Stundum hef ég það á tilfinningunni að það sé ekki til neitt „núna“. Eða að hugtakið sé a.m.k. merkingarlaust í víðara samhengi. Sumir hlutir gerast á undan eða eftir öðrum hlutum í alheiminum, það getur verið satt, en það er ekkert pláss fyrir núið inn í þetta. Mér er skapi næst að kalla þetta svokallað nú einfaldlega blekkingu hugans, hugurinn setur skynjunina svona upp, til þess að koma einhverri reiðu á hlutverk sitt í tilverunni, til þess að staðsetja sérhverja skynjun fyrir sig. Mér finnst ekkert nauðsynlegt fyrir tímann að líða frekar áfram en afturábak, eða líða yfirhöfuð eitthvað, það er eiginleiki sem tilheyrir skynjuninni en ekki tímanum. Hlutverk tímans er frekar að staðsetja atburði innbyrðis. Einhverskonar eiginleiki orku, krafta eða orsaka/afleiðinga, eins og lögun rúmsins. Á hinn bóginn mætti þá segja að þar sem örlögin ráðast ekki á einhverju „núi“, þá hljóti þau að vera fyrirfram og alltaf ákveðin. Mörgum er meinilla við þá tilhugusun. Það er allt í lagi.