Ég efast stórlega um að það sé til heimspekilegt svar við spurningunni, enda sé ég ekki að spurningin sé sérstaklega heimspekileg.
Þú spyrð hvers vegna við lesum bækur og svarið er: Það eru ýmsar ástæður fyrir því, m.a. til afþreyingar, ánægju og yndisauka og til að fræðast.
Þú spyrð hvers vegna bækur eru notaðar sem afþreying. Og svarið við því er einfaldlega að fólki finnst bækur vera góð afþreying; því finnst gaman að lesa bækur, það styttir þeim stundir því þeim finnst þær vera spennandi, fyndnar eða áhugaverðar, þlr gefa fólki nýjar hugmyndir o.s.frv.
Þú spyrð hvers vegna bækur eru til prófs og hvers vegna þær eru notaðar í kennslu. Svarið er einfaldlega það að ritað mál er hagkvæmasta leiðin til að geyma og miðla fróðleik sem við þekkjum. Þess vegna eru bækur notaðar í kennslu og þær eru settar fyrir til prófs. Með þessu er ekkert sagt um tilganginn með fræðslu yfirleitt en hann ætti að vera fremur augljós.
Tilgangur allrar fræðslu, þ.m.t. bóknáms, er að miðla þekkingu og reynslu. Og hvers vegna erum við að því? Jú, til þess að undirbúa fólk fyrir lífið, gera því kleift að skilja sig betur, og samfélag sitt og heiminn og stöðu okkar í samfélagi okkar og heiminum, bæði til þess að því líði sjálfu vel í lífinu og til þess að það geti orðið góðir og gegnir þjóðfélagsþegnar.
Nemurðu spekina?
___________________________________