Já, við erum farnir að fjarlægjast hvor annan held ég. En mér þykir þetta samt áhugavert, svo ég ætla að reyna að koma auga á flækjuna.
Í fyrsta lagi þá var spurningin ‘hvað er góður heimspekingur?’ en ekki ‘hvað finnst þér vera góður heimspekingur?’. Þarna er oftast enginn munur á milli. Ég gekk út frá mun þarna á milli. Hið fyrra er spurning um merkingu - vegna þess að (að mínu viti) er það eina leiðin til að fullnægja einhvers konar algildisþörf heimspekinnar. Þetta er ekki hið hefðbunda algildi, heldur eitthvað sem mér finnst að eigi að koma í þess stað.
Í öðru lagi þá vil ég spyrja þig að þessu: þegar einhver svarar seinni spurningunni þinni, þ.e. þegar upptalningunni er lokið og einhver spyr 'hvað er góður heimspekingur?’, og segir frá tilteknum mælikvörðum. Hvort hefur hann þá sagt hvað góður heimspekingur er eða hvað honum finnst vera góður heimspekingur, hvaða reglu hann setur um notkun þessa frasa? Og það sem meira er hvort er almennara, og því í einhverjum skilningi heimspekilegra?
Í þriðja lagi var ‘með góðu móti’ ekki rétt orðalag. Ég átti við að það væri eðlilegt, frekar en óeðlilegt og illskiljanlegt, að kalla x góðan heimspeking. En það er rétt hjá þér að þetta er kannski ekkert annað en réttlæting.
Í fjórða lagi ættum við að tala aðeins um hnífa. Ef ég spyr, ‘hvað er góður hnífur?’ og þú segir, ‘góður hnífur er hnífur sem bítur vel’ – þá hefurðu einfaldlega búið til reglu. Þú kallar þá hnífa góða sem bíta vel. Ef hann bítur illa, þá er hann ekki góður. Erum við einhverju nær um góða hnífa? Kannski, kannski ekki. Þú gætir jafnvel sagt að góður hnífur nýtist vel í ‘eiginverki’ sínu, sem er að bíta vel. En nú er reglan bara orðin almennari vegna þess að eiginverk gæti verið hvað sem er. Þannig er þetta seinna skref svolítið innantómt – það er ósköp lítið hægt að gera við orð einsog ‘eiginverk’.
Hnífur getur verið góður vegna þess að hann færir manni lukku, hann er gjöf frá guðunum, hann er gott veggskraut, hann hefur varðveitzt vel. –En þetta eru ekki ‘eiginverk’ hnífa?!
Hvers konar andmæli eru þetta? Verðum við einhverju nær um eðli hnífa ef við setjum þessa reglu? Manni gæti virzt svo vera, en það er tálsýn.
Ef þetta væri eitthvað annað en málfræðileg regla (og þess vegna virðist þetta vera svo almenns eðlis) þá væri skurðhnífur alltaf bezti hnífurinn. M.a.s. til að skera brauð. Og hér er sterk tilhneiging til að segja, ‘góður hnífur er sá hnífur sem er nógu beittur til að framkvæma eiginverk sitt vel’. Og þá er ‘eiginverk’ notað í merkingunni: það sem hnífinn á nota til, hvort sem það er að skera brauð eða sjúklinga.
Hvað höfum við að gera með þetta?! Enn og aftur er þetta niðurstaða, regla sem einhver ákveður að setja. Auðvitað eru svona reglur áhugaverðar, en tungumál stjórnast ekki af reglum. Við notum reglur til viðmiðunar, við berum það sem við segjum saman við reglur.
Þannig ættum við að hugsa öðru vísi um spurninguna. Góður hnífur er í grundvallaratriðum það sem kallað er (á skiljanlegan hátt) ‘góður hnífur’. Beittir hnífar eru kallaðir góðir hnífar,- til dæmis!
Um leið og ‘til dæmis’ fær að koma þarna á eftir, þá erum við farnir að hugsa rétt um það sem kalla mætti ‘eðli’. Eðli hluta er margvíslegt, en ekki eitthvert eiginverk.
En þetta er hættulegt orð, svo ég er hættur í bili.
Já, hvort hefur hann sagt hvað er góður heimspekingur eða hvað honum finnst góður heimspekingur? Hann hefur sagt, hvað honum finnst vera góður heimspekingur; hann gæti líka hafa sagt hvað einhverjum öðrum finnst vera góður heimspekingur og útskýrt ástæður þess að þeim hinum sama fannst það. Svo ég vitni nú í sjálfan mig, þá er ekki kostur á annars konar svörum; það er hægt að fá misgáfulegar skoðanir (á því hvað felst í því að vera góður heimspekingur) og rökin fyrir þeim.
Þegar þú efast um þetta, þá finnst mér eins og þú sért að leita að hinu falda eðli; það sé hægt að segja hvað sé góður heimspekingur (eins og það sé ekki á endanum spurning um smekk að einhverju leyti - gildismat er óaðskiljanlegur þáttur í slíku svari).
Hvað er góður körfuboltaleikmaður? Jah, það hlýtur að vera sá sem leikur körfubolta vel í einhverjum skilningi; sá sem neitaði því væri að misskilja orðið “góður” í þessu samhengi (eða veit ekki hvað körfuknattleikur er); en hvað er fólgið í því að spila vel? Mér finnst það vera sá sem gerir þetta og hitt af því blablabla. Félaga mínum finnst hins vegar mikilvægara að hann geri svona og hinsegin af því að þá… Við félagarnir höfum ólíkar skoðanir á þessu og af því leiðir að við myndum telja upp ólíka menn ef beðnir um að gefa dæmi (enda væri þá eðlilegt að spyrja okkur við hvað við miðuðum þegar við teljum upp dæmin). En hvorugur okkar hefur rangt fyrir sér. Það er bara engin staðreynd um hvað er góður körfuknattleiksmaður umfram þá trivial staðreynd (sem felst í merkingu orðanna) að hann leiki körfuknattleik í einhverjum skilningi vel.
Það sama á vitaskuld við um heimspekinga. Góður heimspekingur er einhvern veginn góður í að stunda heimspeki (en ekki t.d. heimspekingur sem er góður við börn og hunda); en hvað felst í því að vera góður í heimspeki? Ég get haft mína skoðun á því og þú þína. Hvorugur okkar hefur þá rangt fyrir sér, þótt skoðanir annars okkar geti vissulega verið mótsagnakenndari eða snjallari o.s.frv.
Ég geng líka út frá mun á “hvað er góður heimspekingur?” og “hvað finnst þér vera góður heimspekingur?” eins og þú hefur sennilega tekið eftir en ég er sennilega ekki sammála þér um muninn. Ég held nefnilega að ef spurningarnar eru skildar bókstaflega, þá sé ekkert svar við þeirri fyrrnefndu (það er nefnilega ekkert falið eðli góðra heimspekinga, ekki einu sinni falið í merkingu orðanna). Þess vegna er eðlilegast að skilja fyrrnefndu spurninguna þannig að hún merki það sama og sú síðari. Rétt eins og ef einhver lýsir yfir “þetta er fallegt málverk”; viðkomandi meinar þá að líkindum að honum þyki málverkið fallegt en ekki að það sé staðreynd að málverkið sé fallegt.
Ef spurningin væri ekki “hvað er góður heimspekingur?”, heldur “hvað er fallegt málverk?”, þá myndir þú ekki halda að það nægði að telja upp dæmi. Þú myndir verða að segja "Fallegt málverk er málverk sem þykir [gildisdómur innifalinn] fallegt“. Og ef viðkomandi spyr hvað felst í því, þá geturðu lýst skoðunum þínum og annarra: ”Mér finnst þau falleg sem eru litrík o.s.frv.; Jóni finnst þau falleg sem eru eins lík raunveruleikanum og mögulegt er - eins og ljósmyndir nánast; Birni finnst aðallega málverk með blómum falleg af því að hann elskar blóm…“ En að halda því fram að einhver málverk séu falleg (jafnvel í raun og veru) er bara steypa. Og það er ekki hægt að útskýra hvað er fallegt málverk án þess að annaðhvort falla aftur á lágmarksskilgreininguna (þau málverk sem einhverjum þykir falleg) eða með því að útskýra smekk fólks.
Það sama á við um heimspekinga. Það svarar ekki spurningunni að telja upp dæmi. Lágmarksskilgreininig (sem er fólgin í merkingu orðanna) væri ”góður heimspekingur er heimspekingur sem er góður [gildisdómur innifalinn]/þykir [gildisdómur innifalinn] góður í heimspeki.“ En hvað felst í því að vera góður í heimspeki? Þegar svona er spurt geturðu sagt: ”Mér finnst það vera … en Guðmundi finnst það vera … af því að …; í gegnum tíðina hefur það þótt vera … sennilega af því að…" En þetta eru ekki staðreyndir, þetta er bara smekkur manna, þinn smekkur, smekkur vinar þíns og fólks fyrr á öldum.
Vandinn við að læra hvað sé góður heimspekingur með því að skoða alla heimspekinga sem hafa verið taldir góðir (fyrir utan að það sé villandi orða það þannig að eihver sé góður heimspekingur) er sá að þá kemur upptalning á fólki sem er með í upptalningunni af ólíkum ástæðum. Einhver var lengi talinn góður heimspekingur og þess vegna er sá á listanum en einhver annar er á listanum af því að einhver annar taldi hann góðan af allt öðrum ástæðum (og sáhinn sami hefði t.d. ekki talið fyrrnefnda heimspekinginn góðan). Það spyrjandinn fær er sem sagt listi af fólki sem var talið góðir heimspekingar af ólíkum ástæðum,út frá ólíku gildismati, án þess að þetta gildismat sé útskýrt.
Ég veit ekki hvers vegna þú kýst að kynna til sögunnar aristótelískt hugtak, eiginverk, en það sem ég hef sagt gæti gilt líka um eiginverk. Það er að segja, það mætti líta á það sem eiginverk heimspekinga að stunda heimspeki og þá er góður heimspekingur sá sem er góður í heimspeki, en það er samt hægt að hafa skiptar skoðanir á því hvað felst í því. En ég hef engan áhuga á að nota hugtakið eiginverk hér. Hvað hnífa varðar, þá er málið flóknara því að skurðhnífur er alls ekki besti hnífurinn til þess að skera brauð. En látum eiginverk eiga sig, þau flækja bara málin með aristótelískri eðlishyggju.
___________________________________
0