Ég hef tvennt við þetta að athuga. Misskildu mig samt ekki sem svo að ég sé ekki opinn fyrir víðari skilningi á heimspeki; skilgreiningin á það hins vegar til að verða allt of víð hjá fólki og þess vegna finnst mér rétt að ögra hugmyndum fólks stundum.
Í fyrsta lagi er orðið “heimspeki”, þótt margrætt sé, öðru fremur notað sem þýðing á “philosophy” og skyldum orðum; en það eru orð sem standa fyrir gríska rökræðuhefð sem við höfum þegið í arf, eins og svo margt annað úr fornöld. Í ákveðnum skilningi má því segja aðþað sem stendur utan þessarar hefðar og er ekki í tengslum við hana sé ekki heimspeki. Taktu eftir að fræðigreinin heimspeki, sem er kennd í skólum úti um allar jarðir, er einmitt skilgetið afkvæmi þessarar hefðar. Þetta er í raun kjarnamerking orðsins og önnur notkun orðsins er meira og minna öll með hliðsjón af þessu.
Í öðru lagi (jafnvel þótt við einskorðum ekki notkun orðsins “heimspeki” við gríska rökræðuhefð og hennar Nachleben) þá eru bersýnilega ekki allar hugleiðingar heimspeki, ekki einu sinni þótt þær fjalli að verulegu leyti um sama efni. Til dæmis hafa heimspekingar fjallað um ríkisvald en það er ekki öll umfjöllun um ríkisvald stjórnmálaheimspeki, heldur er henni stundum betur lýst sem stjórnmálafræði; viðfangsefni stjórnmálaheimspeki og stjórnmálafræði getur verið það sama en greinarnar fjalla þá ekki á sama hátt um viðfangsefni sitt.
Á sama hátt er ekki öll umfjöllun um vitund og hvernig hún virkar heimspeki. Stundum er henni betur lýst sem vísindum; stundum er henni kannski betur lýst sem einhvers konar dulspeki.
Ég er enginn sérfræðingur um jóga, en ég sé ekki í fljótu bragði að hún flokkist sjálfkrafa sem heimspeki þrátt fyrir að hún fjalli um vitundina og hvernig hún virkar. Með þessu er ég ekki endilega að segja að hún geri það alls ekki, megi bara alls ekki kallast heimspeki. Eins og ég sagði í upphafi er ég meira að ögra núna. En ef við köllumjóga heimspeki, þá gerum við það fyrst og fremst andspænis bakgrunni þessarar grísku rökræðuhefðar sem ég minntist á áðan og arfleifðar hennar og þá má spyrja á hvaða forsendum við gerum það; hvað í fari jóga gerir að verkum að við viljum kalla það sama nafni og heimspeki. Það eitt að fjalla á einhvern hátt um vitundina - sem sagt eitt viðfangsefni sem fjallað hefur verið um í heimspeki líka - finnst mér frekar þunnt.
___________________________________