Raunhyggja kennir ekki að við sjáum hluti í réttu ljósi; það væri ef til vill raunsæi eða eitthvað álíka.
Thossinn bendir réttilega á að raunhyggja sé þýðing á empiricism úr ensku. Þetta er þekkingarfræðilegt viðhorf sem felur í sér að öll þekking byggi á reynslu. Auðvitað byggir þekking líka á skynsemi en samkvæmt raunhyggju höfum við þau hugtök sem skynsemin styðst við einnig frá reynslunni. John Stuart Mill gekk meira að segja svo langt að halda því fram að við hefðum talnahugtök okkar af reynslu. En raunhyggjan varð til sem andsvar við rökhyggju (rationalism) sem menn eins og Descartes, Spinoza og Leibniz héldu fram. Samkvæmt rökhyggju er skynsemin uppspretta þekkingar, jafnvel á þann hátt að menn hafi meðfæddar hugmyndir. Þessu er John Locke að neita þegar hann segir að mannshugurinn sé tabula rasa við fæðingu, þ.e.a.s. óskrifað blað.
Eftir raunhyggjuna var uppi maður að nafni Immanuel Kant sem er einn áhrifamesti og merkasti heimspekingur nýliðins árþúsunds (að mínu mati í það minnsta). Hann sameinaði rökhyggjuna og raunhyggjuna í þekkingarfræði sinni. Það gekk reyndar ekki fullkomlega upp og þó til séu nýkantistar í dag eru einnig til gallharðir raunhyggjumenn (rökfræðilegir raunhyggjumenn (logical positivism eða logical empiricism á ensku), eins og m.a. Rudolf Carnap og A.J. Ayer, voru t.d. gallharðir raunhyggjumenn á fyrri hluta 20. aldar og menn eins og V.W.O Quine í Bandaríkjunum á síðari hluta 20. aldar).
Um þetta mætti segja mjög mikið, ég vona að ég hafi samt náð að svara spurningunni og gefa einhverja hugmynd um það hvað raunhyggja er.<br><br>__________________________
Aut tace aut loquere meliora silentio.
___________________________________