Ég var einmitt að velta því fyrir mér hvort það færi ekki einhver að taka af skarið og útskýrði hvers vegna hann/hún teldi að röksemdafærslan væri gild/ógild. Það er athyglisvert að flestir svarenda (40% þegar þetta er skrifað) telja að röksemdafærslan sé gild!
En það er auðvitað laukrétt sem þú bendir á, að röksemdafærslan er ógild vegna formlegs galla; niðurstöðuna leiðir ekki af forsendunum. Og það kemur málinu alls ekki við hvort “niðurstaðan” er sönn eða ósönn því meint niðurstaða gæti vitaskuld verið sönn en samt ekki leitt af forsendunum - og þar með væri röksemdafærslan sem slík enn ógild.
Það getur auðvitað verið að margir þekki ekki muninn á gildri og ógildri röksemdafærslu og skilji einfaldlega ekki hvað átt er við með orðunum. Samt sem áður er spurt hvað fólk heldur um röksemdafærsluna (en ekki t.d. niðurstöðuna) og það er merkilegt að helmingurinn sjái ekkert athugavert við hana; eða, ef ástæðan er sú að menn þekki ekki muninn á gildri og ógildri röksemdafærslu, að þeir geri sér þá ekki grein fyrir að þeir viti ekki hvað gild og ógild röksemdafærsla er og svari frekar að þeir viti ekki hvort röksemdafærslan sé gild eða ógild (eins og 30% svarenda hafa gert þegar þetta er skrifað).
En nú geta notendur leikið sér að því að búa til skemmtilega ruglaðar röksemdafærslur hliðstðar þessari. Til dæmis: Ef skjaldbaka er forseti Íslands, þá er forseti Íslands lífvera. Og forseti Íslands er lífvera. Þess vegna er forseti Íslands skjaldbaka.
___________________________________