Ég gæti alveg trúað því að orðið ætti að vísa til rökvillu sem þekktust er af ensku heiti sínu, “slippery slope”, en á íslensku er oftast talað um fótfesturök.
Svoleiðis rök ganga út á að ef maður fellst á eitthvað, þá verði maður að samþykkja næsta skref og svo næsta og þannig áfram þannig að maður nær engri fótfestu og allt endar svo með ósköpum, því þegar maður hefur misst fótfestuna hrapar maður stjórnlaust og lendir síðan vitaskuld á óæskilegum slóðum.
Svona rök eru ekki alltaf ógild, en það þarf reyndar aukaleg rök í hvert sinn til að sýna að hinar slæmu afleiðingar hljóti að fylgja; það leiðir nefnilega ekki af því einu og sér að maður tekur einhverja ákvörðun að slæmar afleiðingar fylgi.
Það eru til nokkur afbrigði þessara raka. Eitt afbrigðið er “dómínó kenningin” sem er einnig nefnt “snjóboltavilla”: Ef þú framkvæmir athöfn A, þá mun B líka gerast og C og D, síðan E o.s.frv.
Annað afbrigði er kallað “litlafingursreglan”: Ef þú samþykkir A, þá setur það fordæmi og næst verðu þú að samþykkja B og svo C og á endanum siturðu uppi með D og E og getur ekkert gert í því af því að þú samþykktir jú upphaflega A.
Eftirfarandi eru dæmi um fótfesturök (gild eða ógild, þið dæmið):
A) Ef við lögleiðum fóstureyðingar, þá er næsta skrefið að lögleiða líknardráp og síðan jafnvel mannkynbætur með því að drepa sjúka og óhrautsa einstaklinga.
B) Ef við lögleiðum kannabisefni byrjar fólk næst að biðja um lögleiðingu amfetamíns og kókaíns og þar sem við samþykktum kannabisefnin, þá verðum við að samþykkja harðari efnin líka.
C) Ef þú byrjar að neyta kannabisefna, þá ferðu fljótt að neyta harðari efna líka og á endanum verðurðu sprautufíkill.
D) Ef við lækkum lágmarksaldur til áfengiskaupa í átján ár, þá verður næst barist fyrir 17 ára aldurstakmarki, síðan 16 árum og á endanum geta krakkar í gagnfræðiskóla keypt sér áfengi.
E) Ef við hækkum bílprófsaldurinn í 18 ár, þá fækkar ef til vill slysum ungra ökumanna eilítið en þá mun löggan leggja til að aldurinn verði enn færður upp til að fækka slysum meir. Áður en við vitum af því þarf maður að vera 23 ára til að fá að aka bíl.
F) Ef við einkavæðum orkustofnanir í landinu þá endar það með ósköpum þar sem við búum fyrr en varir í landi með einkavætt heilbrigðiskerfi, einkavætt menntakerfi og einkavædda lögreglu. Vilt þú búa í landi þar sem löggan er einkarekin?
G) Ef stjórnendur á Huga.is eyða skítkasti og öðru efni sem þeim þykir ekki við hæfi, þá verður á endanum ekki hægt að tjá sig á vefnum vegna þess að einhver þykist vera móðgaður af því sem maður skrifar.
H) Ef stjórnendur á Huga.is draga ekki mörkin einhvers staðar og eyða skítkasti og efni sem ekki er við hæfi, þá verður á endanum ekki vært á þessum vef vegna dónaskapar og bulls frá ungum eða seinþroskuðum notendum.
___________________________________