Fyrst aðeins um trúarlíf Íslendinga og fjölda kristinna og svo um þjóðsönginn.
1. Trúarlíf Íslendinga.Þú segir að yfirgnæfandi meirihluti Íslendinga sé skráður í kristið trúfélag en efast um að það sé eitthvað hægt að vita um trúarlíf landans. En það er víst hægt að segja ýmislegt um skoðanir landans í trúmálum. Könnun sem Gallup gerði fyrir Biskupsstofu, Guðfræðideild Háskóla Íslands og Kirkjugarða Reykjavíkur 2004 (sjá
hér (pdf skjal)) leiddi í ljós að 19,1% landsmanna eru ekki trúuð, þrátt fyrir að einungis 14,54% hafi ekki verið í þjóðkirkjunni á sama ári. Stór hluti þess hóps var auðvitað í öðrum trúfélögum (2,44% voru utan trúfélaga eða 7144 manns) sem þýðir að fjölmargir af þeim 250.661 sem voru skráðir í þjóðkirkjuna árið 2004 segjast ekki vera trúaðir. 11,6% sögðust ekki geta sagt til um það hvort þau væru trúuð eða ekki. Þá eru eftir 69,3% sem segjast vera trúuð, rétt rúmlega tveir þriðju hlutar.
Tölur um fjölda fólks í þjóðkirkjunni (eða öðrum trúfélögum) segja lítið sem ekkert um trú Íslendinga. Gleymum því ekki að fólk er sjálfkrafa skráð í trúfélag móður sinnar; það er ekki eins og 250 þúsund Íslendingar hafi skráð sig í þjóðkirkjuna; 250 þúsund Íslendingar hafa hins vegar ekki skráð sig úr þjóðkirkjunni: Sumir af því að þeir vilja vera í kirkjunni af trúarlegum ástæðum, aðrir kannski af því að þeir hafa ekki nennt því eða það ekki hvarflað að þeim. Til fróðleiks má nefna að í fyrra voru 7997 manns utan trúfélaga en þá voru 82,09% landsmanna í þjóðkirkjunni.
Og samkvæmt sömu könnun og ég nefndi áðan er einungis um helmingur þjóðarinnar kristinn! Af þeim 69,3% sem sögðust vera trúuð sögðust 76,3% játa kristna trú: rétt rúmlega helmingur þjóðarinnar! 22,4% sögðust “trúa á sinn persónulega hátt”, hvað svo sem það þýðir. Kannski trúir þetta fólk á “hið góða” eins og t.a.m. systir mín (sem gerir það í raun að einhvers konar platonistum); sjálfsagt eru skoðanir þessa hóps jafn fjölbreytilegar og þær eru margar.
2. Þjóðsöngurinn.Þú segir: “Ef stór meirihluti þess (kristna) meirihluta hefur jafn sterkar kenndir og ég til þjóðsöngsins, þá finnst mér ekki rétt að breyta þjóðsöngnum.” Bíddu, af hverju skiptum við hin ekki máli? Af hverju ætti einungis að taka tillit til “kennda” þeirra kristnu? Þetta finnst mér gríðarlega ósanngjarnt og ótillitssamt og í raun hrokafullt (eins og viðhorf okkar hinna skipti ekki máli).
Við skulum ekki gleyma því hvernig texti þjóðsöngsins er. Það er ekki eins og orðið “guð” komi þar sakleysislega fyrir líkt og í frasanum “guð hjálpi þér”. Öðru nær, þjóðsöngurinn er ein löng bæn til guðs sem margir ótrúaðir hafa enga löngun til að fara með. Og samt á þetta að vera söngur sem landsmenn allir - já líka við sem erum ekki kristin en erum þó óneitanlega ekki minni Íslendingar en þeir sem eru kristnir - eiga að geta sameinast í.
Skoðum textann:
Ó, guð vors lands! Ó, lands vors guð!Vér lofum þitt heilaga, heilaga nafn!Úr sólkerfum himnanna hnýta
þér krans
þínir herskarar, tímanna safn.
Fyrir þér er einn dagur sem þúsund ár
og þúsund ár dagur, ei meir:
eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár,
sem tilbiður guð sinn og deyr.:; Íslands þúsund ár, ;:
eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár,
sem tilbiður guð sinn og deyr.Ó, guð, ó, guð! Vér föllum fram
og fórnum þér brennandi, brennandi sál,
guð faðir, vor drottinn frá kyni til kyns,
og vér kvökum vort helgasta mál.Vér kvökum og þökkum í þúsund ár,
því þú ert vort einasta skjól.Vér kvökum og þökkum með titrandi tár,
því þú tilbjóst vort forlagahjól.:; Íslands þúsund ár, ;:
voru morgunsins húmköldu, hrynjandi tár,
sem hitna við skínandi sól.
Ó, guð vors lands! Ó, lands vors guð!Vér lifum sem blaktandi, blaktandi strá.,
Vér deyjum, ef þú ert ei ljós það og líf,
sem að lyftir oss duftinu frá.Ó, vert þú hvern morgun vort ljúfasta líf,
vor leiðtogi í daganna þraut
og á kvöldin vor himneska hvíld og vor hlíf
og vor hertogi á þjóðlífsins braut.:; Íslands þúsund ár, ;:
verði gróandi þjóðlíf með þverrandi tár,
sem þroskast á guðsríkis braut.Þetta er ekki eins og ég sé beðinn um að segja “guð hjálpi þér” sem er nánast orðið merkingarlaus frasi (og þó er ég hættur að nota hann). Nei, hér er fyrst guð ákallaður og svo er því lýst yfir að við lofum heilagt nafn hans. Síðan kemur einhver lýsing á heimsmynd hins trúandi manns, um eilífðina og herskara guðs og smáblóm sem tilbiður guð með titrandi tár og deyr. Og lagið er rétt að byrja. Næst er guð ákallaður aftur og honum sagt að við fórnum honum brennandi sál, þessum guði sem við erum nú farin að kalla drottinn. Svo höldum við því fram að hann sé eina skjólið okkar og hann hafi ákveðið forlög okkar. Guð ákallaður á ný [it just goes on and on...] og honum sagt að við munum deyja ef hann er ekki ljósið og lífið sem lyftir okkur upp úr duftinu, svo biðjum við hann um að vera okkur ljúfasta líf á hverjum degi og vera leiðtogi okkar í annríki hversdagsins og veita okkur svo hvíld á kvöldin og hlífa okkur og vera hertogi í þjóðlífinu. Að lokum biðjum við um að Ísland þroskist sem þjóðfélag á forsendum trúarinnar!
Og á ég að vilja taka mér þessi ósköp í munn? Í alvöru? Hvernig væri að biðja kristna Íslendinga um að lofsyngja í þjóðsöng sínum Allah með sama hætti? Ef þeir gætu ekki sætt sig við það, þá ættu þeir að skilja að fólk eins og ég hafi engan áhuga á að syngja þetta lag. Og þeir ættu að sjá sóma sinn í því að þröngva ekki upp á mig og um 8000 aðra Íslendinga öðrum eins texta í sjálfum
þjóðsöngnum sem er líka minn þjóðsöngur!
…ég hef ekki barist fyrir því að skipt verði um þjóðsöng. En það er út í hött að halda því fram að það sé fyrirfram kjánalegt að hugleiða það (eins og það sé kjánalegt að vera tillitssamur!) eða að það sé einhvern veginn til marks um öfgar. Það er ágætt að þú hafir fallist á að svo sé ekki. En núna ertu að gefa í skyn að þegar við veltum þessari spurningu fyrir okkur, þá sé einhvern veginn rétt að taka einungis tillit til viðhorfa kristinna Íslendinga til þjóðsöngsins eða að þeirra viðhorf vegi a.m.k. þyngra. Það finnst mér líka vera fráleitt. En mér þætti gaman að heyra hvernig í ósköpunum þú kemst að þeirri niðurstöðu.