Þetta er auðvitað hárrétt hjá þér, popcorn. Ég tók ekki dæmi af stjórnspekikenningum en auðvitað er auðveldara að sjá tengingu milli þeirra og þess hagkerfis sem heimspekingar búa við. En mér til varnar bendi ég á að ég vildi fyrst og fremst grafa undan þeirri fullyrðingu að kenningar heimspekinga og heimspeki almennt séu háðar því hvaða hagkerfi þeir búa við og ráðist af því. Þess vegna er kannski ekki skrítið að ég hafi reynt að taka skýr dæmi frekar en jaðardæmi.
Úr því að þú setur lítið spurningamerki við frjálshyggjuna og hvort hún sé heimspekistefna er rétt að geta þess að sumar stjórnmálastefnur eins og frjálshyggja geta líka verið heimspekistefnur en taka þá oft á sig aðra mynd. Ekki er eins farið með orðin í stjórnmálaheimspeki og í stjórnmálum og stundum merkja þau hreinlega ekki það sama. Þá er það ekki til að einfalda málið að innan heimspekinnar merkja sum orðin ólíka hluti eftir tímabilum heimspekisögunnar, rétt eins og í stjórnmálum merkja orðin ekki endilega það sama í ólíkum löndum (sbr. frjálslyndur í BNA, Íslandi og Evrópu). John Stuart Mill er frjálshyggjumaður; Robert Nozick líka. En ég er hræddur um að þeir ættu erfitt með að vera saman í þingflokki :)
Feminismi eða kvenhyggja er í grundvallaratriðum það sjónarmið að konur standi ekki jafnfætis körlum en úr því þurfi að bæta. Þetta er vitaskuld ekki skilgreining en þó e.t.v. kjarninn í kvenhyggjunni. Tengingin við stjórnmál og þjóðfélagsumræðu er augljós. En á konur getur hallað víðar en á launamarkaði. Í fræðunum er því stundum haldið fram að ranglætið sé miklu dýpra. Til dæmis hefur verið lagt til að réttlætishugtakið sé karllægt hugtak - karlahugtak - að tungumálið sé karllægt, að það sé eðlislægur munur á körlum og konum, að það sé ekki eðlislægur munur á körlum og konum o.s.frv. Hugmyndir feminista í heimi fræðanna eru einfaldlega svo margbreytilegar að ég treysti mér ekki lengur til að segja út á hvað þær ganga umfram það sem ég nefndi hér að ofan. Sumar þessar hugmyndir eru ekki jafnaugljóslega tengdar neinum hagfræðipælingum og tal um t.d. kynbundinn launamun.
___________________________________