnefndu í skoðunum sínum, en um það er deilt og menn eru ekki á eitt sáttir um hvað Marx hélt sjálfur. En eitt er víst, og það er að hann hafði mikið álit á kapítalisma. Það kerfi fannst honum afar gott og miklu betra en það sem áður hafði verið; kapítalisminn var að hans mati mikið framfaraspor í sögu mannkyns. En lokaskrefið í þróuninni taldi Marx að yrði alræði öreiganna; hvort hann taldi að það væri jafnvel réttlátara kerfi en kapítalisminn, eða hvort það yrði svo bara vegna þess að sagan myndi nauðsynlega þróast í þá átt skal ósagt.<br><br>_____________________________
Aut tace aut loquere meliora silentio.
___________________________________