Ég heyrði einu sinni sögu, sem er eitthvað á þessa leið: Flökkumaður kom að bæ einum í fjarlægu landi og ákvað að hvílast þar um stund og skoða sig um. Hann hafði tekið eftir bænum úr fjarlægð þar sem að risastór bygging reis upp úr miðju hennar og sást mannvirkið langar leiðir. Þegar hann hafði komið í bæinn tók hann eftir því að allir voru að vinna hörðum höndum við að stækka turninn, hann sá langar raðir fólks streyma upp í turninn og með efni og hverfa svo úr augsýn lengst upp í loftinu og svo virtist sem að þau ætluðu að byggja turninn eins hátt og þau kæmust. Á meðan hann dáðist að turninum tók einn verkamaður eftir honum og um leið henti hann frá sér öllu byggingarefni og hljóp að honum. Hann spurði hann móðursýkislega hvort hann væri ferðamaður og hvort hann gæti ekki tekið sig með sér eitthvert langt frá þessum stað, því hann þoldi hann ekki lengur. Hann sagði að allir í bænum væru snargeðveikir og væru sífellt að byggja þennan helvítis turn allt þar til hann hrundi undan eigin þunga, en þá byrjuðu þau bara upp á nýtt. Flökkumaðurinn leit í kringum sig og sagði að hann væri sá eini sem þættist þetta vera furðulegt svo að það væri líklegra að hann væri geðveikur og benti honum á að hvílast og hugsa sinn gang. Flökkumaðurinn var nefnilega ekki heimskur, heldur víðförull og snotur. Daginn eftir þegar hann kvaddi bæinn sá hann turninn hrynja og heyrði fagnaðar læti brjótast út, í fjarska sá hann svo að fólkið var byrjað að byggja turninn aftur.
Ok, ég er ekkert sérstakur sögumaður, en ég held ég hafi komið boðskapnum á framfæri. Ehm, hvað er ég að reyna segja? Ég er ekki alveg viss, en siðfræðin gerir samt greinar mun á siðferðisreglum og siðferðislegu álitamáli. Ef að allstaðar í heiminum væri fólk að byggja turn, þá myndi líklegast engum finnast þetta fáránleg saga. Málið er að það eru sumir hlutir sem að virðast vera sjálfsögð skoðun í flest öllum samfélögum nútímans. T.d. er morð álitið af öllum samfélögum rangt (stundum er sú regla beygð innan sumra samfélaga, það er í lagi að drepa suma en aðra ekki, eftir því hvað þeir eru og hvað þeir hafa gert) og fólk leitast við það að koma í veg fyrir slíkt og refsa fyrir slíkt. Sá sem að er gegn þessari skoðun, að morð sé rangt, er sá sem að hefur ranga skoðun. Reglan virðist vera að það sem að manninum finnst almennt rangt er rangt og lengra gengur það ekki ;)
Síðan eru aðrir hlutir eins og fóstureyðingar sem að kallar á siðferðislegt álitamál.
Svo er annað mál að maður hefur skoðanir sem að maður veit að eru réttar (eða manni finnst vera réttar?) og sjái maður að einhver sé ekki sammála þessari skoðun og rök hans fyrir sinni skoðun eru lélegar þá átt þú eftir að leitast við það að sýna fram á með rökum að þín skoðun sé réttari. Það er ekkert óeðlilegt við þessa hegðun (þ.e. svo lengi sem að maður man eftir rökunum) og þessi aðferð er líklegast það sem að við gætum kallað að nálgast rétta breytni, við reynum að breyta rétt (þ.e. vera samkvæm skoðunum okkar) og þar með gætum við í raun ekki verið að gera rangt, finnst manni alla veganna. Svo sá maður sem að finnst morð vera í lagi ef það hentar honum, er hann að breyta rétt þegar hann drepur af hentisemi? Það efast ég um, því þá væri hann að brjóta við þessa almennu siðferðisreglu (sem virðist vera eins og einhver stjórnarskrá skoðana).
Annars er þetta svar ekkert svar við spurningunni enda mínar skoðanir frekar ómeltar, en ef að þær gagnast einhverjum, þá er það ágætt.