Ósannreynanlegt mat einstaklinga dettur mér í hug (wannabe staðreynd ;). Að mínu viti eru til lélegar skoðanir og góðar skoðanir. Fordómar eru oftast dæmi um lélegar skoðanir þar sem þeir byggja oftar en ekki á hugsanaleysi (eins og gefið er í skyn í sjálfu orðinu) og fáfræði. Sjálfur tók ég próf til að rannsaka eigin fordóma, þá kom í ljós að ég hef enga fordóma gagnvart einstaklingum þeirra stjórnmálaskoðana sem mér er illa við. Hinsvegar hef ég fordóma gagnvart gömlu fólki (kom sjálfum mér á óvart). Útskýringuna tel ég vera þá, að ég hef kynnt mér þessar stjórnmálaskoðanir vel á meðan ég er afar fáfróður um elli og ástand eldri borgara.
Góð skoðun er sú sem hefur verið úthugsuð, athugað hvort hún sé mótsagnakennd á einhvern hátt, sé sennileg út frá þekktum staðreyndum og þekkingaröflun hefur átt sér stað.
Þess vegna fer það virkilega í mig þegar fólk segir: “Þetta er bara mín skoðun”. (Er það ekki fucking augljóst!). Hinsvegar er fátt jafn óáhugavert og léleg skoðun. Hvaða pókerspilari biður ömmu sína sem aldrei hefur séð spil áður um ráð í póker? Mat hennar á næsta skrefi í leiknum er líklegast lélegt.
Skoðanir eru þ.a.l. ekki heilagur hlutir sem fólk á að virða eins og kýrnar í Indlandi. Sumar eru vissulega svo lélegar að það má grýta þær þar sem þær standa. En að sjálfsögðu er allt annar hlutur að gagnrýna skoðun og að ráðast að fólki fyrir að hafa ákveðna skoðun (í mesta lagi mætti gagnrýna það fyrir að hugsa ekki nógu vel um málið).
Annars á ég enga nákvæma skilgreiningu á því hvað skoðun er, þ.e.a.s. í raun hef ég bara skoðun á því hvað skoðun er (blahblahblah). Skoðun er ekki staðreynd. Hún er líklega ósannreynanleg, hana má dæma sem líklega rétta eða ólíklega í besta falli út frá öðrum staðreyndum. Þegar menn sannfærast um að skoðun sé rétt er hún varla skoðun lengur heldur staðreynd eða hvað? Svo þetta er einhverskonar grundvallarlaus staðreynd…