Nákvæmlega! Menn geta haldið einhverju fram og það sem þeir segja er annað hvort rétt eða rangt jafnvel þótt enginn viti enn þá hvort það sé rétt eða rangt.
Þú virðist hins vegar ekki vera sammála þessu enda segirðu
Mér finnst að það sé ekkert rétt eða rangt…..það sé bara skoðun á hlutum…..en ef að það er búið að sanna að hlutur sé e-ð t.d. að jörðin sé hnöttótt…..þá er sá aðili sem heldur því fram að hún sé e-ð annað…hann hefur rangt fyrir sér =)
Í fyrsta lagi ertu að andmæla sjálfum þér með því að segja að það sé ekkert rétt eða rangt en samt hafi þeir sem andmæla einhverju sem búið er að sanna rangt fyrir sér.
Í öðru lagi gengur það ekki upp að sönnun geri fullyrðingu rétta eða ranga. Hún getur
sýnt okkur að eitthvað sé rétt eða rangt en hún
veldur því ekki að eitthvað sé rétt eða rangt. Enda þarf eitthvað að vera rétt til þess að hægt sé að sanna það.
Ef ekkert væri rétt eða rangt - eins og þú segir - þá væri einmitt
ekki hægt að sanna að hlutur sé eitthvað, t.d. að jörðin sé hnöttótt. Hvernig hefðu til dæmis menn fyrr á öldum átt að sanna að jörðin snerist um sólina ef það var ekki þá þegar rétt (áður en þeir fundu og settu fram sönnunina fyrir því) að jörðin snerist í kringum sólina? Að sanna að jörðin snúist um sólina er jú ekkert annað en að sýna með óyggjandi hætti að það sé
rétt að jörðin snúist um sólina.
Það er þetta sem ég var að reyna að skýra út fyrir þér í síðustu efnisgreininni sem þér fannst ruglandi: Hugmyndin um að það sé hægt að sanna eitthvað gerir ráð fyrir að það sé eitthvað sem er rétt eða rangt - öfugt við það sem þú segir, að það sé ekkert rétt eða rangt, heldur bara skoðanir.
Að lokum smá umhugsunarefni fyrir þig: Ef ekkert er rétt eða rangt, þá getur þessi hugmynd þín um að ekkert sé rétt eða rangt ekki verið rétt.