Látinn er Þorsteinn Gylfason, heimspekingur. Þorsteinn var prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands en þar hafði hann kennt Íslendingum að fást við heimspeki á íslensku frá 1971.

Þorsteinn brautskráðist frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1961 og hélt þaðan í nám til Bandaríkjanna. Hann lauk námi í heimspeki frá Harvard háskóla árið 1965 en stundaði framhaldsnám og rannsóknir í heimspeki við Oxford háskóla á Bretlandi árin 1965-1971.

Fáir hafa gert jafn mikið og Þorsteinn Gylfason fyrir íslenska heimspeki á síðari árum. Þorsteinn kenndi öllum kynslóðum íslenskra heimspekinga sem numið hafa heimspeki við háskólann frá því að byrjað var að kenna þar heimspeki til BA prófs. Hann smíðaði fjöldan allan af nýyrðum og segja má að hann hafi kennt mörgum okkar að kljást við heimspeki á íslensku. Þorsteinn var líka mikilvirkur þýðandi og þýddi fjölda heimspekiverka og ljóða.

Þorsteinn stofnaði ritröðina Lærdómsrit Hins íslenzka bókmenntafélags og ritstýrði henni í 27 ár. Hann stofnaði einnig ritröðina Íslensk heimspeki (Philosophia Islandica) sem Hið íslenzka bókmenntafélag gefur einnig út. Þorsteinn var forstöðumaður Heimspekistofnunar Háskóla Íslands árin 1982-1991 og var kjörinn heiðursfélagi í Félagi áhugamanna um heimspeki á aðalfundi þess 17. mars 2004. Þakkarræða Þorsteins er birt hér á Heimspekivef Háskóla Íslands en í ræðunni fjallar Þorsteinn m.a. um heimspekiáhuga sinn frá æsku.

Þorsteinn fékkst einkum við stjórnmálaheimspeki, heimspekilega sálarfræði (philosophy of mind) og málspeki (philosophy of language). Helstu verk Þorsteins eru bækurnar Tilraun um manninn (1970), Tilraun um heiminn (1992), Að hugsa á íslenzku (1996) og Réttlæti og ranglæti (1998).
___________________________________