Þessi kenning sem ég var að tala um getur náttúrulega verið hættuleg, ef hún er túlkuð eins og einhver félagslegur Darwinismi. Ég gæti náttúrulega sagt að Gunni ætti bara skilið að deyja úr kransæðastíflu fyrst hann var svona vitlaus að geta ekki haft stjórn á sér. Og auðvitað getum við ekki sagt að allt sem fólk geri sé á einhvern hátt gott. Sumir eru náttúrulega ekki heilir á geði, hvort sem það er af félagslegum eða genetískum völdum, þeir afsanna auðvitað þessa kenningu.
Og við getum valið að gera annað en það sem samsamast náttúrulegum þörfum okkar. Þú getur haldið í þér andanum ef þú vilt, en á endanum verðurðu náttúrulega að anda. Við getum valið að gera illa hluti sem er ekki hægt að réttlæta. Þannig erum við frábrugðin dýrunum, þau geta ekki gert illt, hver dýrategund er algóð a.m.k. frá eigin sjónarhorni(?). Við höfum vilja til lífs, en við höfum líka vilja til valds. Og sumir hafa vilja til þess að gleyma raunveruleikanum og hugsa um eitthvað allt annað. Við getum upplifað óhlutbundin veruleika í hugarheimi okkar, við getum upplifað raunheiminn á fjölbreytilegan hátt og við getum búið til nýjar upplifanir í raunheimi. Þetta þjónar ekki vilja til lífs en er samt hluti af manninum.
“Að trúa á hið góða” er varhugaverð setning. Hún felur í sér að trúa á eitthvað. Að líta á heiminn sem baráttu milli góðs og ills er líka hættulegt. Einhver hérna sagði að hið góða gæti ekki verið til án hins illa. Þetta er mjög Biblíuleg hugmynd, sem gegnsýrir stærstan hluta hins vestræna heims. King Bush II talaði um illsku og baráttu milli góðs og ills í framhaldi af 11. sept. Bækur um heimsenda og uppgjör milli hins góða og illa seljast eins og heitar lummur á Amazon.com. Þetta er stórhættuleg hugmynd. Það eru ekki til algóðar eða alillar manneskjur. Hugsaðu þér, einhvern tímann var Hitler lítið saklaust barn sem einhver elskaði.
Einhver “góðtrúi” gæti tekið sig til og bannað fólki að borða of mikinn mat, af því það er ekki gott fyrir það. Nú er ég kominn út í pólitík, en ég verð að koma því að, að ég er alfarið á móti því að fólki sé bannað að gera hluti sem eru ekki sjálfu því góðir. Jæja, það var kannski enginn að tala um það. En samt, ef menn eru í baráttu við hið illa hljóta þeir að vera á móti því að fólk geri sjálfu sér illt, sem leiðir af sér fasíska forsjárhyggju.
And now to something completely different…Ég sá einhvers staðar tilgátu vísindamannsins James Lovelock um jörðina, s.k. Gaia Hypothesis. Hann lýtur á jörðina og lífríkið sem eina lifandi og sjálfskipuleggjandi (self-organizing) veru. Þessi vera hefur náttúrulegan vilja og með tímanum, ef ekki nú þegar, mun hún öðlast meðvitund og sameiginlega greind ( collective intelligence). Mannfólkið í allri sinni dýrð og fjölbreytileika er eins og taugafrumur í heila Gaiu. Með samskipta- og upplýsingabyltingu nútímans eru hugar fólksins að tengjast saman í flókið ólínulegt netkerfi. Þegar nægilegum fjölda og fullkominni samtengingu verður náð, öðlast Gaia sjálfstæðan vilja. Klikkuð kenning? Tilgangur lífsins anybody? Minnir mig á stefnu Nietzsche að “þjóna tilgangi jarðarinnar.” Ég skal ekki segja, en mér fannst þetta einhvern veginn passa við það sem ég sagði áður í sambandi við Schopenhauer og vilja til lífs.
Málverkið gengur ekki sem skildi, ég er að hugsa um svo margt annað :)