Já, er það virkilega? Þakka þér fyrir að segja mér hvað heimspeki er. Hvað veit ég svo sem um það, ég hef bara BA gráðu í heimspeki, hef verið aðstoðarkennari í heimspekinámskeiðum við Háskóla Íslands og stunda doktorsnám í heimspeki og fornfræði við Princeton háskóla…
Ég bara kannast ekki við svona heimspeki, því miður.
Það er auðvitað satt og rétt að heimspekingar hugsa stíft um áleitnar og erfiðar spurningar og reyna að komast að skynsamlegu svari um tilveruna. En eins og ég benti á er þessi spurning bara þess eðlis að það er ekki hægt að vita eitt eða neitt um það sem þú spyrð. Við getum beitt ímyndunaraflinu, en þar sem það væri hvort eð er ekki hægt að sannreyna svörin (né hrekja þau) jafngildir það því að bulla um hluti sem maður veit ekkert um.
Að því gefnu að lífið sé draumur, þá höfum við - persónur í draumnum - ekki aðgang að upplýsingum um hvað gerist þegar við vöknum (eða einhver vaknar). Það er ekki hægt að reikna út svarið og það væri ekki mögulegt að hafa neina reynslu sem varpaði ljósi á málið. Þar að auki er fullkomlega óljóst hvers vegna nokkur maður ætti að fallast á það sé yfirleitt sennilegt að lífið sé draumur; og þá má spyrja hvaða ljósi þessi spurning og svar við henni varpar á tilveruna eða nokkurn skapaðan hlut.
Ég gæti alveg eins spurt: Ef tunglið er úr osti, úr hverju er þá Venus? Í fyrsta lagi, að því gefnu að tunglið sé úr osti, þá leiðir ekkert af þeirri staðreynd um reikistjörnuna Venus; í þessu tilviki, ólíkt tilfellinu með drauminn, væri þó hægt að ganga úr skugga um úr hverju Venus væri með því að athuga málið, gera tilraunir o.s.frv., en það væri ekki hægt í draumatilfellinu þar sem engin reynsla gæti mögulega gefið vísbendingu um hvert svarið væri og því er sú spurning jafnvel enn tilgangslausari fyrir vikið. Í öðru lagi myndi enginn fallast á að tunglið sé úr osti og þá skiptir harla litlu máli úr hverju Venus myndi vera ef tunglið hefði verið úr osti; svarið myndi ekki varpa ljósi á eitt eða neitt. Dæmið er hliðstætt vegna þess að þótt gert sé ráð fyrir að lífið sé draumur, þá leiðir ekkert af því um hvað gerist þegar við vöknum og því til lítils að spyrja um það. Og í öðru lagi er engin skynsamleg ástæða til að ætla að lífið sé draumur og þar með er óljóst hvað svarið á að sýna okkur, jafnvel þótt hægt væri að komast að einhverri niðurstöðu.
Þú afsakar vonandi, það er ekki markmið mitt að vera leiðinlegur. Ég sé bara ekki að þetta eigi neitt skylt við heimspeki.
Það hefur nú lengi verið klisja meðal heimspekinga að sá sé vitur sem veit að hann veit ekki neitt. Þannig lýsti Sókrates sjálfum sér meðal annars; sannkleikskornið í klisjunni er að það felst viska í því að vita takmörk þekkingar sinnar. Er þá ekki við hæfi að heimspekingur bendi á það þegar það er ekki hægt að gefa skynsamlegt svar við tiltekinni spurningu vegna þess að jafnvel þótt skilyrðið í spurningunni væri uppfyllt þá hefðum við ekki aðgang að viðeigandi upplýsingum? Sú ábending er að mínu mati eina skynsamlega svarið: Ef lífið er draumur, hvað gerist þá þegar við vöknum? Við getum ekki vitað neitt um það.
___________________________________