Ég held ég skilji þig. Þú átt við að setning eins og “guð er til” sé afsannanleg vegna þess að það er enginn sem fært getur svo góð rök fyrir henni að ekki megi hrekja þau. Þetta er svolítið annar skilningur en ég lagði í orðið “afsannanlegur” og það er gott að það komi fram til að fyrirbyggja frekari misskilning.
En í hnotskurn sýnist mér þú vera að nota orðið “afsannanlegur” til að gefa til kynna að það sé ekki hægt að sanna endanlega tiltekna setningu. Mér sýnist það ekki endilega þurfa að prýða setningu til þess að hún hafi sanngildi. Þú nefndir sannanir og þá dettur mér í hug stærðfræðilegar sannanir. Setningin “allir þríhyrnar hafa hornasummu sem er 180°” er sannanleg í evklíðskri rúmfræði og setninguna “að forsendum evklíðskrar rúmfræði gefnum hafa allir þríhyrningar hornasummu sem er 180°” sem er ekki setning innan evklíðskrar rúmfræði (en þó um evklíðska rúmfræði) ætti líka að vera hægt að sanna með því að sanna fyrstu setninguna innan evklíðskrar rúmfræði. Svona mætti lengi áfram finna dæmi um setningar sem eru sannar (og hafa því sanngildi) og sannanlegar (en þar með ekki afsannanlegar; fyrri setningin er ekki afsannanleg innan evklíðskrar rúmfræði og hin er ekki afsannanleg ef sú fyrri er ekki afsannanleg). En ég held að hvorki sannanleiki né afsannanleiki sé skilgreiningaratriði á setningum sem hafa sanngildi heldur er það frekar afleiðing af því að setningar hafi sanngildi að sumar þeirra eru sannanlegar og sumar afsannanlegar.
Ég lagði aftur á móti sterkari skilning í orðið “afsannanlegur” þannig að þegar sé segi að setningin P sé afsannanleg þá á ég við að það sé beinlínis hægt að sanna að ekki-P. Til dæmis hefði ég þá skilið þann sem ætlaði að afsanna tilvist guðs sem svo að hann ætlaði beinlínis að sýna að guð væri ekki til, en ekki bara að sýna að tiltekin sönnun á tilvist guðs gengi ekki upp (þá væri nú margbúið að afsanna tilvist guðs). það má deila um það hvort það sé skynsamlegt af mér að fara svona með orðið. En afleiðing af þessum talsmáta er þá sú að setningin “guð er til” ekki afsannanleg því það er ekki hægt að sanna að guð sé ekki til, alveg eins og það er ekki hægt að sanna að guð sé til (ég geng út frá því að allar sannanir sem settar hafa verið fram séu á einhvern hátt gallaðar en auðvitað þyrfti að skoða hverja meinta sönnun fyrir sig; það er efni í aðra umræðu).
Með því að vísindalegar kenningar eigi að vera hrekjanlegar er svo átt við eilítið annað, nefnilega að það sé gefið upp undir hvaða kringumstæðum kenningin væri talin röng. Einstein gaf til að mynda upp aðstæður sem myndu afsanna afstæðiskenninguna. Kenningin felur ýmislegt í sér um tíma og rúm, ljós, hraða, massa o.s.frv. Ef við sjáum ljós haga sér með hætti sem stangast á við það sem kenningin kveður á um þá er kenningin röng. Til samanburðar má taka gervivísindi eins og stjörnuspeki. Þar er aldrei tekið fram undir hvaða kringumstæðum stjörnuspekikenning yrði talin röng. Stjörnuspekin segir okkur til dæmis að naut séu svona og hinsegin í skapinu og ef þau eru fædd þegar Venus skín í vestri eða guð má vita hvað, þá verða þau fúllynd og frek. En einhverra hluta vegna er alveg sama hvaða mann fólk reynist hafa að geyma, stjörnuspekingar álykta aldrei að kenning þeirra sé röng, heldur er alltaf einhver frekari skýring til. Og vegna þess að það er alltaf fundin einhver frekari skýring á öllu sem stangast á við upphaflegu kenninguna er stjörnuspeki ekki hrekjanleg og hefur þar með nákvæmlega ekkert vísindalegt gildi. Svona er maður nú undir áhrifum Karls Popper :)
___________________________________