Það er líka vitað mál að menn blekkja sjálfan sig, það er afar hæpið að gen sem veldur sjálfsblekkingum hefði lifað af ef það væri ekki gagnlegt. Ef maður gengur svo langt að taka alvarlega memetics (hermifræði?) þá gæti maður vel hugsað sér að blekkingar eins og trúarbrögð geti verið gagnlegar í vissum skilningi. Það sem ég var samt kannski upprunalega að velta fyrir mér var hver herslumunurinn er á því að ljúga, segja ósatt eða segja ekki neitt þótt maður viti sannleikann, í siðfræðilegum skilningi. Ef við göngum út frá því að það sé oftast best að segja sannleikann er verra að ljúga og segja ekkert en að segja ósatt, þar sem það er enginn ásetningur að baki. En er þá einhver munur á því að segja ekkert og að ljúga? Annars vegar ertu að gefa vísvitandi misleiðandi upplýsingar og annar vegar vísvitandi að gefa engar upplýsingar. Það veltur alveg á ástæðum og það er væntanlega ekki hægt að gera upp á milli þeirra almennt. En það er samt áhugavert að velta því fyrir sér.