Það fer auðvitað alveg eftir því við hvað heimspekingar vinna hver borgar þeim. En það er reyndar ekki alveg ljóst hvað þú átt við með orðinu “heimspekingur”.
Ef þú átt við atvinnuheimspekinga, þ.e.a.s. fólk sem hefur atvinnu af því að vera heimspekingar, þá vinna þeir yfirleitt á einhvern hátt í akademíunni, eru prófessorar og kenna heimspeki í háskólum eða kenna heimspeki annars staðar, þeir ritstýra tímaritum um heimspeki og fá þá greitt fyrir það frá útgefandanum sem er yfirleitt alltaf einhver háskólaútgáfa og semja sjálfir bækur sem seljast misvel.
En með orðinu “heimspekingur” geturðu líka átt við fólk sem hefur menntað sig í heimspeki en vinnur ekki endilega við kennslu. Og við hvað vinna þá heimspekingar í þeim skilningi? Nú þeir vinna við það sama og sagnfræðingar, málvísindamenn og mannfræðingar, stjórnmálafræðingar, íslenskufræðingar, fornfræðingar og bókmenntafræðingar sem eru ekki að kenna sín fög, svo nokkur dæmi séu nú nefnd. Öll þessi menntun er fyrst og fremst góð almenn menntun sem undirbýr fólk fyrir margvíslegustu störf, jafnvel þótt íslensk starfsmenntunarárátta viðurkenni það ekki alltaf.
Upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar er til að mynda heimspekingur heimspekingur. Annar heimspekingur er prófstjóri Háskóla Íslands, einn er útgáfustjóri Háskólaútgáfunnar og enn einn var aðstoðarmaður rektors Háskóla Íslands. Meira að segja Jóhannes Páll II páfi var menntaður í heimspeki og kenndi um hríð siðfræði við kaþólskan skóla.
Eins og fram kemur
hér á vefsíðu
Heimspekiskorar Háskóla Íslands hafa nemendur þaðan margir hverjir haldið út í framhaldsnám í heimspeki og ratað síðan í kennslu bæði á háskólastigi og einnig á grunn- og framhaldsskólastigi en þar að auki hafa sumir þeirra “náð árangri á sviðum hagfræði, lögfræði, bókmenntafræði, sagnfræði og stærðfræði”.
Margir hafa valist “í störf í mennta- og menningarstofnunum, fjölmiðlum, fyrirtækjum og stjórnmálum” og "[á] meðal útskrifaðra heimspekinga frá Háskóla Íslands má nefna alþingismenn, bæjarstjóra, stjórnarerindreka, þáttagerðamenn í sjónvarpi og útvarpi, blaðamenn, kynningarfulltrúa, textagerðarfólk, kennara, skáld og kvikmyndagerðarmenn".