Kant segir ekki að tími sé skynjun. Heldur segir hann að til þess að hrá skynjun geti orðið að reynslu þurfi hún að fara í gegnum ákveðinn filter (ekki hans orðalag reyndar), t.d. í gegnum orsakarhugtakið og tímahugtakið og rúm-hugtakið.
Tökum dæmi: Ég sé að sólin skín og ég sé stein. Ég sé ennfremur að steinninn hitnar. Allt er þetta skynjun. En til þess að þetta geti orðið reynsla þarf þetta að fara í gegnum orsakarhugtakið. Ég þarf að álykta sem svo að sólskinið sé orsök þess að steinninn hitnaði. Ef ég setti ekki skynjun mína í gegnum orsakarfilter væri þetta engin reynsla; ég gæti ekki sagt að ég hefði reynslu af því að sólskin hitaði steina.
En hvaðan koma þessi hugtök (tímahugtakið, orsakarhugtakið o.fl.)? Við getum ekki hafa fengið þau með reynslu vegna þess að án þeirra hefðum við enga reynslu, bara skynjanir sem við unnum aldrei úr. Við hljótum að hafa haft þessi hugtök áður en við öðluðumst reynslu (þess vegna eru þessi hugtök oft kölluð forskilvitleg (e. trancendental)).
Þessi hugtök eru ekki raunhugtök eða reynsluhugtök heldur skynsemishugtök. Skynsemin hefur gefið okkur þessi hugtök. Skylduhugtakið er dæmi um skynsemishugtak sem Kant segir í siðfræðinni sinni að hljóti að vera forskilvitlegt þar sem maður skynjar aldrei sjálfa skylduna. Þetta er sem sagt ekki raunhugtak heldur skynsemishugtak. Við fengum það ekki í gegnum skynjun heldur gaf skynsemin okkur það. Önnur svona hugtök eru t.d. einingarhugtakið, möguleikahugtakið.
En tímahugtakið og rúm-hugtakið eru ekki aðeins skynsemishugtök - þau eru form hugans. Sem sagt mannshugurinn hefur ákveðið form. Og allt sem kemur inn í hann t.d. í gegnum skynfærin þarf að passa í formið og þess vegna látum við skynjun okkar passa í formið með því að segja að þetta eða hitt hafi orsakað eitt og annað. Þessi form greinir Kant í tvennt, skynkvíar og hugkvíar. Skynkvíarnar eru filter fyrir skynjun okkar. Þau eru tímahugtakið og rúm-hugtakið. Hugkvíarnar eru filter fyrir skilning okkar (oft nefnd skilningshugtök). Þau eru t.d. orsakarhugtakið, einingarhugtakið, möguleikahugtakið o.fl.
En í raun vitum við ekki hvernig hlutirnir eru í sjálfum sér (Ding an sich). Við vitum bara hvernig þeir birtast okkur (Ding an mich). Við skynjum heiminn á ákveðinn hátt. Og við getum aldrei borið það saman við hvernig hann er í raun og veru. Við getum aldrei stigið úr úr sjálfum okkur og sagt “Já svona skynjaði ég heiminn… en svona er hann í raun og veru”.
Við skynjum heiminn alltaf eins og við skynjum hann. Og við skynjum hann í gegnum tíma- og orsakarhugtakið og fleiri hugtök. Og þar sem við skynjum heiminn ávallt í gegnum tímahugtakið getum við ekki vitað hvort tími er til í raun og veru. Eina sem við getum vitað er að okkur er ómögulegt að skynja nokkurn skapaðan hlut nema í gegnum tímahugtakið.
Sem sagt: Við vitum ekki hvernig hlutirnir eru sem valda skynjunum okkar, við vitum bara hvernig við skynjum þá. Við skynjum þá í gegnum tíma (getum ekki annað). En hvort tími er til í raun og veru má guð vita.
Kenning Kants er afar skemmtileg og frumleg. Ég er mjög hrifinn af henni. En ef þið eruð það ekki, í guðanna bænum ekki biðja mig um að verja hana. Ég er alls ekkert viss um að hún gangi upp. En hún er mjög flókin kenning. Hvort sem þið trúið því eða ekki er þetta afar einfölduð útgáfa af kenningu Kants. Kannski um of einfölduð? Þannig að ef þið eruð ekki sátt við kenninguna skulið þið frekar kynna ykkur hana betur en afskrifa hana. Hún er í raun þrautfáguð :)
Bið að afsaka óreiðukennda framsetningu þessa svars :)<br><br>__________________________
Aut tace aut loquere meliora silentio.
___________________________________